Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 5. febrúar 2002 kl. 21:15

Kosningaskjálfti kominn í bæjarfulltrúa

Fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar lauk rétt í þessu með fyrri umræðu bæjarfulltrúanna um þriggja ára fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og kosningu til yfirkjörstjórnar og undirkjörstjórna fyrir bæjarstjórnakosningarnar í vor. Nemar í félagsfræði við Fjölbrautaskóla Suðurnesja sátu fundinn og fylgdust með bæjarfulltrúum karpa.Fundurinn var einstklega fjörugur og skemmtilegur og má því eftir vill segja að þessir gestir hafi haft góð áhrif á bæjarfulltrúana.
Mikil umræða var um leikskólamál og gjöld foreldra fyrir þriðja og fjórða barn. Minnihlutinn fór fram á það að meirihlutinn færi aftur yfir þau mál þar sem samanaburður við önnur sveitafélög hefði verið á misskilningi byggður þar sem hádegismatur, morgun- og síðdegsihressing hefði ekki verið með inni í reiknisdæminu. Meirihlutinn hafnaði því og sagði að um svo fáar fjölskyldur væri að ræða að ekki tæki því að breyta stefnu bæjarins í málinu. Ellert Eiríksson sagði að þessar fáu barnafjölskyldur sem þyrftu á þessu að halda gætu sótt aðstoð til fjölskyldu- og félagsmálasviðs bæjarins, án þess að vera undir fátækramörkum.
Fjármál bæjarins voru einnig til umræðu og afskipti Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitafélaga að fjárhagsafkomu Reykjanesbæjar. Jóhann Geirdal og Kristmundur Ásmundsson létu bóka á Bæjaráðsfundi 17. janúar að niðurstaða eftirlitsnefndarinnar væri í samræmi við þær athugasemdir sem bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa sett fram við afgreiðslu reikninga og fjárhagsáætlana að undanförnu.„Við teljum því mikilvægt að nefndinni verði svarað og af gefnu tilefni leggjum við áherslu á að nefndinni verði send rétt svör", sagði í bókuninni. Kjartan Már Kjartansson (B) svaraði þessu á fundinum og sagði að af málflutningi minnihlutans mætti ráða að til stæði að senda rangar upplýsingar en það stæði ekki til núna frekar en áður. „Öllum dylgjum um að upplýsingum til eftirlitsnefndar sveitafélaga séu ekki réttar er vísað til föðurhúsana" og vísaði hann þar í bókun meirihlutans síðan 17. janúar. Þar segir að „núverandi fjárhagsstaða Reykjanesbæjar sé í samræmi við áætlanir og þær upplýsingar sem eftirlitsnefndinni voru veittar í fyrra. Það er ljóst að Reykjanesbær mun fá slíkar fyrirspurnir næstu tvö til þrjú árin á meðan er verið er að ná jafnvægi í skuldastöðunni". Ellert Eiríksson (D) hvatti fólk til að fylgjast vel með niðurstöðu eftirlitsnefndarinnar, því þar á bæ sættu menn sig ekki við neinar brellur og hefðu endurskoðendur sem færu gaumgæfilega yfir öll mál. Fundinum lauk með því að farið var yfir þriggja ára fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar en henni var vísað til annarar umræðu sem fer fram 19. febrúar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024