Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 3. desember 2002 kl. 09:30

Kárahnjúkar og laxveiðiárnar

Eins og landsmenn vita er stefnt að því leynt og ljóst að reisa Kárahnjúkavirkjun. Önnur stefnan í óráðsíu þeirra sem stjórna er sjókvíaeldi á laxi við austurströnd Íslands. Þessar ákvarðanir eru ekki miklar að sjá á prenti. En augu almennings verður að opna fyrir raunverulegum afleiðingum þeirra gjörninga sem fram undan er. Hvað mun gerast vegna Kárahnjúka?
Stærstu votlendi Evrópu munu fara undir risavaxið stöðulón. Lónið mun eyða griðarstað fugla og dýra ásamt þeirri fjölbreyttu náttúru og dýrðarsýn sem þar er að finna. Okkar villilendur, okkar víðfemi og okkar náttúrukyrrð eiga sér engan líka í Evrópu. Á meginlandi Evrópu er að finna ferkantaða akra og skipulagningu mannsins hvert sem augum er litið. Í þessum skilningi er hlutfall víðfemi og mannfjölda okkur Íslendingum í hag. Við erum fá í okkar stóra landi. Við megum ekki farga þessu öllu á altari fárra úreltra verksmiðja sem munu seinna verða kaffærðar á leikvelli viðskiptanna. En sú mun raunin verða þegar Kínverjar byrja að framleiða álið í miklu magni og í skjóli nýreistra og risavaxinna virkjanna sinna. Kínverjar eru einmitt örlítið fleiri en við og geta ekki byggt afkomu sína á ferðamannaiðnaði í sama hlutfalli og við Íslendingar. Kárahnjúkar munu hverfa undir stöðulón sem verður á stærð við suðurnesin. Hún verður ekki beint falleg sjónin þegar úreldar verskmiðjur munu liggja á víð dreif um allar sýslur landsins. Hinn pólitíski meðbyr virkjanaframkvæmda á austurlandi má rekja til einnar staðreyndar og engrar annarrar. Hún er sú að fólkið, íbúar austurlands, mun aftur fá aukið verðmætamat á húseignir sínar. Í tíð kvótakerfisins var frumburðarrétturinn tekinn af þessu fólki ófrjálsri hendi. Byggðir landsins búa ekki lengur yfir sama aðdráttarafli og áður var. Verðmætamati húseigna fylgir lögmálið um eftirspurn. Húseignir íbúa á austurlandi hrundu í verði og í mörg herrans ár hafa margir austfirðingar leitað leiða við að koma suður eða flýja land en ekki tekist því enginn er kaupandinn á þeirra íbúðarhúsum. Eins og skrattinn úr sauðaleggnum kom sú hugmynd upp á yfirborðið að reisa álver á Reyðarfirði. Íbúar austurlands kættust yfir nýrri flóttaleið. Þeir kætast ekki yfir þeim möguleika að fá starf í álveri enda er lítið um atvinnuleysi á austurlandi sökum flótta unga fólksins þegar æskuhreiðrið er yfirgefið fyrir fullt og allt. Fá ekki allir hroll yfir þessum hrikalegu staðreyndum sem stjórnvöld á Íslandi hafa hellt yfir okkur með sínum sjóðvitlausu ákvörðunum ? Ef rétt væri gefið í sjávarútvegsráðuneytinu væri ekki að finna þennan pólitíska meðbyr á austurlandi fyrir málum virkjanaframkvæmda. Hugsi nú hver fyrir sig.

Hvað mun sjókvíaeldi á Íslandi leiða af sér ?
Algert hrun á villta íslenska laxastofninum. Noregur og Skotland sanna þessa staðhæfingu mína. Til að allir geri þessu rétt skil ber að útskýra eftirfarandi; Sjókvíaeldið á austurlandi er byggt á uppruna norskra laxaseiða. M.ö.o. norskur lax er notaður við uppbyggingu eldisins. Þegar þessi norski stofn blandast saman við íslenskar ár og ísaldargamlan laxastofninn okkar þá hrynur fyrir fullt og allt vistkerfi hins villta íslenska laxastofns. Sama gildir um aðra vatnafiska sem og bleikju og urriða. Silungsveiði mun einnig verða fyrir barðinu á þessu yfirvofandi náttúruslysi. Auðvitað á að ala og geyma hinn norska lax í sjókvíum sem lagðar hafa verið inn á firði fyrir austan land. En íslenskt veðurfar mun sjá til þess að slys verða. Sjókvíar þola ekki íslenskt veðurfar, þær munu laskast og norskur lax mun synda um strendur landsins í sinni eðlislegu leit að fersku vatni, íslenskum ám. Í Noregi hefur líf margra fjarða lagst af, eyðilagst vegna þeirra metralaga af skít sem liggur á botni fjarðanna Þegar þetta gerist verður ekki aftur snúið. Vitnisburður slælegs viðskiptavits okkar ráðamanna kemur fram í þeirri einföldu staðreynd að stangveiði-iðnaðurinn er margfalt stærri og umfangsmeiri en sá iðnaður sem um ræðir á austfjörðum. Stangveiði-iðnaðurinn er metinn á allt að 30 milljarða íslenskra króna. Ársverkin skipta hundruðum og því ekki hægt að skilja þessa fyrirætlan stjórnvalda. Eigendur sjókvíaeldisins á Íslandi eru kvótagreifarnir sem skýrir stefnu stjórnvalda í þessu mikilvæga máli.

Hvað er til ráða ?
Hættum að trúa núverandi stjórnarflokkum fyrir nýjum loforðum. Þá vilja margir segja ; Er ekki alls staðar sama bullið ? Svarið er sem betur fer nei. Það verður að vera nýliðun í stjórnmálum allra landa. Nýliðun í þeim skilningi að ferskir vindar komist að en ekki sveitir ungra manna sem apa allt upp eftir forverum sínum. Reyndar er það mín persónulega skoðun að seta þingmanna mætti ekki vera lengur en 8-12 ár. Það eru margir þingmenn sem horfa á þingmannasetuna sem ævistarf og eru því greinilega að hugsa fyrst um botninn á sér sjálfum þegar kemur að verkum og framkvæmdum innan síns ramma. Lýsandi dæmi er sú staðreynd að Kristján Pálsson skuli blása til borgarafundar um leið og eitthvað bjátar á hjá honum persónulega. Hann nefndi sjálfur á dögunum, í þættinum Ísland í dag, að hans stærstu mál fyrir byggðarlagið og landið í heild væru verk sem lúta að Fræðisetrinu í Sandgerði og einhverju saltfisksafni í Grindavík. Ef réttlætiskennd og skyldurækni þessa manns væri í sama hlutfalli og hans eigingirni þá er ljóst að blásið hefði verið í herlúðra og kvótakerfinu mótmælt harðlega sem molað hefur í sundur ófá fyrirtækin og um leið ævistörfin á Suðurnesjum. Af hverju í skrattanum hefur þessi maður ekki blásið til borgarafundar og mótmælt brotthvarfi veiðiheimilda af Suðurnesjum ? Sömu spurningu sendi ég til allra hinna stólsetuhitaranna sem með lagni og sérhagsmunaplotti náðu að koma sínum rassi fyrir til líklegrar þingsetu næstu fjögur árin. Er ég þá að tala um þann skrípaleik sem hefur einkennt prófkjörsmál stjórnarflokkanna undanfarin misseri en þar hefur þeirra rétta eðli fengið að skína í gegn. Hvernig er hægt að treysta stjórnmálaflokkum sem geta ekki unnið heiðarlega og lýðræðislega og það innan sinna eigin veggja ? Já, sannleikurinn er sár. En rétt skal vera rétt og rangt skal vera rangt eins og söguhetjan Bjartur í Sumarhúsum hefði orðað það.
Sem betur fer er tími gróða- og ófélagshyggju senn á enda. Við finnum þetta mörg hver á okkur. Margir eru orðnir þreyttir á þessu kapphlaupi efnis- og peningahyggju sem smitar allt frá sér í neikvæðum skilningi. Skilnaðir, sjálfsvíg, fátækt, óregla og fleiri döpur orð eflast við það hyggjuvit sem snýr að efnishyggju og græðgistón þeirra sem stjórna í dag. Af kynnum mínum við Frjálslynda flokkinn hef ég komist í kynni við hóp ungs fólks á sem hefur hyggjuvitið á réttum stað. Frjálslyndi flokkurinn vill að náttúran njóti vafans. Frjálslyndi flokkurinn vill stuðla að frumburðarétti okkar allra til nýtingar á ávöxtum náttúrunnar þ.e. fiskinum okkar. Við berjumst fyrir réttlæti, umhyggju og hagsæld allra Íslendinga. Ef þið viljið frelsi til framtíðar þá er Frjálslyndi flokkurinn svarið.

Þakka þeim sem lásu.

Gunnar Örlygsson
Stuðningsmaður Frjálsynda flokksins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024