Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Klipping runna og rósa
Sunnudagur 17. mars 2013 kl. 10:57

Klipping runna og rósa

Kristinn Þorsteinsson garðyrkjufræðingur og fræðslustjóri Garðyrkjufélags Íslands á fundi í Keflavik mánudagskvöld.

Hann var eitthvað að klunka þetta svartþrösturinn í morgun þegar ég kom út í lognið. Ég held að hann hafi verið að benda á að vorið væri á næsta leiti, enda sjálfur farinn að íhuga körfugerð svo fremi sem hann fyndi sér kerlingu.

Röddin var óræð,enda ekki almennilega farið að lýsa af morgni. Maður veit svo sem hvað er í vændum, þekki til kauða, hann verður ákveðnari á morgun og er vís til að benda á að verk sé að vinna fyrir þá sem fagna vori. Kuldakastið sem við fengum í síðustu viku minnti okkur á að ekki er á vísan að róa, þegar Kári er annars vegar, jafnvel þótt frómir menn eins og Páll Bergþórsson og Siggi stormur telji ekkert lát á hinni eilífu blíðu sem við Sunnlendingar höfum búið við í allan vetur. Menn spyrja sig hvort kuldakastið hafi skemmt gróður, ég held ekki, því þrátt fyrir allt var þetta fremur hógvært kast. Auk þess fylgdi því ofankoma sem hlífir lággróðri og greinar runna og trjáa vindþurrkast síður. Það hægir hins vegar tímabundið á blómgun sem er af hinu góða. Krókusarnir í garði ritara eru löngu útsprungnir, sem auðvitað er stílbrot miðað við árstíma, hefðu mátt bíða í nokkrar vikur enn. Runnar og rósir farnar að laufgast svona út í hött. Nú færist tímabundinn friður yfir garðinn aftur,þannig að hægt er að átta sig á hlutunum .
Ritari plantaði nokkrum berjarunnum í garðinn hér um árið, þar á meðal stikilberjum og jostaberjum. þessir runnar gáfu töluverða uppskeru sem nýtt var til sultugerðar. Um árabil hefur hann getað notið þess að fara út í garð og ná í jarðaber í töluverðu mæli. Þeim var þar komið fyrir í kössum sem líkjast hjónarúmi án dýnu enda nokkuð lagt í við smíði þeirra. Ekkert jafnast á við að tylla sér á stokkinn, með rjómapela í hönd og stinga upp í sig berjum um leið og dreypt er á rjómanum. Þetta er hér nefnt því ritari man eftir töluverðum vonbrigðum er hann keypti fyrstu innfluttu amerísku bláberin, þessi þokkafullu ber sem voru hrein í plastöskju svo yndislega aðlaðandi. Það vantaði hins vegar bragðið sem við þekkjum svo vel úr eigin náttúru. Þetta mikla, hreina og heilsusamlega bragð sem einkennir allt sem ræktað er til nytja við náttúrlegar aðstæður hér. Langir sumardagar og bjartar nætur á meðan á vaxtarskeiði stendur veldur því að mikið af bragðefnum (aroma) safnast fyrir. Þroskinn verður hægfara, því nætur eru oft svalar. Auk þess höfum við hingað til þurft litlar áhyggjur að hafa af skaðsemi sníkjudýra. Möguleikar á tegundavali eru hins vegar ókannaðir. Ágætur stóri bróðir minn plantaði eitt sinn nokkrum hindberjaplöntum á víðavangi við sumarhús sitt að Hafravatni. Þessar plöntur hurfu um árabil og voru álitnar steindauðar. Svo gerist það að þeim tekur að skjóta upp víðs vegar í landinu, svona upp úr þurru gefandi af sér þessi gómsætu aldin. Þarna höfðu þrestir hjálpað til við húsverkin án endurgjalds.  Það  ríkir nokkur spenna yfir afdrifum ávaxtatrjáa sem nú eru á þriðja ári þarna í garðinum heima. Þau ættu að blómgast í vor ef best lætur, Við eigum endalausa möguleika.


Hvenær á að klippa og hvernig. Þetta er hin eilífa spurning sem brennur á öllum garðeigendum. Þú spyrð og færð jafn mörg svör og svarendur eru margir. Hin eina almenna regla sem gildir er að klippa á meðan gróðurinn er í hvíld. Þannig má fella greinar trjáa og forma þau þannig gróflega. Sjálfur hefur ritari pínulítið varann á þegar um klippingu runna er að ræða. Það má alveg bíða að klippa burtu kalsprotana uns maður áttar sig á hvað kalið er mikið. Ég held það geti skaðað að opna lifandi grein með klippingu of fljótt. Það er einnig auðvelt að klippa burt vitlausa grein. Ef klipping á að vera markviss þarf að vera til staðar þekking á eðli plöntunnar. Plöntur lifa áfram þótt þær séu ekki klipptar. Með klippingu er verið að ná fram ákveðnum eiginleikum og formi. Rétt klipping kann að viðhalda ríkulegri blómgun og þar með aldinmyndun og aukinni uppskeru. Klipping er tilraun til að yngja upp plöntu og hafa áhrif á vaxtarlag hennar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Röng klipping veldur vonbrigðum, kannski klippum við burt greinar sem annars hefðu blómstrað í ár. Það  er því mikilvægt að fræðast um aðferðafræðina. Við hér á Suðurnesjum erum svo heppin að geta sótt í sjóð Garðyrkjufélags Íslands um fræðsluefni frá fagfólki. Garðyrkjufélagið hefur fengið sérstaka styrki til að útbúa fræðsluefnið og miðla því til viðkomandi landshlutadeilda. Við erum ein þeirra.


Næstkomandi mánudagskvöld, 18. mars, mun Kristinn Þorsteinsson garðyrkjufræðingur og fræðslustjóri Garðyrkjufélags Íslands heimsækja okkur aftur og fræða um klippingu runna og rósa. Berjarunnar og rósir eiga vaxandi vinsældum að fagna hérlendis, garðeigendum bæði til yndis og nytja. Síðasta heimsókn hans hingað er hann fjallaði um rót vandans féll í góðan jarðveg. Það er því tilhlökkunarefni að fá hann aftur.
Fundarstaður er sem áður Húsið okkar (gamla K-húsið) við Hringbraut og hefst fundurinn kl. 20.
Léttar veitingar í fundarhléi. Aðgangseyrir 500 kr. fyrir félagsmenn, 1000 kr. fyrir aðra.
Allir velkomnir.


Fyrir hönd Suðurnesjadeildar Garðyrkjufélags Íslands.


Konráð Lúðvíksson, formaður