Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur, takk fyrir mig
Þriðjudagur 20. febrúar 2007 kl. 18:01

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur, takk fyrir mig

Leiksýningin Pabbinn sem Körfuknattleiksdeild Keflavíkur stóð fyrir s.l sunnudag var frábær skemmtun og lofsvert framtak skipuleggjendanna.


Vil ég þakka stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, sem stóð fyrir komu leiksýningarinnar til Reykjanesbæjar. Var leikritið sett upp í Íþróttahúsinu við Sunnubraut í samvinnu við leikarann Bjarna Hauk Þórsson, en hann sló í  gegn með leiksýningunni Hellisbúanum fyrir nokkrum árum. Það er skemmst frá því að segja að Pabbinn er ekki síðri svo ekki sé meira sagt.
Það vakti hins vegar athygli mína þegar ég leit yfir áhorfendahópinn að sjá ekki neitt einasta andlit bæjarstjórnarmanna á sýningunni né kjörinna fulltrúa í menningarnefnd bæjarins. Slíkt tel ég miður. Það er ekki á hverjum degi sem boðið er upp á leiksýningar í okkar ágæta bæ, leiksýningar sem eru á fjölunum í leikhúsum höfuðborgarinnar.


Körfuknattleiksdeildin lagði mikið upp úr þessari sýningu og var allt tilstandið til mikillar fyrirmyndar. Ég vil hvetja deildina í áframhaldandi góðra verka á þessu sviði en einnig vil ég hvetja bæjarstjórnarmenn og aðra kjörna fulltrúa okkar að sýna í verki áhuga á öllum þeim góðu hlutum sem verið er að gera í bænum með því að láta sjá sig á  fjölbreyttum uppákomum hinna fjölmörgu félaga í bænum allt kjörtímabilið en ekki með sýndarmennskuáhuga korter fyrir kosningar á fjögurra ára fresti.

Brynja Lind Sævarsdóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024