Kaj Mickos á Ásbrú
Í tilefni Ljósanætur bjóða KADECO og Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna til fyrirlestrar og vinnustofu með Kaj Mickos þann 5. september næstkomandi. Fyrirlesturinn verður haldinn í nýjum Orku- og tækniskóla Keilis á Ásbrú (Grænásbraut 910). Fyrirlesturinn hefst kl. 11.00, en að honum loknum fer fram vinnustofa, þar sem fjögur lið munu keppa við lausn á tilteknu nýsköpunarverkefni í samræmi við aðferðafræði Mickos.
Kaj Mickos prófessor við Mälardalens Háskólann í nýsköpunartækni, hefur undanfarin 20 ár verið ráðgjafi og aðstoðað um 25 þúsund einstaklinga við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Hann á sjálfur 31 einkaleyfi og hefur stofnað 14 fyrirtæki á ólíkum sviðum. Undanfarin tvö ár hefur hann verið með tvær sjónvarpsþáttaraðir á TV8 í Svíþjóð. Önnur heitir „72 hours race“ þar sem hugmynd er útfærð og undirbúin til framleiðslu á 72 tímum. Hin þáttaröðin heitir „Innovatörarna“ þar sem farið er inní starfandi fyrirtæki og hjálpað til við lausn á ákveðnu vandamáli.
Kaj Mickos er stofnandi Innovation Plant eða Nýsköpunarverksmiðjunnar og hefur í meira en 20 ár þróað aðferðafræði sína sem gengur út á það að gera nýsköpunarferlið árangursríkara þannig að fleiri vörur nái markaði. Hann fullyrðir að ef hugmynd uppfylli ákveðna þörf, ásamt því að viljug manneskja drífi verkefnið áfram með hjálp frá þverfaglegu teymi og sé fjármagn til staðar, verði undantekningarlaust til árangursrík markaðsvara.
Nánari upplýsingar er m.a. að finna á www.innovationplant.se
Aðgangur er ókeypis, en þeir sem vilja sitja fyrirlesturinn og/eða taka þátt í vinnustofunni eru vinsamlegast beðnir um að skrá nafn sitt og helstu upplýsingar með því að senda tölvupóst á [email protected]. Athygli er vakin á því að einungis takmarkaður fjöldi mun geta tekið þátt í vinnustofunni.