Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kallinn á kassanum
Fimmtudagur 1. apríl 2004 kl. 09:24

Kallinn á kassanum

TIL HAMINGJU KEFLAVÍKURSTÚLKUR með Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta. Kallinn mætti á alla leikina og honum þótti gaman að sjá hvernig liðið rúllaði hreinlega yfir stúdínur. Frábært íslenskt lið! Kallinn hvetur alla Keflvíkinga að styðja við bakið á stelpunum.

OG EKKI ER árangurinn minni hjá strákunum í körfunni í Keflavík. Nú skipta úrslitaleikirnir mestu máli og það skiptir máli að Keflvíkingar mæti á leikina og styðji sína menn.

KALLINN HEFUR undanfarna daga séð hópa af 12 til 14 ára krökkum fyrir utan ákveðinn skóla í Reykjanesbæ þar sem þessir ungu krakkar eru að reykja. Sjálfsagt finnst þessum krökkum það flott og kúl að standa í hóp, með sígarettu í munnvikinu, hrækjandi og púandi sígarettureykinn út í loftið. Hvað er flott við þetta spyr Kallinn? Og hvar eru forvarnirnar? Hvar er fólkið sem ætti að benda þessum óhörnuðu unglingum á skaðsemi reykinga? Kallinum finnst alveg hrikalegt að horfa upp á þessa krakka ánetjast nikótíninu með hverjum smóknum sem það tekur. Skólayfirvöld, grunnskólar, foreldrar og æskulýðsbatterí Reykjanesbæjar á að taka höndum saman og reyna að sporna við þessari þróun. Það er eitt af hlutverkum þessara stofnana samfélagsins hér á Suðurnesjum - ekki síður en foreldra.

KALLINN LAS í síðustu viku að Ólafur Þór Ólafsson bæjarfulltrúi í Sandgerði hefði sagt starfi sínu lausu sem íþróttafulltrúi bæjarins vegna bókunar meirihluta bæjarstjórnar í Sandgerði. Kallinn er ekki hissa á þessari ákvörðun Ólafs Þórs. Bókun meirihlutans er til háborinnar skammar fyrir meirihlutann, sem er nota bene, kosið lýðræðislegum kosningum. Með bókuninni er meirihlutinn í raun að segja að Ólafur Þór megi ekki hafa sjálfstæðar skoðanir á bæjarmálum vegna þeirrar staðreyndar að hann starfi í einum af stofnunum bæjarins. Alveg með ólíkindum hvernig meirihlutinn hagar sér þarna. Kallinn hvetur Ólaf Þór að berjast eins og ljón í bæjarstjórninni nú þegar hann hefur verið hrakinn úr starfi. Hún er hreint út sagt ótrúleg pólitíkin í Sandgerði!

Í TILEFNI dagsins mun Kallinn opinbera sig í dag. Kallinn mun standa á kassa sínum fyrir utan Sparisjóðinn í Keflavík um klukkan 14 í dag og lesa einn pistla sinna.

BARÁTTUKVEÐJA,
[email protected]
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024