Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Konur, ég bið ykkur afsökunar
Sunnudagur 31. október 2010 kl. 18:14

Konur, ég bið ykkur afsökunar

Óheppileg orð mín þegar ég kallaði fjármálaráðherra kerlingu hrukku mér af munni í hita leiksins á heitum fundi um atvinnuástandið á Suðurnesjum og ég bið allar konur afsökunar á því. „Kerlingabók“ þýðir kredda eða hjátrú samkvæmt íslenskri orðabók Menningarsjóðs. Mér þykir leitt að hafa notað samlíkinguna „eins og kerling“ þegar ég ræddi um framgöngu Steingríms J. á atvinnumálafundinum í Stapa. Ef einhver reynir að snúa þeim orðum mínum upp í niðrandi tal til kvenna finnst mér það mjög miður, enda vita allir að ég á ekkert slíkt til í mínu fari. Ég vona að allir hafi skilið samhengið og orðnotkunina og alls ekki átti þetta yfir konur almennt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég sé mig knúinn til að svara grein Oddnýjar G. Harðadóttur í VF. Með því að hengja sig á mína óheppilegu orðnotkun er Oddný að hlaupa frá umræðunni sem skiptir máli, hún er ekki að ræða atvinnuástandið á Suðurnesjum sem ætti þó að vera henni mesta áhyggjuefnið. Hún notar sama herbragðið og Samfylkingunni er svo tamt – að láta aukaatriðin verða aðalatriðin. Oddný er þarna, ein þingmanna, að draga athyglina frá umræðunni um atvinnumál á Suðurnesjum og framkomu ríkisstjórnarinnar með því að gera þessi óheppilegu ummæli mín að aðalatriði fundarins.


En þá spyr ég - hvar eru tillögur Oddnýjar í atvinnumálum á Suðurnesjum og hver er þátttaka hennar í þeim umræðum á Alþingi. Þar æpir þögn hennar á okkur Suðurnesjamenn. Á miðjum fundinum í Stapa gekk hún af fundi þar sem fólkið beið eftir svörum, svörum sem komu ekki frá þingmanni sem lét sig hverfa af fundi þegar fólkið þurfti mest á stuðningi hennar að halda.

Á fundi sveitarstjórnar- og alþingismanna í Sandgerði 22. október sl. sagði ég frá þeim áhyggjum sem stjórnendur í Flugstöðinni og á Keflavíkurflugvelli hefðu vegna fjárlagafrumvarpsins 2011. Þar er gert ráð fyrir auknum skatttekjum frá Flugstöðinni upp á 1.2 milljarða króna. Gangi þessi skattlagning eftir hefur má gera ráð fyrir hækkun lendingargjalda allt að 68-100% og í kjölfarið minnkandi flug. Það gæti leitt af sér uppsagnir starfsmanna í flugþjónustunni en svörtustu spár gera ráð fyrir að allt að 350 manns gætu misst vinnu sína á flugvellinum. Fundarmönnum fannst þessi tíðindi afar vond, nema Oddnýju G. Harðardóttur sem þegar stóð upp og gerði lítið úr orðum mínum. Hún sagði þau röng, ekkert væri hæft í málflutning bæjarstjórans í Garði. Þarna hafði Oddný tækifæri til að standa með okkur Suðurnesjamönnum og hvetja til þess að sameiginlega ættum við að vinna að því að þessar hugmyndir fjármálaráðherra næðu ekki fram að ganga. Í lok fundarins upplýsti stjórnarmaður ÍSAVÍA ohf Oddnýju um að bæjarstjórinn í Garði hefði sagt allt satt og þessar áhyggjur væru raunverulegar á Keflavíkurflugvelli. Það er með ólíkindum að í hópi þingmanna og sveitarstjórnarmanna sem á fundinum stóðu saman sem einn maður stendur Oddný ein og sér í umræðunni um þetta alvarlega mál. Hún lét sér ekki segjast og hélt áfram uppi vörnum fyrir fjármálaráðherra með því að senda okkur upplýsingar í pósti eftir fundinn um að rangt væri farið með. Þarna er raunveruleg hætta á ferð á Keflavíkurflugvelli, stór hópur starfsmenna í mörgum deildum gæti misst atvinnu sína nái fjárlagafrumvarpið í gegn með þessari skattheimtu á starfsemina. Oddnýju G. Harðardóttur er meira umhugað við stuðning við fjármálaráðherrann og frumvarp hans um að drepa niður starfsemi á Keflavíkurflugvelli með skattlagningu, en að styðja við starfsfólkið og atvinnustarfsemi á Suðurnesjum.

Einleikur hennar gegn atvinnulífinu er ótrúlegur í ljósi þess að stuðningur hennar við þau verkefni sem eru í undirbúningi er enginn, hvorki í umræðum á Alþingi eða með samráði við okkur sveitarstjórnarmenn eða fyrirtæki. Þögn hennar er æpandi þegar kemur að uppbyggingu atvinnulífsins á Suðurnesjum og hún virðist ekki hreyfa litla fingur til að hafa áhrif á liðið sem hún styður svo dyggilega í ríkisstjórninni. Hún er ekki lengi að láta heyra í sér með að skamma mig í grein fyrir ímyndaða kvennaniðurlægingu. En hvar höfum við séð skrif hennar gegn þeim sem reyna að niðurlægja okkur Suðurnesjamenn? Hvar hefur hún skrifað skammir í garð nýju vina sinna sem hafa setið á atvinnuverkefnum á meðan hún hefur setið og þagað á þingi? Hvar?

Ég vil taka fram eins og ég sagði á fundinum að við höfum átt í afar góðu samstarfi við Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra og Kristján Möller formann iðnaðarnefndar og þau leggja sig fram um að verkefnin sem við vinnum að á Suðurnesjum nái fram að ganga. Það samstarf er til fyrirmyndar og ríður baggamun í því að málin eru að þokast í rétta átt þessa dagana.

Það er vegið að sjúkrahúsþjónustu, það er búið að draga álversmálið í heilt ár, það var næstum búið að skola burt 100 milljörðum með vitlausum Icesave samningi sem Oddný greiddi atkvæði með og það var lítill stuðningur við Keili á meðan hún var formaður menntamálanefndar.


Þegar öllu er á botninn hvolft þá kom ráðherrann með engin svör á fundinum í Stapanum, sagði ekkert á borði ríkisstjórnarinnar sem tefði málin, ef svo er þá er það vegna þess að þau geta ekki tafið málin lengur, það er hvorki Oddnýju eða Steingrími að þakka! Mér fannst þetta léleg frammistaða og ég stend við það!


Ásmundur Friðriksson
bæjarstjóri í Garði