Kjaftshögg án ástæðu
Nú hefur Landsbankinn lokað útibúi sínu í Sveitarfélaginu Vogum, eina bankaútibúinu í því ágæta 1200 manna samfélagi. Erfitt er að finna skynsamleg rök fyrir þeirri ráðstöfun. Bankinn er að skila hagnaði upp á tugi milljarða árlega og ætti því að hafa efni á að veita góða þjónustu og gumar að því að vera “banki allra landsmanna”. Hann telur sig vera að hagræða, en ætlar að vera með 45 starfsmenn í nýju útibúi í rándýru húsnæði í Reykjanesbæ sem jafnframt eigi að verða útibú okkar Vogabúa og líka Garðbúa, auk Reykjanesbæjar. Það ætti þannig að þjóna u.þ.b. 15.000 í búum og verður þá einn starfsmaður á hverja 350 íbúa. Raunar færri, því í Reykjanesbæ er annar banki með glæsilegt útibú. Ef maður deilir íbúunum milli þessara tveggja banka þá eru kannski ekki nema um 200 einstaklingar á bak við hvern starfsmann í nýja útibúinu í Krossmóa.
Nú er orðið nákvæmlega jafn langt fyrir okkur Vogabúa að fara í Landsbankann og Íslandsbanka, eða 15 km. Álíka langt og frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Væru Hafnfirðingar sáttir við að þurfa að sækja öll bankaviðskipti til Reykjavíkur?
Í Sveitarfélaginu Vogum var bara þetta eina litla útibú í litlu, ódýru húsnæði með aðeins 2 starfsmenn. Þetta litla útibú var mjög vel staðsett, afskaplega huggulegt og mikið notað. Þar voru nærri 600 íbúar á bak við hvorn starfsmanninn. Takið eftir, nærri 600 íbúar. Víða um land eru fámennari þorp með tvö og jafnvel þrjú bankaútibú.
Sveitarfélagið Vogar var með viðskipti sín í Landsbankanum. Einnig mörg af fyrirtækjunum hér sem þurfa að leita í útibú auk þess að nota tölvubanka. Mér er ómögulegt að sjá að það sé bankanum í hag að þjappa starfsfólki sínu saman á einn stað í Krossmóa og neyða viðskiptavinina til að aka þangað. Varla er það umhverfisvænt. Því fer mann að gruna að einhver illvilji sé hér á ferð í garð okkar Vogabúa, a.m.k. mikil lítilsvirðing. Í besta falli heimska og að bankinn “okkar” sé að skjóta sig í fótinn.
Okkur er það mikils virði að hafa bankaþjónustu hjá okkur og þurfa ekki að sækja allt í önnur sveitarfélög. Við erum sjálfstætt sveitarfélag á gömlum merg. Svona aðgerð særir stolt okkar, auk þess óhagræðis sem hún veldur okkur.
Það er erfitt að skilja að það sé Landsbankanum í hag að loka útibúinu í Vogum, en auðvelt að sjá hvílíkt óhagræði það er fyrir okkur. Það er ljóst að Landsbankinn missir andlitið hér í Vogum, en hann hafði hér hlýlegt andlit. Nú nota margir tækifærið og færa bankaviðskipti sín í annan banka. Þar á meðal hefur sveitarstjórnin hugsað sér til hreyfings, en bæjarráð hefur samþykkt svohljóðandi bókun:
“Í ljósi aðstæðna telur bæjarráð rétt að fela bæjarstjóra að leita tilboða hjá öðrum banakstofnunum um viðskipti sveitarfélagsins.“
Sjálfur var ég ánægður með Landsbankann og stoltur af því að eiga hann með þjóðinni. Nú hef ég skömm á honum og leita tækifæris til að yfirgefa hann, enda hefur hann yfirgefið mig.
Þorvaldur Örn Árnason, íbúi í Vogum.