Kæru Grindvíkingar!

Á fundi bæjarstjórnar þann 25. júlí síðastliðinn var  kaupsamningur  að Festi þar sem lagt er til að hlutur Grindavíkur í félagi sem á húsið verði seldur til Ísfirska  fasteignafélagsins  AFG ehf samþykktur gegn atkvæði okkar Sjálfstæðismanna. Við Sjálfsstæðismenn erum mótfallnir þeim áformum og höfum stuðst þar við málefnasamning milli Framsóknarflokks og Sjálfsstæðisflokks sem gerður var í upphafi kjörtímabilsins, en í honum stendur:  „Byggja eigi upp Festi. Salurinn verður gerður upp með möguleika á að skipta honum niður og fundið út hvaða stofnanir og þjónusta eigi best heima þar t.d. stjórnsýslan, Þruman eða bókasafn." Sú stefna var miðuð við vilja bæjarbúa og þeirra stefnu sem allir flokkar settu fram í síðustu kosningabaráttu.

Fyrir utan að falla frá þeirri stefnu sem samið var um þá er margt annað athugavert við þessa fyrirhuguðu sölu.  Nú stendur til að selja Festi fyrir 400 þúsund . Siðan þarf kaupandinn að borga  15.000.000 skuld félagsins við bæjarsjóð á næstum 16 árum.  Þá liggur heldur ekki fyrir hvað kaupandinn ætlar að gera við Festi, en m.a. hefur heyrst að til standi að setja upp Hostel þar sem áður var samkomusalur. Erfitt er að sjá að félag sem getur einungis lagt fram fjögurhundruð þúsund til kaupanna geti lagst í miklar endurbætur á húsinu sem eru nauðsynlegar til að koma þar upp starfsemi. Að mati okkar Sjálfsstæðismanna lítur helst út fyrir að verið sé að gefa Festi. 

Á þessum fundi lögðu Sjálfstæðismenn  til  að málefni Festis yrði lagt í íbúakosningu en því neituðu aðrir flokkar í bæjarstjórn. Greininlega hræddir við að fá fram skoðun bæjarbúa á einu heitasta málefni bæjarins.  Þeim finnst óhugsandi að breyta ákvörðun sinni varðandi það að selja Festi á slikk og því kæmi það sér illa ef íbúarnir væru þeim ekki sammála.  Íbúar  hljóta því að spyrja sig hvort þeir  hafi meiri áhuga á að þjóna hagsmunum og vilja bæjarbúa eða sínum eigin.

Við Sjálfstæðismenn höfum lagt til að bærinn byggi upp Festi og verði austur hluti hússins notaður undir bæjarskrifstofur og samkomusalurinn fái að halda sér. Hægt væri að skipta salnum niður þannig að hann nýttist í hina ýmsu fundi, ráðstefnur og fleira. Þar að auki væri með meiri uppbyggingu vel hægt að koma fyrir annarri starfsemi í húsinu undir ýmsa þjónustustarfsemi.

Hvað kemur í staðinn fyrir Festi?
Í stað þess að endurbyggja samkomusal í Festi vilja Framsóknarmenn selja húsið á slikk og byggja nýjan 200 manna sal á íþróttasvæðinu sem kostar um það bil 200 milljónir í byggingu og einnig á að setja 20 – 40 milljónir í íþróttasalinn til þess að hægt sé að halda þar stórar veislur. Ljóst er að rekstrarkostnaðurinn á þessum nýja sal yrði mun meiri en við endurbyggðan sal í Festi og þar að auki mundi hann nýtast íþróttahreyfingunni að takmörkuðu leyti.

Framsóknarmenn hafa hins vegar sagt að eina ástæðan fyrir því að bæjarbúar vilji gera upp Festi sé sú að uppfylla þörf á veislusal. Þeir telja að uppbygging á samkomusal í Festi hafi í för með sér mun meiri rekstarkostnað en að byggja nýjan sal við íþróttasvæðið. Að auki telja þeir að salur í Festi muni ekki geta nýst á neinn annan hátt en fyrir veislur. Mun nýr salur á öðrum stað nýtast betur og hafa lægri rekstrarkostnað? Rök fyrir því hafa ekki komið fram og þarf líklegast mikið hugmyndarflug til að búa þau til.

Gera má ráð fyrir að reksturinn á endurbættum sal í Festi muni kosta um 5 milljónir á ári. Verði bæjarskrifstofurnar fluttar í austurhluta Festi mætti þá nýta salinn fyrir fundi bæjarstjórnar. Einnig væri hægt að nýta salinn fyrir aðra fundi, ráðstefnur og hugsanlega tengt annarri þjónustu verði hún byggð upp við húsið. Að sjálfsögðu mundi salurinn einnig nýtast sem veislu- og samkomusalur líkt og áður var. Varlega áætlað fengjust um 50 – 70 milljónir í söluandvirði af núverandi bæjarskrifstofum og gætu þeir fjármunir nýst í hluta af uppbyggingu á Festi.

Festi er miðbæjarkjarninn í Grindavík


Fyrirhugað er að reisa miðbæjartorg við Festi og gera húsið að lifandi stað í hjarta bæjarins. Verði af sölu Festis til fasteignafélagsins má setja stórt spurningarmerki við að leggjast í slíkar kostnaðarsamar framkvæmdir við hús sem væri í einkaeigu. Við Sjálfsstæðismenn viljum að Festi verði í eigu Grindvíkinga og í því verði starfsemi sem nýtist öllum bæjarbúum. Á næstu árum verði þar lokið uppbyggingu sem Grindvíkingar geti verið stoltir af og aftur verði hér í bæ samkomusalur sem nýtist bæði við stórar sem smáar uppákomur. Þá lausn teljum við bæði þjóna hagsmunum bæjarbúa betur og hafa í för með sér minni kostnað.


Guðmundur Pálsson
formaður bæjarráðs Grindavíkur.