Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kjósum forvarnir en ekki fjöldagjaldþrot
Föstudagur 24. apríl 2009 kl. 16:45

Kjósum forvarnir en ekki fjöldagjaldþrot

Á morgun verður kosið til Alþingis. Þessi kosningabarátta hefur verið óvenjuleg, stutt og snörp og aldrei hafa verið jafn margir óákveðnir kjósendur. Skiljanlega eru kjósendur óákveðnir því það má með sanni segja að margir stjórnmálaflokkar hafa stundað það sem ég kalla „2007 pólitík“. Á framboðsfundum, dreifibréfum og barmmerkjum eru flokkarnir að ráðast á hvorn annan. Sjálfstæðismenn dreifa bréfum og vara fólk við að kjósa Samfylkinguna og Vinstri græna, Vinstri grænir dreifa barmmerkjum gegn Sjálfstæðisflokknum og svo má lengi telja.

Hvernig á kjósandinn að geta séð hvaða flokki á að treysta og hver er að berjast fyrir góðum málstað? Framsóknarflokkurinn gerði upp fortíð sína á flokksþingi sínu í janúar, kaus nýja forustu og er nú traust og heiðarlegt fólk í framboði út um allt land. Bókhaldið hefur verið opnað sem sýnir svart á hvítu að hinn svokallaði S-hópur styrkti aðra flokka meira en Framsókn og sýndi meðal annars að títtnefndur Finnur Ingólfsson hefur ekki styrkt flokkinn til fjölda ára. Framsókn hlustaði á þjóðina í janúar meðan búsáhaldabyltingin stóð sem hæst, stóð fyrir ríkisstjórnarskiptum, krafðist kosninga og barðist fyrir stjórnlagaþingi.

Framsókn hefur keyrt þessa kosningabaráttu á málefnum og lausnum. 20% leiðrétting lána er flókin útfærsla og hefur það tekið yfir tvo mánuði að útskýra þá tillögu fyrir almenningi. En Framsókn valdi sér ekki auðvelt kosningaloforð eða loforð sem væri auðvelt að auglýsa. Framsókn styður þá leið sem færustu sérfræðingar landsins unnu fyrir flokkinn í febrúar en þá lagði flokkurinn fram 18 liða efnahagsáætlun og 20% leiðrétting lána er aðeins einn liður í þeirri áætlun. Meðal annars er vert að nefna að Obama og Bandaríkjamenn er að skoða að fara sömu leið og Framsóknarmenn leggja fram. Framsóknarmenn gera sér grein fyrir alvarlegu ástandi þjóðarinnar og fordæmir þann leik stjórnvalda að fela raunverulega stöðu bankana fyrir þjóðinni.

Kjósendur, ekki láta stjórnmálakarp og 2007 pólitík plata ykkur. Setjist niður, skoðið stefnuskrá flokkanna, fólkið í framboði og skoðið hver er raunverulega að berjast fyrir því að hjálpa hinum almenna borgara í landinu. Veljið flokkinn sem ætlar að varna því að hér á landi verði fjöldagjaldþrot og kerfishrun. Það er ekki nóg að hjálpa fólki þegar það er orðið gjaldþrota, við verðum að fara í forvarnir og fyrirbyggja gjaldþrot heimila og fyrirtækja. 20% leiðrétting er einmitt forvörn og á að fyrirbyggja kerfishrun og koma hagkerfinu aftur í gang.

Setjum X við þann flokk sem gerir sér raunverulega grein fyrir alvarlegu ástandi þjóðarinnar og er tilbúinn að fara í róttækar aðgerðir fyrir land og þjóð. Setjum X við B á kosningadag.

Bryndís Gunnlaugsdóttir
Skipar 4. sæti lista Framsókarflokksins í Suðurkjördæmi


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024