Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kraftur í undirskriftasöfnun
Miðvikudagur 4. mars 2015 kl. 08:46

Kraftur í undirskriftasöfnun

Stuðningsfólk Sr. Erlu Guðmundsdóttur skrifar.

Óhætt er að segja að undirskriftasöfnun sú sem fór af stað síðastliðinn miðvikudag byrji með krafti. Raunar eru viðtökurnar betri en við höfðum þorað að vona og er þó leitun að jafn bjartsýnu fólki og okkur sem stöndum að þessu framtaki.
 
Í ljós hefur komið hversu frjór jarðvegur er í Keflavíkursókn fyrir því lýðræðislega framtaki sem þetta er. Ef allt gengur eftir fær fólkið sjálft að velja sinn sóknarprest. 
 
Þetta segir okkur mikið um þann kraft sem býr í samfélaginu í kringum Keflavíkurkirkju. Raunar ekki það að koma á óvart. Kirkjan hefur teygt sig til fólksins og lagað starf sitt að þörfum þess. Samkomur í kirkjunni hafa laðað til sín fjölda gesta, stundum hefur verið svo fullt út að dyrum að ekki hefur verið rúm fyrir alla í kirkjunni. Nú þegar kirkjan kallar á skoðanir fólksins stendur því ekki á viðbrögðum. Þessu ber sannarlega að fagna.
 
Slíkur áhugi er þó fjarri því sjálfgefinn. Hann er afrakstur þeirrar menningar sem ríkt hefur í Keflavíkurkirkju undanfarin ár. Séra Erla Guðmundsdóttir á stóran þátt í að skapa þá menningu. Fráfarandi sóknarprestur hafði það á orði í viðtali í Víkurfréttum að án framtaks séra Erlu hefði aldrei reynst kleift að skapa það öfluga safnaðarstarf i kirkjunni sem raun ber vitni.
 
Verum því vakandi og styðjum kirkjuna okkar nú þegar hún þarf á okkur að halda. Setjum nafn okkar á undirskriftalistana og vinnum að því að kirkja fólksins fái þann sóknarprest sem mun áfram efla hana á þeirri góðu leið sem hún er á.
 
Nú vantar bara herslumuninn svo lýðræðið nái fram að ganga. Undirskriftalistar liggja hjá TM tryggingamiðstöðinni, SI verslun Hafnargötu, Kóda verslun og hárgreiðslustofunni Carino hjá Nettó.
 
Axel Jónsson
Anna Sigríður Jóhannesdóttir
Guðmundur Steinarsson
Gunnhildur Vilbergsdóttir 
Konráð Lúðvíksson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024