Kísilverið í Helguvík
Ísland er fallegt þó svo að það hellirigni það sem af er sumri. Hér sit ég með kaffibollann minn í húsi fyrrverandi útrásavíkinga með allri sinni dýrð og flottheitum. Ég horfi út um stóra útsýnisglugga á meðalstórt stöðuvatn þar sem bakkar þess eru um vafnir birkitrjám og út í vatninu eru eyjar og hólmar. Í baksýn er fjallahringur Bláskógabyggðar í allri sinni dýrð. Þetta flotta útsýni fær mig til að hugsa út í það hvað eru veraldleg gæði á móts við lífsins gæði.
Við íbúar Reykjanesbæjar erum nú enn og aftur að setja okkur í stellingar til þess að það verja lífsgæði okkar og að þau verði sett í forgang en ekki veraldleg gæði. Þá er ég að tala um þessa mengandi stóriðju sem enn og aftur á að fara að endurræsa í Helguvík. Af hverju að starta aftur þess konar mengandi starfsemi? Það er vegna þess að peningar ráða för en ekki heilsa og lífsgæði fyrir okkur íbúa Reykjanesbæjar.
Hvar er framtíðarsýn bæjarins út frá þessari kísilverksmiðju þegar fólk flytur burt á annan stað þar sem það getur fengið betri lífsgæði og betra andrúmsloft til að anda að sér. Því allir eiga rétt á því að anda að sér hreinu lofti sem eru jú mannréttindi. Vilja kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn ekki leggjast á árar og vinna með bæjarbúum til þess að bærinn fái að lifa og blómstra án mengandi stóriðju?
Þið tókuð upp slagorð Pírata í kosningabaráttunni þegar þið, núverandi bæjarfulltrúar, voruð spurð af bæjarbúum hvort þið vilduð stóriðju burt úr Reykjanesbæ. Þá var svarið jú við ætlum að standa með bæjarbúum og koma verksmiðjunni burt. Nú reynir á ykkur að standa við þessi orð en eitthvað er tónninn orðin veikburða frá kosningum.
Ef það hjálpar ykkur eitthvað þá er ég alla vega og eflaust margir aðrir íbúar Reykjanesbæjar tilbúnir að vera í klappliðinu með ykkur til að standa við þessi loforð og koma þessu mengandi kísilversbákni burt úr okkar bæjarfélagi. Við gætum mætt með trommur fyrir utan bæjarskrifstofurnar og gert Víkingarklappið með trommum og öllu tilheyrandi til að hvetja ykkur til dáða.
Búmm, búmm – HÚ bæjarstjórn.
Margrét S Þórólfsdóttir