Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 28. nóvember 2002 kl. 09:38

Kjörnefndin starfar af heiðarleika: segir Árni Ragnar Árnason

Mikil barátta stendur yfir á milli stuðningsmanna Árna Ragnars Árnasonar og Kristján Pálssonar alþingismanna um sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir næstu alþingiskosningar. Árni Ragnar segir í viðtali við Víkurfréttir að hann telji að þetta mál hafi ekki skaðað Sjálfstæðisflokkinn.
Mikil ólga er hjá stuðningsmönnum Kristjáns Pálssonar með þá tillögu kjörnefndar að hafa hann ekki á lista. Skilurðu þá? Ég get alveg skilið hvern þann sem lendir í þessari aðstöðu, en ég veit ekki betur en að það eigi enginn þingsæti og þessi skipan á listann byggir á trausti fólks. Það segir mér enginn annar en að það fólk sem starfar í kjörnefndinni geri það af heiðarleika og hafi að baki trúnaðarsamtöl við mjög marga af trúnaðarmönnum flokksins um allt kjördæmið. Ég þekki vel hvernig svona vinna fer fram.

Nú hefur komið fram að þú viljir ekki prófkjör, afhverju viltu það ekki?

Ég vildi það ekki af fáeinum ástæðum og ein þeirra var sú að ég vildi hjálpa vini mínum Árna Johnsen að hætta afskiptum af stjórnmálum, allavega að sinni. Ég var líka viss um það og um það varð ég sannfærður eftir því sem nær dró að ef við hefðum haldið prófkjör í fyrsta sinn sem við bjóðum fram í nýju kjördæmi þá hefðum við ekki fengið frambjóðendur nema úr hluta kjördæmisins. Það hefði verið ósanngjarnt því fólk sá fram á að geta ekki tekið þátt í prófkjörinu af fjárhagslegum ástæðum. Prófkjör eru orðin dýrari en þingkosningar. Fyrir utan það að frambjóðendur leita til sömu fyrirtækja og flokkurinn leitar til fyrir kosningar. Þetta hefur vafist fyrir flokkunum undanfarið.

Hverju svarar þú því að þú sért ekki Suðurnesjamaður af því þú búir ekki í kjördæminu?

Það er afskaplega gaman að heyra svona ummæli hafandi búið á Suðurnesjum í nærri því 40 ár. Ég bjó þar í 39 ár og konan mín í 40 ár. Við ólum þar upp öll börnin okkar og þau voru þar í skóla fram að háskólastigi. Ég starfa þar ennþá í félögum og í fyrirtækjum og gerði það náttúrulega meðan ég bjó þar. Ég á þar fjölskyldu og þar er móðir mín ennþá búsett, þar búa systur mínar og þeirra börn, þannig að mín fjölskylda er þar. Þar eru mínir vinir og kunningjar og mér finnst það undarlegt þegar menn halda að eftir 40 ár slitni rætur úr hjarta manns. Og hvers vegna er allt í einu einhver annar orðinn Suðurnesjamaður sem að bjó ekki þar á þeim tíma. Ég vil bara taka það fram að ég er nú fluttur til Keflavíkur og bý á Vesturgötu 14.

Nú hefur verið rætt töluvert um veikindi þín og fólk hefur haldið fram að þú getir ekki leitt listann vegna þeirra?

Ég held nú að tillaga kjörnefndar sýni fram á annað. Ég trúi því að hún hafi kynnt sér veikindi mín og hvernig ég hef komið frá þeim. Mínir læknar treysta mér til að halda áfram starfi og það geri ég einnig. Ég er hraustur og það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að ég geti ekki sinnt starfi mínu, en hraustir menn eiga það til að veikjast.

Hefur þetta mál skaðað flokkinn að þínu mati?

Nei ég hygg að það hafi ekki gert það.

Ef að niðurstaðan verður sú að Kristján verði ekki á listanum, hvað heldurðu að stuðningsmenn hans geri?

Ég get ekki ráðið í það. Ég vona að þeir skilji hvernig nefndin komst að þessari niðurstöðu og gerir þessa tillögu. Þeir hafa allan rétt til þess að koma fram með aðra tillögu á fundi kjördæmisráðs og kjördæmisráð mun án efa taka afstöðu til þeirra tillagna sem þar koma fram.

Heldurðu að fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sé ráðherrasæti?

Ég get ekkert ráðið í það en ég vona það fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Þaðan hefur ekki komið ráðherra um árabil á vegum Sjálfstæðisflokksins.

Hvað viltu segja við Suðurnesjamenn að lokum?

Ég vil hvetja þá til að standa saman og muna hvernig þingmenn kjördæmisins hafi staðið sig. Það hefur til dæmis komið fram að þegar áhugahópur um breikkun Reykjanesbrautarinnar tók það saman hverjir hefðu mest beitt sér í því starfi að þeirra niðurstaða varð einfaldlega önnur en fram kom í sjónvarpsþætti fyrr í vikunni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024