Kæri Garðbúi
– Einar Jón Pálsson skrifar
Tíminn flýgur áfram og framundan eru sveitarstjórnarkosningarnar. Tilfinningin er samt sú að þær hafi verið í „síðustu viku“. Kjósendur spyrja sig eflaust hvað hefur áunnist og hvað sé framunda og hvernig hægt sé að hafa áhrif á framtíð sveitarfélasgis?
Listi sjálfstæðismanna og óháðra kjósenda í Garði bjóða nú fram í annað sinn undir merkjum D-lista. Listann skipar hópur fólks með ólíkan bakgrunn og menntun en hafa sameiginlega hugsjón að láta gott af sér leiða fyrir samfélagið í Garði, samfélag sem er okkur kært. Á listanum er einnig mikið af ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref í bæjarmálum í bland við einstaklinga með mikla reynslu. Þessi blanda er mikilvæg því með unga fólkinu kemur aukin orka og nýjar hugmyndir.
Frambjóðendur listans vilja í samvinnu við íbúana halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið í Garðinum og um leið bæta það sem betur má fara. Við óskum eftir samvinnu við íbúana og starfsfólk sveitarfélagsins við það verkefni okkar að leggja rækt við Garðinn. Til að svo megi verða er þátttaka íbúana mikilvæg enda hafsjór hugmynda sem hjá þeim liggur. Hugmyndirnar þurfum við að fá fram og vinna með í samvinnu.
Íbúar eru hvattir til að heimsækja frambjóðendur á kosningarskrifstofuna til að leggja okkur lið í stefnumótunarvinnunni og hafa þannig bein áhrif á stefnuskrá listans. Við viljum líka heimsækja ykkur, ef það hentar betur, og þá er bara að hafa samband við frambjóðendur sem svara kallinu.
Kæri íbúi, Garðurinn hefur í dag nokkra sérstöðu meðal sveitarfélaga enda fjárhagsstaða þess mjög góð, skuldir sveitarfélagsins eru litlar og á það í sjóðum fjármuni til að greiða allar skuldir sínar. Sérstöðunni er nauðsynlegt að viðhalda og verður það best gert með ábyrgri fjármálastjórnun og almennu aðhaldi í rekstri sveitarfélagsins. Álögur á íbúa í samanburði við önnur sveitarfélög eru lágar og hefur þess verið gætt, og mun verða gætt, að allir íbúar geti notið þeirrar þjónustu sem í boði er án þess að hækkanir séu of miklar.
Framundar eru spennandi tímar í Garðinum, framtíð sveitarfélagsins er björt, í samvinnu og með samstöðu leggjum við rækt við Garðinn okkar.
Verið velkomin í spjall við frambjóðendur listans, við hlökkum til að hitta ykkur.
Einar Jón Pálsson
Forseti bæjarstjórnar
Skipar 1. sæti á D-lista
Forseti bæjarstjórnar
Skipar 1. sæti á D-lista