Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 28. nóvember 2002 kl. 11:18

Kristján Pálsson: Óásættanlegt að Suðurnesjamenn hafi ekki meira vægi á listanum

Stuðningsmenn Kristjáns Pálssonar alþingismanns heyja nú mikla baráttu fyrir áframhaldandi þingsetu hans, eftir að uppstillinganefnd Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi setti hann ekki á lista flokksins fyrir komandi alþingiskosningar. Kristján segir í viðtali við Víkurfréttir að það sé algerlega óásættanlegt að Suðurnesjamenn hafi ekki meira vægi á listanum en uppstillingarnefnd gerir ráð fyrir.
Af hverju heldurðu að ekki hafi verið gert ráð fyrir þér á lista flokksins?Ég held að þetta sé klaufaskapur og í rauninni mistök við skipulag á þessu upphaflega. Það er verið að ganga út frá því að skipa á listann eftir hólfum, en ekki eftir fólki. Það er náttúrulega óásættanlegt að Suðurnesjamenn hafi ekki meira vægi á listanum en uppstillingarnefndin gerir ráð fyrir.

Finnst þér óeðlilegt að ekki sé gert ráð fyrir þér, sem sitjandi þingmanni á listann?

Mér finnst það rakinn dónaskapur.

Er eitthvað sem þú hefur gert sem fer fyrir brjóstið á uppstillingarnefnd?

Ég veit ekki til þess og ég hef ekki heyrt neitt einasta orð um það. Ég kannast ekki við það að hafa gert nokkurn skapaðan hlut af mér eða unnið gegn hagsmunum Suðurnesjamanna, nema síður væri.

Lagðir þú of mikla áherslu á að fá fyrsta sætið?

Ég taldi það eðlilegan metnað af minni hálfu að stefna á fyrsta sætið, en sagði jafnframt að ég vildi vera heiðarlegur í þessu og sagði að ef Drífa Sigfúsdóttir yrði efst á Suðurlandi þá myndi ég ekki gera athugasemdir við það. Ég sagði einnig að ef að það væri ætlunin að breyta þessu og setja annan upp fyrir mig af hinum þingmönnunum, þá fyndist mér að ég þyrfti að fá skýringu á því og rökstuðning.

Nú hefur verið mikið rætt um búsetu í kjördæminu og hverjir telja sig Suðurnesjamenn og hverjir ekki. Hvernig skilgreinir þú þig?

Ég skilgreini mig sem Suðurnesjamann og á heima í Kjarrmóanum. Menn geta varla verið meiri Suðurnesjamenn en þeir sem búa hér á staðnum og eru innan um fólkið hér.

Hvað viltu segja um það að Árni sé settur í fyrsta sætið?

Ég vil ekkert segja um það því mér finnst engin ástæða til þess. Mér finnst að það hefði átt í þessu ferli að horfa á hvernig staða þingmanna er í dag og hvernig prófkjör fóru. Það er ekkert í loftinu hér í kjördæminu sem bendir til þess að fólk hafi gert ráð fyrir breytingum.

Heldurðu að tillögum kjörnefndar verði hnikað með tillögum frá þínum stuðningsmönnum?

Ég vona það og trúi því að það verði gert.

Ef tillögurnar breytast ekki - hyggurðu á sérframboð?

Nei.

Myndirði sætta þig við 4. sætið?

Ég þyrfti að skoða það.

Hvað viltu segja við Suðurnesjamenn?

Ég er afskaplega þakklátur fyrir það hvað ég hef fengið mikinn stuðning og hvað ég hef fundið fyrir mikilli bylgju út af þessu máli. Fólk skilur ekki hvernig hægt er að standa svona að málum eins og gert hefur verið.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024