Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

„kátir voru krakkar á kútter Fjörheimum...“
Mánudagur 8. mars 2004 kl. 12:26

„kátir voru krakkar á kútter Fjörheimum...“

Föstudaginn 5. mars s.l. fóru á vegum félagsmiðstöðvarinnar Fjörheima 31 unglingur og 4 starfsmenn til Vestmannaeyja í verðlaunaferð fyrir vel unnin störf við Fjörleik Fjörheima starfsárið 2003-2004. Lagt var af stað með rútu frá Fjörheimum klukkan 16:00 á föstudeginum og ekið rakleiðis til Þorlákshafnar. Fjörhópurinn var vel tímanlega og því notaði hópurinn tímann til að bregða sér í sjoppu eða í léttan göngutúr um bryggju Þorlákshafnar, enda streymdu vertíðarbátarnir inn hver af öðrum til löndunar.

Klukkan 19:30 lagði Herjólfur af stað í blíðskapar veðri. Sumir notuðu tímann og fengu sér „kríu“ (blund) niður í koju meðan aðrir gripu í spil, ekki varð vart við neina sjóveiki sem heitið getur. Tíminn leið hratt á leiðinni og fyrr en varði vorum við komin á áfangastað. Á bryggjunni beið okkar Simmi frá Viking ferðum í rútu og keyrði okkur í félagsmiðstöðina Féló sem hafði verið svo elskuleg að hýsa okkur um helgina. Þegar í félagsmiðstöðina var komið þá tók við nætursprell. Kyrrð var komin á hópinn um 02:00

Laugardagurinn 6. mars rann upp ákaflega skýr og fagur. Dagurinn hófst á hefðbundnum morgunverkum s.s. tannburstun og morgunverði. Því næst var ekið niður á bryggju þar sem okkar beið trillan Bravo VE. Hópnum var skipt upp í tvo hópa. Annar hópurinn fór í sjóferð og hinn að spranga. Í sjóferðinni var margt skemmtilegt að sjá og skipstjórinn fræddi börnin um allt sem fyrir augu bar. Skipstjórinn sigldi inn í tvo hella og lék tvö lög inn í öðrum þeirra við mikla hrifningu barnanna. Að lokum var farið með sjóferðarbæn. Mikið líf var í höfninni í Eyjum enda stendur loðnuveiðin sem hæst um þessar mundir. Þegar sjóferðinni var lokið var farið í sprangið og má segja að það hafi verið stutt gaman, þar sem einn unglingurinn rak sig aðeins utan í spranginu og því þurfti undirritaður að fara með hann á sjúkrahús. Sem betur fer var ekki um alvarlegt slys að ræða, smá hrafl á hendi og höfði og var „sjúklingurinn“ útskrifaður með plástri:) Við hittum svo hópinn rétt við heimili Árna Johnsen en þar stóð yfir skoðunarferð í rútu þar sem börnin fræddust um sögu staðarins. Leiðsögumaðurinn fræddi um Tyrkjaránið, eyjagosið og fleiri merka viðburði sem hafa drifið á daga þeirra Eyjaskeggja. Klukkan 15:30 var gefinn frjáls tími. Sumir fóru í sund, röltum um bæinn eða fóru á Unglist sem einmitt stóð yfir þessa helgi í Eyjum.
Klukkan 18:30 snæddi hópurinn saman á Pizza 67. Eftir matinn fengu unglingarnir leyfi til að vera úti til 22:00. Flestir völdu þó að vera inni í félagsmiðstöðinni að spila billiard, borðtennis eða að leika sér í tölvunum. Kvöldvaka og hæfileikakeppni á milli Fjörliða átti að hefjast stundvíslega klukkan 22:30 en seinkaði vegna þess að ein stúlkan snéri sig smá á fæti. Enn á ný þurfti fararstjórinn að halda á heilsugæsluna og læknirinn brosti í kampinn þegar hann sá okkur birtast. Stúlkan var bólgin á fæti og læknirinn sagði að líklega væri um tognun að ræða en ráðlagði myndatöku af fætinum þegar hópurinn væri kominn heim til Reykjanesbæjar.

22:45 hófst kvöldvakan á verðlaunum fyrir Fjörleik. Í fyrsta sæti með yfir 12.000 stig voru Tjöruhreinsunarkarlarnir en þeir fengu ókeypis í ferðina einnig voru þeir verðlaunaðir fyrir frábæra mætingu í prjónaskap með eldri borgurum. Önnur verðlaun sem veitt voru: De Fríks fyrir frumlegasta nafn á liði. Glennurnar 3 fyrir besta kvöldið. Stelpunóttin. 3 Paladins fyrir góða mætingu í vetur. Að loknum verðlauna afhendingu þá tók við hæfileikakeppni Fjörliða og þar mátti sjá hin ýmsu verk svo sem spunaleik, dans, söng og margt fleira. Sigurvegarar voru þær stöllur Karólína, Salný og Erna með dans og söngatriði um marsbúana... Ró var komin á hópinn um 03:00.

Á sunnudeginum var vaknað rétt fyrir 11:00 og þá hjálpuðust allir við að ganga frá og síðan var skellt sér í sund. Við mættum í Herjólf klukkan 15:00 og skipið lagði af stað heim klukkan 16:00. Það var örlítið verra veður á landleiðinni heldur en við komuna til Eyja. En við vorum þó heppin að hafa meðvind. Einhverjir voru sjóveikir en þó voru það mjög fáir. Komið var til Reykjanesbæjar rétt eftir klukkan 20:00 og frábærri Fjörferð þar með lokið.

„Og öll komu þau aftur og engin þeirra dó af ánægju út af eyrum hver og ein einasta kerling hló...“

Hafþór Barði Birgisson

Myndasería úr ferðinni - smellið hér.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024