Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 4. desember 2001 kl. 09:22

„Kom verulega á óvart hvað það var erfitt að eiga við bæjaryfirvöld“

Þann 30. Nóvember síðastliðinn birtist frétt á www.vf.is undir sömu fyrirsögn og prýðir þennan pistil. Þegar ég sá fyrirsögnina hélt ég í fáfræði minni að einhver einstaklingur sem verulega þyrfti á aðstoð hins opinbera að halda, hefði verið svikinn um þjónustu sem hann ætti rétt á, og las því áfram. Annað kom á daginn. Þarna var sem sagt maður, Pálmi Þó Erlingsson framkvæmdastjóri Lífsstíls, að kvarta undan því að stjórnendur Reykjanesbæjar hefðu ákveðið að veita honum, og hans fyrirtæki, ekki aðgang að peningum annarra til að halda íþróttamót.
Ég hef fullan skilning á því að íþróttamót eins og það sem umræddur maður stóð að, sé af hinu góða ekki síst í sveitarfélagi eins og Reykjanesbæ þar sem íþróttir eru einn af hornsteinum samfélagsins. En það þýðir samt ekki að stjórn sveitarfélagsins eigi að veita peningum, sem það hefur fengið frá borgurunum, í slík verkefni. Allra síst þegar efnahagsástandið er eins og og það er í dag. Helsta röksemd umrædds manns var að hann væri að koma ,,…með stóran íþróttaviðburð hingað á svæðið sem gefur af sér tekjur”. Það var gott að viðburðurinn gaf af sé tekjur, hvort sem þær tekjur runnu í vasa framkvæmdaaðila viðburðarins eða annarra þjónustuaðila í nágrenninu. Ef Pálma finnst hann eiga einhver sérstakar þakkir skilið fyrir að aðrir hafi hagnast af þessum viðburði, þá er kannski rétt að þakka honum fyrir. Viðskipti hafa sem betur fer tilhneigingu til að smita út frá sér þannig að fleiri en bara tveir aðilar hagnist á þeim, alveg án þess að opinberir aðilar komi þar nærri. Auk þess bendir sú staðreynd að flestir keppendur í umræddu móti voru úr Reykjanesbæ, til þess að íþróttin dafni bara vel án afskipta sveitarfélagsins.
Ég vil lýsa yfir ánægju minni með festu stjórnar sveitarfélagsins í því að halda krumlum sérhagsmuna frá peningum borgaranna. Vonandi er þetta það sem koma skal, sérstaklega í ljósi komandi kosninga.
Mót þetta var haldið af einkafyrirtæki í Reykjanesbæ og er það gleðiefni þegar einstaklingar og fyrirtæki í Reykjanesbæ standa sig svona vel. Fyrirtækið ætti einmitt að sjá hag sinn í því að óþarfa eyðsla sveitarfélagsins sé í lágmarki. Á þann hátt væri hægt að lækka skatta í sveitarfélaginu og leyfa fólki að ráðstafa sínum peningum sjálft. Hægt er að leiða getum að því að fleiri hefðu þá ráð á að nýta sér þjónustu fyrirtækisins. Það er nefnilega svo að einstaklingum gengur yfirleitt betur þegar opinberir aðilar eru ekki of afskiptasamir. Í fréttinni kemur einmitt fram að mótið ,,...tókst glimrandi vel”, og því greinilega engin þörf á stuðningi sveitarfélagsins.
Ég vil óska Pálma og hans fyrirtæki alls hins besta við skipulagningu næsta viðburðar, án skattpeninga bæjarbúa. Ennfremur vil ég fyrir hönd íbúa Reykjanesbæjar, þakka stjórn sveitarfélagsins fyrir að halda svo vel um fjármálin í þessu máli og vona að framhald verði á.

Róbert Ragnarsson
Bréfritari er stjórnmálafræðingur og borinn og barnfæddur Keflvíkingur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024