Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kjósum með atvinnu og vel launuðum störfum
Sunnudagur 8. nóvember 2015 kl. 06:00

Kjósum með atvinnu og vel launuðum störfum

Eftir u.þ.b. þrjár vikur hefst rafræn kosning í Reykjanesbæ um viðhorf bæjarbúa til breytinga sem gert var á deiliskipulagi í Helguvík og ákveðið var í bæjarstjórn 2.júní s.l. Umfjöllun um málið hefur til þessa að mestu verið einhliða af hálfu þeirra sem berjast gegn uppbyggingu stóriðju í Helguvík. Hræðsluáróður er þar áberandi og staðreyndir eða álit opinberra aðila eru dregin í efa. Mikilvægt er að allar staðreyndir séu upp á borðinu þegar atkvæði er greitt.
 

Lýðræðislegt að fá að kjósa um skipulagið?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ein af röksemdum þeirra sem berjast gegn uppbyggingu atvinnu í Helguvík er sú að það sé lýðræðislegur réttur íbúa í Reykjanesbæ að fá að kjósa um hvort fyrirtækið Thorsil eigi að fá að hefja starfsemi sína hér eða ekki.

Ákvörðun um að byggja upp atvinnusvæði í kringum höfnina í Helguvík má rekja allt til ársins 1982. Þá ákvað Keflavíkurkaupstaður að iðnaðarbyggð skyldi þróast frá Berginu og í átt til Helguvíkur. Í aðalskipulagi 1995-2015 var gert ráð fyrir iðnaðarsvæði í Helguvík og sú stefna var aftur staðfest með aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024. Það skipulag var endanlega samþykkt í bæjarstjórn 2010. Við afgreiðslu aðalskipulagsins gafst íbúum tækifæri á að koma með athugasemdir eins og lög gera ráð fyrir. Engin mótmæli bárust þá og aðaskipulagið um iðnaðarsvæði í Helguvík var staðfest, öðru sinni. Allt síðan þá hefur verið unnið eftir áætlunum aðalskipulags og þar af leiðandi með þeim fyrirtækjum sem sýnt hafa áhuga á að setja upp starfsemi sína á svæðinu. Allar kröfur um mengun og mengunarvarnir hafa ávallt verið hafðar í heiðri við undirbúning allra verkefna.

Það kemur svo fram í deiliskipulagi hvernig lóðum á svæðinu er skipt upp. Oft hefur því þurft að breyta lóðamörkum, setja lóðir saman til að stækka þær eftir þörfum og óskum hvers fyrirtækis, eins og hefur m.a. átt við bæði um Thorsil og United Silicon. Það hefur verið talið til minniháttar breytinga. Nú eiga íbúar að segja í kosningu hvort þeir eru sammála lóðarbreytingum hjá einu þessara fyrirtækja.

Það er vissulega réttur íbúa að fá að hafa áhrif á skipulag bæjarfélagsins og það er gert, samkvæmt lögum og þá á réttum tíma. Minni háttar breyting á deiliskipulagi, eins og þurfti að gera vegna lóðar Thorsil, veitir ekki rétt til að umturna grundvelli aðalskipulags og fæla burt fyrirtæki sem unnið hafa að undirbúningi verkefna sinna í mörg ár. Slíkar breytingar á lóðum hafa frekar verið regla en undantekning í Helguvík, allt eftir lóðaþörfum fyrirtækjanna.

Fyrirtækið Thorsil er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa lagt bæði mikinn tíma og fé í undirbúning reksturs í Helguvík. Bæjaryfirvöld og fyrirtækið hafa farið eftir öllum reglum, virt allar kynningar og tímamörk við undirbúning. Því er einfaldlega allt of seint að fara að snúa af leið núna.

Næg atvinna í boði?

Sumir sem berjast gegn uppbyggingu í Helguvík segja að nú sé næga vinnu að hafa á svæðinu og  því sé ekki þörf á slíkum atvinnutækifærum. Þeir sem fylgst hafa með atvinnumálum svæðisins í áratugi vita að atvinnustigið gengur í sveiflum. Á síðustu 20 árum hefur a.m.k. fjórum sinnum verið uppi mjög alvarleg staða í atvinnumálum svæðisins. Brotthvarf Varnarliðsins og fjármálakreppan í kjölfarið skýrir aðeins eitt skiptið af þessum fjórum. Ef forsvarsmenn sveitarfélagsins eru ekki stöðugt að huga að sköpun nýrra atvinnutækifæra, þar sem áhersla er á varanleg störf og vel launuð, er öruggt að atvinnuleysi mun aukast á nýjan leik.

Íbúar mega ekki heldur gleyma hversu mikilvægt það er að skapa hér vel launuð störf. Mikil uppbygging starfa í kringum ferðaþjónustuna er vissulega af hinu góða en því miður eru launin þar oft lág og störfin árstíðabundin. Samhliða ferðaþjónustunni er því mikilvægt að byggja einnig upp störf sem eru stöðug allt árið og gefa vel af sér í aðra hönd. Þau skapa sterka viðmiðun fyrir launakjör í öðrum störfum.

„Íbúar eiga að njóta vafans vegna mengunarmála“

Því er haldið fram í umræðunni að fyrirtækið Torsil muni senda frá sér reyk úr háum turni. Gefið er í skyn að ekkert sé að marka athuganir og álit opinberra eftirlitsstofnana eða óháðra aðila. Reykur og mengun leggist yfir byggðina. Í framhaldi af því er sagt að eðlilegt sé að íbúar njóti vafans þegar mengun er annars vegar.

Allir sem komið hafa að ákvörðun um framleiðsluverkefni í Helguvík hafa hugað  sérstaklega að mengunarþáttunum. Í útblæstri kíslivers Thorsil verða tvö efni, koltvísýringur (CO2) og brennisteinsdíoxíð (SO2). Koltvísýringur er lyktarlaus og ekki sjánlegur reykur og veldur ekki óþægindum en flokkast undir gróðurhúsalofttegund með sama hætti og útblástur frá bifreiðum og flugvélum. Íbúar munu ekki verða varir við útblástur vegna koltvísýrings frá kísilverunum.  Brennisteinsdíoxíð er litlaus lofttegund en af því getur fundist lykt þegar magnið fer umfram 1000 míkrógrömm á rúmmeter. Athugið 1000 míkrógrömm! Slíkt gerðist t.d. oft og iðulega fyrir austan þegar gosið í Holuhrauni stóð yfir. Voru viðmiðin þá þau að fólk var aðvarað sérstaklega þegar magnið var komið upp fyrir 2000 míkrógrömm á rúmmeter. En viðmiðunarreglur fyrir verksmiðjur eru langt undir 2000 míkrógrömmum. Staðreyndin er að þær leyfa ekki umfram 20 míkrógrömm í hverjum rúmmetra að meðaltali utan verksmiðjulóðar. Ítrekað hefur verið reiknað út að magn brennisteinsdíoxiðs við byggð, næst verksmiðjunni, verður langt frá þessu hámarki.  Það verður að meðaltali um eitt míkrógramm í rúmmetra við jaðar íbúðarbyggðar vegna verksmiðju  Thorsils þegar hún verður komin í fulla stærð með 110.000 tonna framleiðslu  á ári. Fyrst um sinn mun verksmiðjan þó aðeins framleiða helming þess eða 54 þúsund tonn og verður styrkur útblásturs því mun minni.

En hvað ef þrjár verksmiðjur, álver og tvö kísilver verða komin í fullan gang með alla leyfilega framleiðslu, mögulega eftir 10-15 ár? Hvert verður brennisteinsmagnið þá? Úttektaraðilar sýna að þá gæti það farið upp í 7 míkrógrömm á rúmmetra. Það er því enn langt frá þeim gildum sem miðað er við, þ.e. 20.

Niðurstaða þeirra stofnana sem eiga að leggja mat á mengun og hættu vegna hennar er afdráttarlaus. Þrátt fyrir að öll þrjú fyrirtækin (Thorsil, United Silicon og álverið) myndu hefja starfsemi og fara upp í hámarksstærð mun mengun vegna þeirra vera innan viðmiðunarmarka.  

„Flúormengun“

Til áréttingar er minnt á að kísilver gefa ekki frá sér flúor sem helst hefur verið rætt um sem hugsanlegan skaðvald vegna hrossa.  

Hvers vegna er mikilvægt að kjósa ?

Því hefur verið haldið fram að það sé til lítils að kjósa þar sem bæjarstjórn hefur þegar lýst því yfir að ekki verið tekið mark á niðurstöðum kosninganna. Það er alls ekki rétt. Vissulega mun niðurstaðan ekki breyta ákvörðun um kísilver Thorsil en hún mun hafa mikil áhrif á þróun til framtíðar og hvaða stefnu menn taka gagnvart uppbyggingu atvinnutækifæra sem gefa af sér traust, örugg og vel launuð störf í kringum kísilframleiðslu.  Fari svo að stór hluti íbúa taki þátt og lýsi yfir óánægju sinni með þá atvinnuuppbyggingu sem nú á sér stað í Helguvík munu bæjarfulltrúar örugglega hafa það til hliðsjónar við þá vinnu sem nú stendur yfir við gerð aðalskipulags fyrir tímabilið 2014-2034.    

Af ofangreindu er það einlæg von okkar og hvatning til íbúa að þeir taki þátt í kosningunni og lýsi yfir stuðningi við þá ákvörðun bæjarstjórnar að hafa breytt deilskipulagi á lóð í Helguvík til uppbyggingar atvinnu, íbúum til heilla.

Árni Sigfússon, Magnea Guðmundsdóttir, Böðvar Jónsson og Baldur Guðmundsson

Höfundar eru bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ