Kísilverksmiðja Stakkbergs í Helguvík
Litlu gulu hænan fann fræ, það var hveitifræ. Sagan kom í hugann á fundi Stakkbergs í Stapanum með íbúum Reykjanesbæjar 21. nóv. sl. Enginn vildi sá og þreskja fræ hænunnar og vinna það í brauð. Hundurinn sagði ekki ég, kötturinn sagði ekki ég ..... en allir vildu borða brauðið. Hundurinn sagði, það vil ég, kötturinn sagði, það vil ég. Eins er það með kísilinn. Allir þurfa hann í gemsana sína, tölvurnar, flatskjáina, sólarsellurnar, rafhlöðurnar, tölvukerfin. Bara ekki vinna kísil í bakgarðinum mínum.
Fundurinn í Stapa var um yfirtöku Stakkbergs á kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Sú verksmiðja var fúsk og blekkingarvefur frá upphafi. Mannleg mengun fyrst og fremst. Fnykinn lagði yfir bæinn, þegar verksmiðjan startaði. Bærinn lét blekkjast. Bankinn lét blekkjast og lífeyrissjóðir og bæjarbúar fengu upp í kok af þessu dæmalausa rugli. Þið þekkið þá sögu. Reiðin er mikil og heit. Fullyrt er að 99% bæjarbúa séu andsnúnir verksmiðjunni. ,,Burt,“ sögðu menn á fundinum. Já, burt, „bíddu meðan ég æli.“ Slík var stemningin. Bæjarstjórn ályktar gegn mengandi verksmiðjum í bænum. Aldrei aftur. „Við stöndum með íbúum,“ sagði formaður bæjarráðs. Forseti bæjarstjórnar taldi ólíklegt að sátt næðist við bæjarbúa um endurgerða verksmiðju núna. (Fréttir RÚV 21. nóv.). „Skipulagsmálin eru í skoðun,“ sagði hann, „þau eru á valdi bæjarins.“ Íbúakosning er kosningaloforð. Bæjarfulltrúi spurði hvort kannað hafði verið að loka verksmiðjunni. Já, stemningin var vissulega eintóna og kannski ekkert skrítið.
Ég hef fullan skilning á reiðinni og þeim tilfinningahita sem ríkir í bænum varðandi verksmiðjuna. Umræðan um hættulega mengun vekur ótta. „Ég vil ekki að börnin mín bíði skaða af,“ sagði ung móðir á fundinum. Sammála.
Sannleikurinn er hins vegar sá að kísilsverksmiðjur eru taldar lítið eða ekki mengandi. Þær hafa ekkert loftþynningarrými umhverfis sig, eins og t.d. álver, til að draga úr mengun í nærumhverfi. Þess þarf ekki. Þær eru oft staðsettar í íbúðabyggð, í þröngum fjörðum í Noregi. Þar er ekkert fúsk. Engin mannleg mengun. Engin svikamilla græðginnar. Regluverkið virkar. Eftirlitið virkar. Verksmiðjurnar virka og skapa verðmæti og störf. Verksmiðja United Silicon virkaði aldrei í Helguvík. Hún var fúsk. Reykurinn úr ofnunum var aldrei nógu heitur til að brenna lyktina. Aldrei nógu heitur til að leita upp í háloftin. Hann lagðist því yfir bæinn, með lykt af bruna trjákurls. Lyktarmengun. Slíkt á ekki að koma fyrir. Þarf ekki að koma fyrir. Ef rétt er staðið að málum. Það var ekki gert. Verksmiðjan missti starfsleyfið. Hún er stopp. Eftirlitið virkaði loksins. Nú vill Stakkberg gera betur. Láta verksmiðjuna virka. Það kostar fjóra milljarða. Norðmenn sem til þekkja eru með í ráðum. Látum á það reyna. Annað væri út í hött.
Ef bæjarstjórn synjar um breytingu á deiliskipulagi og/eða framkvæmdaleyfi yrði allt að engu. 180 milljóna skuld við Hafnarsjóð yrði ógreidd að eilífu. 20 milljarða fjárfesting í Helguvík farin í förgun. Verksmiðjan gjaldþrota. Förgunin lendir á óhjákvæmilega á Reykjanesbæ að hluta, þó hrakið verði selt til niðurrifs. Það kostar bæinn líklega milljónatugi og mikið tekjutap.
„Nei, annars,“ segir ef til vill einhver, látum hana standa. Minnismerki um loftkastala og draumóra sem aldrei urðu að veruleika. Gott fyrir túristabransann. Tökum krók í Helguvík að skoða óklárað álver og ónýta verksmiðju áður en haldið er út í Garð til að sjá vitann, jökulinn, sólsetrið og norðurljósin. Vissulega athyglisverð hugmynd.
Ég hallast fremur að hugmynd Stakkbergs. Það gera samfélagsáhrifin og traust mitt á okkur sjálfum, að stjórnsýslan virki. Að eftirlitið virki. Að verksmiðjan virki. Að verksmiðjan verði til góðs. Það er vaxandi eftirspurn eftir kísil. Við þurfum afurðina í gemsana, tölvurnar og orkusparandi tæki. Við viljum sólarorku í stað kola- eða olíuorku vegna loftslagsmála. Verksmiðjan mun hafa hátt kolefnaspor sjálf. Það er fórnarkostnaður. En hún mengar ekki. Hún brennir viðarkurli. Kaupir það af skógræktinni og stuðlar þannig að grisjun svo skógurinn þrífist. Hún styrkir þannig skógræktina, til að minnka kolefnispor landsmanna við að framleiða kísil fyrir orkusparandi tæki og tól í mikilvægu orkuskiptaverkefni Evrópu og á heimsvísu. Hún yrði hlekkur í keðju gegn hnattrænni hlýnun. Verksmiðjan yrði stórnotandi íslenskrar raforku. Hún nýtir raforku úr jarðhita, vatns- og vindafli, hreina íslenska orku til góðra verka. Skapar störf og afleidd störf. Styrkir Helguvíkurhöfn. Borgar skuld United Silicon við bæinn. Eykur tekjur bæjarins og skapar ný atvinnutækifæri.
Litla gula hænan fann fræ, það var hveitifræ. Látum það vaxa og þroskast. Ég vil borða brauðið, sagði hundurinn. Ég vil borða brauðið, sagði kötturinn. Litla gula hænan sagði...
Skúli Thoroddsen,
íbúi í Reykjanesbæ.