Kirkjukórapólitík umhverfisráðherra
„Ég hef ekki mikla samúð með því hvernig Árni Sigfússon setur fram sína pólitík í þessum málum sem öðrum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra á Morgunvakt Rásar 2 sl. föstudag þegar hún var beðin um viðbrögð við harðorðri ályktun Reykjanesbæjar um umdeildan úrskurð hennar um að fella úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram heildstætt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna Suðvesturlínu og öðrum tengdum framkvæmdum. Ráðherrann sagðist nefnilega, ólíkt sumum, ekki vera að gæta hagsmuna einstakra orkufyrirtækja og álfyrirtækja heldur gæta hagsmuna heildarinnar, umhverfisins og komandi kynslóða. Hún skildi hreinlega ekki allt uppnámið vegna þessarar ákvörðunar hennar sem einungis hefði í för með sér „einhverra vikna frestun“ á framkvæmdum við álver í Helguvík. Við þyrftum jú að koma með ný svör – eitthvað annað – í stað gamaldags álverspólitíkurinnar sem bæjarstjórinn í Reykjanesbæ stæði augljóslega fyrir.
„Staðan í þjóðfélaginu er svo flókin,“ sagði ráðherrann, hún verður ekki leyst við ríkisstjórnarborðið. Ekki frekar en annað, varð mér hugsað. „Við getum þetta ekkert öðruvísi en með þjóðinni,“ sagði ráðherrann ábúðarfullur og var uppnuminn yfir kraftinum sem býr í kirkjukórum, Lionsfélögum og skógræktarfélögum um land allt. Við þyrftum að horfa til landsbyggðarinnar því þar hefði fólk búið við kreppu um margra ára skeið og væri vant því að berjast gegn henni með útsjónarsemi, hugmyndum og jákvæðni. Við þyrftum að virkja sprotana og kraftinn í þjóðinni.
Ég geri svo sannarlega ekki lítið úr kraftinum, dugnaðinum og útsjónarseminni sem býr í íslenskri þjóð. Ég er sammála ráðherranum um það að við eigum að horfa til frumkvæðis fólks og sjálfsbjargarviðleitni og að við getum margt lært af íbúum landsbyggðarinnar. Ég held líka að við séum flest þannig gerð að við bítum á jaxlinn, bölvum í hljóði og reynum hvað við getum að snúa erfiðum aðstæðum okkur í vil. En þegar kreppir að og enga atvinnu er að fá er ekki nóg að vera með fallega söngrödd. Félagar í Lionsklúbbum og skógræktarfélögum þurfa líka að borga reikninga um hver mánaðamót.
Og Svandís, hvað kallarðu sprota og hvað kallarðu nýjar lausnir? Hvað á að koma í staðinn fyrir þær ómögulegu framkvæmdir í Helguvík sem þú ert svo einbeitt í að stöðva? Myndi ferðaþjónusta falla í þann hóp, myndi heilsutengd starfsemi lenda þar? Myndi gagnaver, kísilver, frumkvöðla- og háskólastarfsemi passa inn í formúluna þína? Ráðherranum til upplýsingar eru það einmitt þessi verkefni sem bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa beitt sér fyrir á liðnum misserum með bæjarstjórann Árna Sigfússon í broddi fylkingar. Keilir, Íslendingur, söfnin í Duus-húsum, Blái demanturinn. Pólitík Árna Sigfússonar, sem ráðherrann hefur svo megna óbeit á, snýst fyrst og síðast um það að skapa fjölbreytt atvinnutækifæri á Suðurnesjum. Hagsmunirnir sem Árni Sigfússon er að gæta eru hagsmunir þeirra 1.675 einstaklinga á Suðurnesjum sem ganga um án atvinnu.
Ég vil að endingu minna ráðherrann á að fyrir réttum þremur árum urðu Suðurnesjamenn fyrir einu mesta áfalli sem orðið hefur í atvinnumálum hérlendis við brotthvarf bandaríska hersins. Menn einsettu sér þá að skapa störf, búa til verðmæti og tryggja von og trú í þessu góða samfélagi. Sú barátta stendur enn og má ekki við skemmdarverkum eins og þeim sem ráðherrann stendur fyrir.
Útsjónarsemi, hugmyndaauðgi og jákvæðni eru nákvæmlega þeir eiginleikar sem við þurfum á að halda við núverandi aðstæður. Við þurfum ekki á yfirlæti og hroka að halda. Ég skora á Svandísi Svavarsdóttur að leggjast á árarnar með okkur hinum við að skapa tækifæri í stað þess að bregða fæti fyrir þau hvar sem færi gefast.
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Höfundur er alþingismaður.