Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kirkja Samfélagsins
Mynd: Sr. Skúli S. Ólafsson, Benedikt Gunnarsson, Regnheiður Ásta Magnúsdóttir og dr. Gunnar Kristjánsson.
Föstudagur 17. ágúst 2012 kl. 12:00

Kirkja Samfélagsins

Eins og kunnugt er þá standa yfir viðgerðir og endurnýjun á kór og kirkjuskipi Keflavíkurkirkju.

Eins og kunnugt er þá standa yfir viðgerðir og endurnýjun á kór og kirkjuskipi Keflavíkurkirkju. Þessi vinna hófst með eins dags sjálfboðavinnu fjölda fólks. Þegar mikið hefur staðið til í kirkjunni hefur samfélagið í kringum hana lagst á eitt til þess að sem best megi til takast. Þegar helgidómurinn var byggður fyrir nær 100 árum var það fyrir rausnarskap og samstöðu, sem tókst að vinna það þrekvirki. Fyrir tæplega 50 árum, var það einnig sameiginlegt átak sem stuðlaði að endurbótunum. Fyrir 34 árum komu svo steindu gluggarnir. Sú gjöf var til minningar um alla látna Keflvíkinga og verður því minnisvarði um samfélagið um alla tíð.

Við þær endurbætur sem nú er verið að vinna að er stuðst við álit húsafriðurnarnefndar, en Keflavíkurkirkja er friðuð. Húsafriðunarnefnd hefur mælst til þess að gluggar kirkjunnar verði færðir í upprunalegt horf en þeir voru úr gegnsæju gleri með steyptum gluggapóstum úr málmi. Það er því ljóst að sóknarnefnd er nokkur vandi á höndum. Steindu gluggarnir í kirkjunni innan við rúðuglerið hafa verið þar síðan 1977 en  höfundur þeirra er Benedikt Gunnarsson myndlistarmaður. Nokkur viðbrögð hafa orðið við þeirri hugmynd að taka þá niður og eðlilegt að sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Þar sem gluggarnir hafa verið þarna í svo langan tíma finnst mörgum að þeir hafi alltaf verið þar og séu órjúfanlegur hluti af kirkjunni. Aðrir fagna því að þeir verði teknir niður, segja að þeir hafi aldrei verið sáttir við gluggana, kirkjan sé dimm þeirra vegna. Þó þeir séu ekki á móti gluggunum, vilji þeir fá birtuna til að flæða í kirkjunni, sem var hugmynd arkitektsins í upphafi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er nauðsynlegt að taka gluggana niður vegna viðgerða og hreinsunar og því hefur sóknarnefnd ákveðið að þeir verði ekki settir aftur upp í bráð. Fyrir vikið gefst tækifæri til að kynnast kirkjunni án þeirra, meta kosti þess og galla að vera án steindu glugganna og að þeim tíma liðnum endurskoða ákvörðunina. Ýmsar hugmyndir eru uppi um hvað gera skuli við steindu gluggana ef þeir verða ekki settir aftur í kirkjuna. Helst hefur verið rætt um að koma þeim fyrir í safnaðarheimilinu þangað sem yfir 70 þúsund gestir leggja leið sína á hverju ári.  Jafnframt verði möguleiki á að setja þá aftur upp í kirkjuskipinu, ef það samræmist sjónarmiðum sóknarnefndar og húsfriðunarnefndar og þá kæmi jafnvel til greina að lýsa þá upp að innan svo að gluggarnir fái að njóta sín sem skyldi.

Listamaðurinn Benedikt Gunnarsson heiðraði kirkjuna með heimsókn 9. ágúst sl. og sat fund með sóknarnefndarfomanni, sóknarpresti ásamt dr. Gunnari Kristjánssyni prófasti. Fjallaði listamaðurinn um gluggana, sagði sögu þeirra, og útskýrði listrænt gildi og trúarlegt táknmál þeirra auk þess sem hann ræddi almennt hugmyndir sínar um trúarlega list innan og utan kirkjuhússins. Var fundurinn hinn fróðlegasti. Full ástæða er til að biðja listamanninn velvirðingar á þeim óviðeigandi ummælum að steindu gluggarnir hefðu enga trúarlega skírskotun, í umfjöllun sem birtist í kynningu á breytingunum í Víkurfréttum 16. júlí sl.
Fundurinn var liður í því að virða og heiðra sögu þessa helgidóms með þeim listaverkum sem þar er að finna. Túlkun á myndlist er að sönnu margbreytileg og erum við margs fróðari eftir þessa ánægjulegu heimsókn.

Ragnheiður Ásta Magnúsdóttir og Skúli S. Ólafsson