Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kominn aftur
Föstudagur 24. janúar 2014 kl. 09:30

Kominn aftur

Hvernig liði þér ef þú í sexhundruð manna samkvæmi yrðir útnefndur leiðinlegasti maðurinn í samkvæminu?

Við tölum mikið og oft rætt um að eitt stærsta vandamál Reykjanesbæjar sé ímyndarvandamál. Að við getum leyst það með því að tala vel um okkur sjálf og þannig leysist málið með tímanum. Er það ekki svipað og að tala um að byggja hús, en gera ekkert meira í málinu og koma svo eftir sex mánuði og reikna með að húsið standi á staðnum.

Óvænt hótun mín um brottflutning úr bænum sökum lítils brandara á þorrablóti Keflavíkur hefur nú að því er virðist sett nokkuð mark á umræðuna. Og var til þess gerð. Ekki sem brandari heldur fyrst og fremst til þess að beina augum okkar að samfélagsvandamáli í bænum okkar, sem bætir ekki ímyndina, heldur er fyrst og fremst til þess að letja fólk til þátttöku og gagnrýninnar hugsunar á því hvert stefnir. Samfélag sem ekki er meðvitað um hvert það stefnir, getur varla vænst góðs.

Í fyrstu hafði ég hreint ekki hugað að því að hafa neina skoðun á þeim brandara sem að mér var beint á þorrablóti þessu, en sá að sumir kunningjar og ættingjar tóku þetta nær sér en ég gerði. Þetta varð að stöðva. Þeir höfðu sennilega ekki hlustað nægilega vel á það sem sagt var, eða miskilið. Þannig er það oft.

Ég var ekki, eins og í greinarskrifum mínum, sagði útmálaður neikvæðasti maðurinn í bænum, heldur tiltekinn ákveðinn fjöldi greina sem ég hafði skrifað um neikvætt málefni sem ekki var hægt að fjalla um á jákvæðan hátt. Á því er reginmunur sem misskildist eða var túlkaður að þeim er heyrðu að ég væri neikvæður. Það skiptir nefnilega máli hvernig hlutirnir eru sagðir eða uppsettir. (Sé fjöldi greinanna réttur, hef ég bara verið nokkuð duglegur, og á skilið klapp á bakið fyrir það að minnsta kosti)

Það hefur því miður verið vandamál í bænum okkar að þeir sem skoðanir hafa haft og gagnrýnt meirihlutann sem hafa setið undir að hafa verið útmálaðir sem neikvæðnisrausarar, samt hefur flest það sem þeir hafa sagt og varað við gengið eftir. Er ekki komin tími til að hættum að metast um hver er jákvæður og hver er neikvæður en ræðum málin er að baki liggja og skipta máli? Þannig mun árangur nást og margumtöluð ímynd hugsanlega breytast.

P.S. Flyt sennilega ekki úr bænum, en ef þá í mesta lagi til Njarðvíkur, eftir þorrablót þeirra.

Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024