Kreppa í boði ríkisstjórnarinnar
Í nafni „góðrar stjórnsýslu“ hefur Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra fellt úr gildi ákvörðun Þórunnar Sveinbjarnardóttur, fv. umhverfisráðherra, frá því í apríl 2008 um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína og öðrum tengdum framkvæmdum.
Sem sagt, núverandi ráðherra afturkallar meira en ársgamla, lögmæta ákvörðun fyrrverandi ráðherra og sendir þau skilaboð út til samfélagsins að stjórnsýsluákvarðanir séu þannig háðar geðþótta viðkomandi ráðherra.og leyfir sér svo að kalla það góða stjórnsýslu. Þvílík fjarstæða.
Stjórnsýslan á nefnilega að vera hafin yfir geðþótta. Borgararnir í þessu landi, hvort sem það eru fjárfestar í orkufrekum iðnaði, notendur rafmagns á Suðurnesjum eða félagar í Náttúruverndarsamtökum Íslands, eiga að geta treyst stjórnsýslunni. Með lögum er tryggt að verkefni skuli unnin eftir ákveðnu ferli, andmælaréttur tryggður og kærufrestir gefnir. Þórunn Sveinbjarnardóttir staðfesti lögmætan úrskurð Skipulagsstofnunar á sínum tíma, Náttúruverndarsamtök Íslands kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar eftir að lögbundinn kærufrestur var liðinn. Og núverandi umhverfisráðherra byggir ákvörðun sína m.a. á þeirri of seint tilkomnu kæru. Og kallar það góða stjórnsýslu. Þvílík fjarstæða.
Auðvitað snýst ákvörðun umhverfisráðherra ekkert um stjórnsýslu. Hún snýst um það að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna er á móti nýtingu orku til atvinnuuppbyggingar í landinu. Hvað sem menn reyna að breiða yfir það með ömurlegum afsökunum og tafapólitík þá er þetta svo einfalt. Í stað góðrar stjórnsýslu er stjórnsýslunni þvert á móti misbeitt og má þar nefna töf umhverfisráðuneytisins á staðfestingu skipulags vegna virkjana í Neðri Þjórsá sem annað dæmi. Brellupólitík iðnaðarráðherra varðandi viljayfirlýsingu vegna álvers Alcoa á Bakka er enn eitt dæmið. Ríkisstjórnin vill ekki álver á Bakka, en í stað þess að segja það á nú að þæfa mál og flækja út í það óendanlega með endalausum áætlunum og innantómri frasapólitík að hætti Samfylkingarinnar. Ríkisstjórnin notar þannig hvert tækifæri sem gefst til þess að bregða fæti fyrir atvinnutækifæri í landinu.
En á tyllidögum talar þetta sama fólk um að það þurfi að gera eitthvað annað og firrist við þegar það er krafið um nánari útskýringu á þessu eða ein- hverju öðru. Eitthvað annað er allt annað en álver, allt annað en stóriðja eitthvað annað er græn stóriðja. Þeim sömu til upplýsingar skal á það bent að græna gagnaverið sem rísa skal á Ásbrú og kísilverið sem rísa skal í Helguvík þurfa líka að fá orku eftir rafmagnslínum, þeim sömu og álverið í Helguvík. Þannig hefur ákvörðun umhverfisráðherra líka sett þá framkvæmd í uppnám.
Nú er einfaldlega nóg komið. Við Íslendingar getum svo sannarlega unnið okkur út úr kreppunni, til þess höfum við öll tækifæri. En það gerum við ekki þegar ríkisstjórnin hefur einsett sér að viðhalda henni með öllum ráðum. Það er ekki nóg að utanríkisráðherra messi í útlöndum um yfirburði okkar í nýtingu orkuauðlindanna hann þarf að taka þá predikun við ríkisstjórnarborðið fyrst.
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Höfundur er alþingismaður.