Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 8. maí 2003 kl. 10:24

Kallinn í kosningaham – spá um úrslit

NÚ STYTTIST Í eina skemmtilegustu nóttina, sem því miður er ekki nema á fjögurra ára fresti undir venjulegum kringumstæðum, sjálfa kosninganóttina. Hún er spennandi og Kallinn á eftir að sitja fyrir framan sjónvarpstækið fram á morgun, eins og hann hefur gert sl. 30 ár.

KALLINN HEFUR grun um að nú sé Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli endanlega á förum. Kallinn fékk tölvuskeyti frá áreiðanlegum einstaklingi, en skeytið hljóðar svo: „Kallinn vill velta því fyrir sér hvers vegna gæslumenn þessir fara einmitt núna frá Íslandi eftir að hafa dvalið hér í sextíu og tvö ár. Hvað hefur breyst? Er það vegna þess, að það sem þeir pössuðu er einnig á förum? Hverja pössuðu þeir? Munu 285 íbúðir flugliða og venslafólks þeirra standa auðar innan tíðar?“ Kallinum finnst þetta gott bréf og þarfar spurningar. Er herinn á leið frá landinu? Hafa Haukarnir í Washington ekki ákveðið að draga herstöðvar í Evrópu saman? Er nokkuð búið að undirrita samning um áframhaldandi veru Varnarliðsins hér á landi? Af hverju er það ekki gert? Hvað er verið að fela? Kallinn óskar svara og vonast til að þeir sem viti meira um þetta mál sendi póst á [email protected]. Kallinn vill hafa herinn hér áfram!

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN á eftir að fá 3 menn kjörna í Suðurkjördæmi. Og hugsanlegt er að Kjartan Ólafsson fjórði maður á listanum nái inn. Flokkurinn hefur, að mati Kallsins verið að sækja í sig veðrið á síðustu vikum, en þó getur Kallinn ekki fyrirgefið þeim að mæta ekki á framboðsfundinn á Ránni. Árni Ragnar er í augum kallsins mikil hetja. Hann á við erfið veikindi að stríða, en hann berst eins og ljón og sýnir svo ekki verður um villst að hann er forustumaður flokksins í kjördæminu. Kallinn var á fundinum með Davíð í Stapanum og þar stóð Árni Ragnar sig gríðarlega vel og flutti góða ræðu. Þó Kallinn sé ekki endilega sammála stefnu Sjálfstæðisflokksins í mörgum málum náði Árni Ragnar til Kallsins með sínum málflutningi.
Spá: Þrír menn inn - og stutt í þann fjórða!

SAMFYLKINGUNNI er að fatast flugið á landsvísu. Kallinn telur að ástæðan sé sú að bomburnar frá Ingibjörgu Sólrúnu hafi komið of snemma - en bomburnar voru nauðsynlegar. Auðvitað má gagnrýna formann Sjálfstæðisflokksins og sérstaklega í miðri kosningabaráttu þegar hann er bara einn af frambjóðendunum. Ingibjörg minnti þó helst til á Jónas frá Hriflu með sínum málflutningi og hún hefði getað gert það öðruvísi. Kallinn býst við því að Samfylkingin fái 3 menn kjörna í kjördæminu og er það miður því Jón Gunnarsson úr Vogum yrði mjög frambærilegur þingmaður fyrir Suðurnesjamenn. En ekkert bendir til þess að hann nái inn.
Spá: Þrír menn inn!

FRAMSÓKNARFLOKKURINN er á uppleið, eins og alltaf á lokametrunum. Kallinn vill að Hjálmar nái kjöri og það er hans trú að það gerist. Hjálmar hefur alla tíð verið duglegur að vinna fyrir kjördæmið og hann mun halda því áfram. Kallinn hinsvegar skilur ekki hvað Ísólfur Gylfi Pálmason er að gera í þessum hópi. Reyndar minntist Kallinn á það í pistli fyrr í vetur að það eina rétta sem Framsókn hefði átt að gera var að tryggja Helgu Sigrúnu 4. sætið á listanum. Það hefði rakað inn atkvæðum. En sitt sýnist hverjum!
Spá: Tveir menn inn!

FRJÁLSLYNDIR eru náttúrulega algjörir snillingar. Með styrkri stjórn Guðjóns Arnars hefur fylgi flokksins á landsvísu stóraukist og þeir ná eyrum landsmanna. Kallinn er á móti kvótakerfinu og þeir sem það eru kjósa Frjálslynda flokkinn. Magnús Þór Hafsteinsson efsti maður á lista flokksins í Suðurkjördæmi er að mati Kallsins góður málsvari fólks á Suðurnesjum. Hann á eftir að aðstoða Sandgerðinga í sínum málum ef hann nær kjöri sem allar líkur eru á. Magnús hefur staðið sig vel í öllum framboðsþáttum og sýnt að hann mun vinna fyrir Suðurnesjamenn.
Spá: Einn maður inn.

VINSTRI GRÆNIR eru frábærir. Í frábærri grein sem Þórunn Friðriksdóttir annar maður á lista flokksins í kjördæminu skrifaði í síðustu Víkurfréttir vill hún mála alla stóra fleti í bænum. Hún vill fá veggjakrotara til að skreyta veggina. Frábært stefnumál! Reyndar hefur það komið Kallinum á óvart hve góða útkomu Vinstri Grænir fá í kjördæminu því aldrei hefur Kallinn fundið fyrir sterkum vinstri sveiflum á Suðurnesjum og því hlýtur flokkurinn að sækja fylgið á Suðurlandið.
Spá: Engan mann inn!

KRISTJÁN Pálsson nær að mati Kallsins ekki inn á Alþingi. Kallinn hafði mikla trú á Kristjáni í upphafi kosningabaráttu hans og lagði miklar vonir við hann. En Kallinn hefur orðið fyrir vonbrigðum því hann hélt að Kristján myndi koma fram með ný málefni og leggja áherslu á að ná til Suðurnesjamanna. Það hefur hann ekki gert og er það miður því Kristján hefði orðið góður þingmaður. Kallinn hefur þó heyrt að fjölmargir ætli að kjósa hann og það er bara vonandi að hann nái inn á þing, því Kallinn áttar sig á því að Kristján á möguleika á ráðherrastól ef mál skipast þannig. Algjör snilld hjá Kristjáni að syngja stefnuskrá T-listans í Ísland í bítið, þó Kallinn efist um að mörg atkvæði hafi verið veidd með því.
Spá: Kristján kemst því miður ekki inn!

NÝTT AFL - HVAÐ ER NÚ ÞAÐ? Ekkert um það að segja og mjög fá atkvæði til þeirra. Kallinn skilur ekki svona vitleysu!
Spá: Engan mann inn!

EF SPÁ KALLSINS gengur eftir þá er ljóst að Suðurnesjamenn eiga bara 2 þingmenn inn á alþingi, þ.e. fólk sem sannarlega er frá Suðurnesjum. Það eru Árni Ragnar og Hjálmar Árnason. Ekki góð kosning það - eða hvað? Það er annaðhvort fyrir Suðurnesjamenn að hópast að Samfylkingunni og ná Jóni Gunnarssyni inn eða að T-listanum og ná Kristjáni Pálssyni inn. Nú eða þá að ná Grétari Mar inn - en það verður að teljast ólíklegt að muni gerast.

KJÓSIÐ RÉTT og setjið X við F, T, S, B, U eða D.

Kosningakveðja,
[email protected]
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024