Kjaramál á rangri braut
Ein af þeim umdeildu ákvörðunum sem núverandi meirihluti hefur tekið á kjörtímabilinu var að afsala sér samningsumboði sínu, vegna lausra kjarasamninga bæjarstarfsmanna í Starfsmannafélagi Suðurnesja, til Launanefndar sveitarfélaga (LN). Þetta segir Brynjar Harðarson í grein til Víkurfrétta.Þrátt fyrir hávær mótmæli Starfsmannafélags Suðurnesja(STFS) héldu bæjaryfirvöld því til streitu. Með þessari ákvörðun sinni voru bæjaryfirvöld að tryggja sér að kostnaður vegna launahækkana yrði sem minnstur. Þegar niðurstaða var loks fengin og nýr samningur leit dagsins ljós var ljóst að þeim hafi orðið að ósk sinni því samningurinn varð heldur rýr hinum almenna launamanni. Nú á BSRB og þar með STFS talsverða sök á því að ekki náðust meiri hækkanir en sökin er þó fyrst og fremst Reykjanesbæjar. Með ákvörðun sinni sýndu þeir að enginn vilji var til þess að hækka laun starfsmanna bæjarins í STFS að neinu ráði. Hefur þetta skiljanlega skapað óánægju meðal starfsmannanna, sérstaklega þegar litið er til hinna miklu hækkana sem aðrir starfsmenn bæjarins, t.d. kennarar, leikskólakennarar, tónlistarkennarar og háskólamenntaðir starfsmenn í fagfélögum, hafa fengið. Nú er ekki annað hægt en að samgleðjast fyrrgreindum starfsstéttum fyrir þeirra hækkanir en félagar í STFS geta ekki sætt sig við neitt minna og það er einkennilegt að LN skuli geta boðið STFS lakari samninga en aðrir eru að fá. Samningsstaða STFS versnaði til muna þegar LN fékk umboðið og Reykjanesbær getur alltaf varpað ábyrgðinni á LN þegar krafist verður skýringa á lélegum launum. Það er nauðsynlegt að félagar í STFS fái að njóta hækkana á borð við þær sem að aðrar stéttir eru að fá og Reykjanesbær á að kappkosta að borga starfsmönnum sín mjög góð laun. Fylgifiskar hærri launa eru ótvíræðir og þarf ekki mikinn sérfræðing til að sjá hversu jákvæð áhrif það hefur fyrir starfsfólk að fá vel borgað. Fái ég til þess umboð í prófkjöri Samfylkingarinnar mun það verða eitt að mínum brýnustu baráttumálum að Reykjanesbær sjái sjálfur um semja við sitt fólk. Reykjanesbær á að vera fyrirmynd annarra sveitarfélag, einnig þegar kemur að launamálum, og á ekki að láta sér það gott heita að vera í þessu láglaunapoti eins og önnur sveitarfélög..
Ég tek þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar 23. febrúar og bið um þinn stuðning í því.
Brynjar Harðarson
Ég tek þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar 23. febrúar og bið um þinn stuðning í því.
Brynjar Harðarson