Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kosningaverksmiðja ársins 2006
Föstudagur 20. janúar 2006 kl. 10:12

Kosningaverksmiðja ársins 2006

Foringi sjálfstæðismanna í atvinnumálum hér í Reykjanesbæ, Þorsteinn Erlingsson skrifar í síðasta tölublað Víkurfrétta grein um kosti þess að reisa álver í Helguvík. Tiltók Þorsteinn10 ástæður máli sínu til stuðnings. Reyndar voru ástæðurnar sem hann nefndi 11 en ekki 10.
Sú síðasta sem hann númeraði reyndar ekkert sérstaklega, um að við hefðum Árna Sigfússon sem bæjarstjóra og Júlíus Jónsson sem hitaveitustjóra, lýsir í raun hvers konar Súpermannasamfélag hann vill skapa hér.

Sjálfstæðismenn eru eina ferðina enn að búa til kosningaverksmiðju. Þær eru orðnar ófáar, en hafa hvergi sést nema í kosningaplöggum sjálfstæðismanna og í neikvæðum tölum í efnahagsreikningi sveitarfélagsins. Mér dettur ekki í hug að skipa mér í einhvern flokk, með eða á móti álveri í Helguvík á þessu stigi málsins. Málið er allt of skammt á veg komið til þess. Hins vegar vil ég vegna háflugsins í Þorsteini Erlingssyni koma aðeins niður á jörðina með þetta mál og tiltaka nokkur atriði sem munu þarfnast nánari skoðunar.
Þorsteinn nefnir áhuga á Century Aluminium á byggingu 250 þúsund tonna álverksmiðju í Helguvík. Þeir vilji byrja 2008 og hefja rekstur 2010. Það er skiljanlegur áhugi álfyrirtækis í ljósi þess að álverð er í sögulegu hámarki og verður það væntanlega áfram.

Hvar gætum við verið í álröðinni?

Framkvæmdum við álver á Reyðarfirði er hvergi nærri lokið. Þær munu standa yfir í a.m.k. 2 ár til viðbótar, jafnframt því sem stækkunarframkvæmdir á Grundartanga eru í fullum gangi. Álverið í Straumsvík verður stækkað og áhugi norðanmanna á byggingu álvers á Norðurlandi hefur legið fyrir í áraraðir. Þar virðist vera að nást sátt um staðsetningu fyrir norðan og því ekkert til fyrirstöðu að hefjast handa. Ráðherra iðnaðar og viðskipta kemur einnig frá því svæði og ekki mun það skemma fyrir. Því tel ég ekki rétt að gera ráð fyrir að Suðurnesin eigi nokkra möguleika næsta áratuginn að minnsta kosti.

Alþjóðasamþykktir
Íslendingar eru aðilar að Kyoto-bókunni svokölluðu, sem er bókun við rammasamning SÞ um loftlagsbreytingar frá árinu 1997. Þar undirgengust margar þjóðir að draga úr loftslagsmengun eins og hún var árið 1990. Nokkrar þjóðir fengu undanþágu frá þessu ákvæði á ýmsum forsendum. Íslendingar fengu slíka undanþágu þegar þeir undirgengust samkomulagið árið 2002. Samkomulagið við Íslendinga gerir ráð fyrir að útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi megi ekki aukast meira en sem nemur 10% frá árinu 1990. Það má reikna með að þegar álverið á Reyðarfirði verður komið í full afköst og framleiðsla hefur aukist, bæði á Grundartanga og í Straumsvík, verði lítið eftir af þessum aukamengunarkvóta sem Íslendingar fengu.

Ruðningsáhrif

Við upphaf framkvæmda við Kárahnjúka urðu margir til þess að vara við þeim ruðningsáhrifum sem slík risaframkvæmd hefði í för með sér. Íslenska hagkerfið væri það lítið að samkeppnisstöðu margra starfsgreina yrði raskað verulega. Því miður hafa varnaðarorð þessara aðila ræst. Fyrirtæki í fiskvinnslu, sprotafyrirtæki og hátæknifyrirtæki eru farin úr landi eða hyggjast flytja vegna hás gengis íslensku krónunnar. Ferðaiðnaðurinn sem er vaxandi atvinnugrein, er ekki að auka tekjur sínar þrátt fyrir fjölgun ferðamanna. Þensla er í hagkerfinu og viðskiptahalli er sögulegur.

Þekkingarsamfélög - frumframleiðsla

Þessi áhrif hljóta að vera ráðamönnum umhugsunarefni og gera má ráð fyrir að staldrað verði við að afloknun framkvæmdum á Austurlandi og hagkerfið kælt niður.
Það getur ekki verið keppikefli neinnar þjóðar að skipta út störfum sem byggja á þekkingu og hátækni fyrir störf í verksmiðjum sem byggja á frumframleiðslu. Slíkt væri afturhvarf til fortíðar. Það er þekkingariðnaðurinn sem er að skapa þjóðum heims aukin verðmæti.

Staðsetning (Álver í miðbænum)

Suðurnesjamenn þurfa einnig að velta fyrir sér hver eigi að vera staðsetning slíkrar verksmiðju ef til hennar kemur. Nýverið gengum við til kosninga um sameiningu sveitarfélaga hér á svæðinu. Þrátt fyrir að niðurstaðan hafi orðið sú að íbúar hafi kosið óbreytt ástand, geri ég ráð fyrir að til lengri tíma verði horft til sameiningar sveitarfélaganna í Garði og Sandgerði og Reykjanesbæ. Ef til slíkrar sameiningar kæmi yrði álverið staðsett inn í sveitarfélaginu miðju. Er það ekkert til að hafa áhyggjur af?

Orkugarður - Stálpípa.

Það var fleira í kosningaplöggum sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar en stálpípverksmiðja, sem þeir hafa nú slegið af. Þar mátti m.a lesa um háleitar hugmyndir um Orkugarð, einhverskonar háskólasamfélag í kringum Hitaveitu Suðurnesja. Sú hugmynd er góðra gjalda verð, en því miður hefur minna farið fyrir umræðum um hana á þessu kjörtímabili. Súpermennirnir hans Þorsteins gætu kannski upplýst okkur um stöðu þess máls enda höfðu aðalhlutverkin verið ætluð þeim.

Það er að mörgu að hyggja þegar ráðist er í framkvæmd af slíkri stærðargráðu sem hér um ræðir.Umræðan um kosti og galla álvers í Helguvík á eftir að fara fram og það mun líða langur tími þar til til hægt verður að komast að niðurstöðu um hagkvæmi þess að reisa hér álver, ekki bara fyrir okkar samfélag, heldur þjóðfélagið allt.
Þessi verksmiðja verður ekki notuð í þessari kosningabaráttu eins og sjálfstæðismenn gjarnan vilja.
Það er gott til þess að vita að kjörnir fulltrúar hafi áhuga á atvinnumálum hér á svæðinu en ég vildi gjarnan sjá menn hugsa aðeins smærra í sniðum. Við þurfum ekki alltaf að skapa hundruði starfa í einu og leggja allt undir. Sígandi lukka er best. Við höfum glímt við einhæfni í atvinnulífi hér á Suðurnesjum og markmiðið ætti því að vera að auka á fjölbreytni til þess að sem flestir geti fengið starf við hæfi.

Guðbrandur Einarsson
bæjarfulltrúi
Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024