Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Fimmtudagur 27. mars 2003 kl. 15:06

Kallinn á móti stríði

ROSALEGA er Kallinn ánægður með framkvæmdirnar á Hafnargötunni sem skýrt var frá í síðustu Víkurfréttum. Í mörg ár hefur verið rætt um að fara að gera eitthvað fyrir „Laugaveg“ okkar Suðurnesjamanna, en aldrei hefur neitt gerst. Fyrr en núna! Þetta er frábært framtak og Árni bæjarstjóri og allt hans starfsfólk á skilið mikið hrós fyrir.

MEÐ ÞESSUM framkvæmdum er einnig verið að slá á atvinnuleysi hér á Suðurnesjum því Reykjanesbær samdi við verktaka af Suðurnesjum. Það eitt og sér er líka frábært mál.REYNDAR hefur Kallinn verið að heyra miklar ánægjuraddir með Árna bæjarstjóra og þeir íbúar sem Kallinn hefur rætt við eru mjög ánægðir með hans störf. Hann hefur komið gríðarlega sterkur inn í bæjarfélagið og tekið virkilega til hendinni. Það var happafengur að fá þennan mann hingað!

AÐ SJÁLFSÖGÐU á Árni Sigfússon að verða bæjarstjóri sameinaðs sveitarfélags á Suðurnesjum. Það verður að fara að skoða það með opnum huga að sameina öll sveitarfélögin á svæðinu. Kallinn verður aldrei þreyttur á því að ræða um sameiningarmálin og hann mun ekki hætta því. Enda er það trú Kallsins að sveitarfélögin verði sameinuð í náinni framtíð. Kallinn vill skora á bæjarstjórnir á svæðinu til að skoða þessi mál með opnum huga.

KALLINN er á móti öllu stríði! Og hann er gríðarlega andvígur ákvörðun íslenskra stjórnvalda að styðja stríðsrekstur öfgahægrisinnans Bush og veiklundaða vinstri mannsins Blair. Þeir félagar í ríkisstjórninni geta verið stoltir af því að hafa í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins gert íslensku þjóðina að þátttakendum í stríði - án vilja þjóðarinnar.

ALL WE ARE saying is give peace a chance!


Friðarkveðja,
[email protected]
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024