Jón Gunnarsson í viðtali: Baráttan um 1. sætið erfið
Jón Gunnarsson, alþingismaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi gefur kost á sér í 1. sæti í prófkjöri flokksins sem fram fer í byrjun nóvember. Þar mun hann etja kappi við m.a. aðra sitjandi þingmenn um efsta sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Víkurfréttir tóku Jón tali, þar sem hann er eini Suðurnesjamaðurinn sem sæist eftir 1. sæti á framboðslistanum.
Hvaða máli skiptir það fyrir samfélag eins og Suðurnes að oddviti framboðs Samfylkingarinnar komi þaðan?
„Það getur skipt talsvert miklu eins og dæmin sanna því það er hefð fyrir því að efstu menn á framboðslistum í kjördæmunum komi fyrstir til greina í ábyrgðarmestu stöður þegar þingflokkar velja sér fólk til forystu. Við vitum öll, sem höfum fylgst með því hvernig þing starfar að á þingi er ákveðin goggunarröð ef svo mætti segja og því framar sem maður er í þeirri röð, því meiri möguleiki á því að koma sínum málum í framkvæmd.
Mikil ráðherraþurrð þegar litið er til Suðurnesja
Suðurnesin hafa ekki oft verið í þeirri stöðu að eiga oddvita framboðslista í þingkosningum og við vitum einnig að það hefur verið mikil ráðherraþurrð þegar litið er til Suðurnesja. Við erum búin að vera í nýju kjördæmi í tæpt kjörtímabil og mikilvægt að við vinnum vel með félögum okkar annarsstaðar í kjördæminu þó við þurfum einnig að sjálfsögðu að gæta þess að Suðurnes hafi þau áhrif sem stærðin gefur tilefni til“.
Baráttan um 1. sætið verður erfið
Verður það ekki erfiður róður að ná 1. sæti? Nú eru nokkur önnur stór nöfn og sitjandi þingmenn sem jafnframt stefna á það sæti.
„Það er aldrei létt að taka þátt í prófkjöri og etja kappi við samherja sína um sæti á framboðslistum. Við erum þrír sitjandi þingmenn sem höfum gefið kost á okkur í 1. sæti og einn nýr frambjóðandi sem nefnir 1-2. sæti, þannig að það er alveg ljóst að baráttan um sætið verður erfið. Það er mikilvægt að við sem bjóðum okkur fram náum að vinna þannig í prófkjörinu að ekki myndist stór sár sem erfitt verður að græða, þar sem mörg okkar sem tökum þátt munum sitja á væntanlegum framboðslista og þurfa að vinna náið saman að því markmiði að vera áfram stærsti stjórnmálaflokkurinn í kjördæminu. En því fylgir einnig að Samfylkingin mun áfram eiga 1. þingmann kjördæmisins sem er einskonar verkstjóri fyrir allan þingmannahóp kjördæmisins.
Kjörsóknin á Suðurnesjum verði góð
Það sem mestu máli skiptir til þess að ég nái góðum árangri í prófkjörinu er að kjörsóknin á Suðurnesjum verði góð og ekki lakari en í öðrum hlutum kjördæmisins því ég trúi því að ég eigi góðan stuðning Suðurnesjamanna sem þekkja mig og mín verk.
Eru prófkjör eins og það sem nú mun eiga sér stað í kjördæminu ekki keppni á milli sveitarfélaga/svæða um að koma að sínum manni? Er kjördæmaskipanin eins og hún er núna í raun ekki skekkja og kjördæmið of stórt? Hvernig gengur þér að kynna þig á Höfn í Hornafirði eða á Klaustri og að sama skapi hvaða möguleika á fólk þaðan hér Suður með sjó?
„Jú vissulega snýst prófkjör eins og við erum að fara í 4. nóvember örugglega að einhverju leiti um sveitarfélög eða svæði og ég heyri það nú þegar að slíkur málflutningur er byrjaður um allt kjördæmið. Það er svo sem ekkert óeðlilegt við það, því frambjóðendur á hverjum stað þekkja best til í nágrenni sínu og áherslur þeirra verða alltaf að einhverju leiti svæðisbundnar þó maður verði að gæta þess að hafa hugann við allt kjördæmið í störfum sínum. Ég þekki nú mun betur til í hinum hlutum kjördæmisins en ég gerði áður og hef kynnst miklum fjöld fólks sem er tilbúið til þess að styðja mig til góðra verka inni á þingi í framtíðinni.
Kjördæmaskipanin er afar erfið
Kjördæmaskipanin er afar erfið með þessi stóru og víðfeðmu kjördæmi og algjörlega borin von að þingmenn geti verið í nánum tengslum við kjósendur um allt kjördæmið. það er mín skoðun að núverandi landsbyggðarkjördæmi séu of stór og við verðum að huga að breytingum í því efni. Kannski er lausnin sú að gera landið að einu kjördæmi og að kjósendur raði á lista um leið og þeir kjósa. það má segja að sú aðferð sameini bæði uppröðun á lista og kosningu til Alþingis og aðeins þeir sem kjósa viðkomandi lista komi þá að uppröðun hans.
Höfn í Hornarfirði svipar til þeirra sveitarfélaga sem við þekktum hér á Suðurnesjum og sem byggðu afkomu sína að mestu á sjósókn og vinnslu sjávarafurða. Það sama gildir um Vestmannaeyjar þó erfiðar samgöngur þangað geri aðstæður talsvert frábrugðnar því sem hér er. Mér hefur gengið vel að kynna mig í öðrum hlutum kjördæmisins og þar nýt ég þess að sjálfsögðu að hafa verið þingmaður þetta kjörtímabil. Fyrir þá einstaklinga sem eru að koma nýir inn í prófkjörið skiptir máli að vera ófeimnir við að hafa samband við fólk annarsstaðar en í sínu nánasta umhverfi því almennt má segja að sú regla gildi að vel sé tekið á móti símtali eða heimsókn.
Á þingi fer fram talsverð togstreita milli kjördæma
Hver verða þín helstu baráttumál?
„Ég mun áfram berjast fyrir málefnum kjördæmisins eins og ég hef gert og þar eru málefni Suðurnesja ekki undanskilin. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að á þingi fer fram talsverð togstreita milli kjördæma um fjármagn og verkefni og við sem eru þingmenn Suðurkjördæmis verðum að sjálfsögðu að taka þátt í þeim leik eða verða útundan sem að sjálfsögðu kemur ekki til greina af minni hálfu“.
Helstu baráttumálin
„Ef ég á að nefna einhver af þeim málum sem snúa beint að kjördæminu þá mun ég m.a. berjast fyrir eftirfarandi málum:
Málefnum flugvallarins eftir viðskilnað Bandaríkjamanna þar. Mér líkar illa hvernig komið var fram við starfsmenn sem voru búnir að vinna mestan sinn starfsaldur hjá þessum vinnuveitanda og ríkið ætti að sjá sóma sinn í því að koma að málinu.
Framkvæmdum við nauðsynlegar vegabætur í kjördæminu þ.m.t. Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Suðurstrandarveg
Málefnum símenntunarmiðstöðva og háskólanámi í kjördæminu.
Leiðréttingu á fjármagni sem fer í rekstur Heilbrigðisstofnana, þannig að það dugi til að standa undir sjálfsagðri og lögskipaðri þjónustu við íbúanna.
Að rekstur dvalar- og hjúkrunaheimila verði tryggður og uppbygging þeirra í samræmi við þörf.
Að staðir í kjördæminu og einstök svæði innan þess njóti jafnræðis við sambærilega staði annarsstaðar á landinu þegar kemur að afskiptum hin opinbera“.
Harður fyrir hönd kjördæmisins
„Í stuttu viðtali er ekki hægt að vera með tæmandi upptalningu, en ég hef fengið orð fyrir það á þinginu að vera harður fyrir hönd kjördæmisins og tala máli þess.
Ef við lítum hinsvegar yfir allt sviðið þá mun ég berjast fyrir meira réttlæti og jöfnuði fyrir hinn venjulega vinnandi mann. Ójöfnuður er alltaf að aukast og við erum að sjá stéttaskiptingu verða að veruleika í íslensku þjóðfélagi. Ef til vill næst aldrei fullur jöfnuður en við getum barist fyrir því að ríkið auki ekki á ójöfnuð með aðgerðum sínum og mismuni fólki eins og hefur gerst í tíð þessarar ríkisstjórnar. Aðgerðir í skattamálum, barna- og vaxtabótum, almannatryggingum, vaxtaákvörðunum og verðtryggingu geta bætt kjör og aukið jöfnuð og að því eigum við að vinna. Við eigum alltaf að spyrja okkur að því hvernig aðgerðir ríkisins koma við fjölskylduna og passa að hagsmunir hennar séu teknir fram yfir sérhagsmuni annarra. Ef það hefði verið gert þá hefði lækkun matarverðs komið mun fyrr en nú er raunin og það er óskiljanlegt hvernig ríkisstjórnin dregur lappirnar í málinu þannig að lækkunin verði fyrst að veruleika korteri fyrir kosningar“.
Ekki verði drollað við stofnun félags um eignir á Keflavíkurflugvelli
Hver eru brýnustu verkefnin sem ráðast þarf í á Suðurnesjum sem þú munt beita þér fyrir?
„Brýnustu verkefnin á Suðurnesjum fyrir utan þau sem ég nefndi hér að framan eru að vel takist til í stofnun félags um eignirnar á Keflavíkurflugvelli og að ekki verði drollað í því verkefni að koma þeim aftur í notkun. Það er sannað að þeim mun skemmri tími sem líður frá því að herstöð er yfirgefin þar til borgaraleg starfssemi tekur yfir fasteignir og aðstöðu, þeim mun meiri líkur eru á því að vel til takist. Sveitarfélögin á svæðinu eiga að koma að málinu með beinum hætti og hafa veruleg áhrif á framvindu málsins.
Umhverfisvernd samhliða orkuframleiðslu
Umhverfisvernd samhliða skynsamlegri nýtingu ákveðinna svæða til orkuframleiðslu er mikilvægt verkefni sem nauðsynlegt er að ná sátt um sem fyrst.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum þurfa að gera samning um menningarmál við Menntamálaráðuneytið, en þar sem slíkir samningar hafa komist á hefur menningarlífið tekið mikinn kipp og auknir opinberir fjármunir komið frá ríki og sveitarfélögum. Það sama gildir um vaxtarsamning við Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið en slíkir samningar hafa í auknum mæli komið staðinn fyrir hefðbundið atvinnuþróunarstarf og virðast vera að skila árangri.
Helguvík sitji við sama borð og aðrir kostir
Hver er stefna þín varðandi álver í Helguvík?
„Stefna mín varðandi framkvæmdir í Helguvík hefur verið skýr og gengur ekki í bága við nýlega birta stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum sem við birtum undir heitinu “Fagra Ísland” . Ég hef sagt að ef framkvæmdir í Helguvík og orkuöflun þeim tengd, uppfylli öll ytri skilyrði sem sett eru af stjórnvöldum þá krefjist ég þess að Helguvík sitji við sama borð og aðrir kostir en sé ekki útilokuð með sérstökum stjórnvaldsaðgerðum vegna staðsetningar sinnar hér á Suðurnesjum. Með öðrum orðum þá er ég búinn að fá mig fullsaddan af því að einhver ráðherra setji fótinn fyrir Suðurnes og vísi atvinnutækifærum annað“.
Ekki hlustað á varnaðarorð okkar
Hvert á að stefna með gömlu Herstöðina?
„Samfylkingin benti ítrekað á það í aðdraganda síðustu alþingiskosninga að nauðsynlegt væri að setja af stað vinnu sem hefði það markmið að undirbúa viðbrögð við minnkandi starfssemi Bandaríkjamanna og undirbúa hvernig við tækjum við þeirri starfssemi sem þar færi fram. Eins og stundum áður þá var ekki hlustað á varnaðarorð okkar og það er í raun dæmigert fyrir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar sem nú situ að fyrst nú, þegar herinn er farinn og allar byggingar auðar, skuli hún vera að klóra sér í kollinum yfir því hvað gera eigi við aðstöðuna.
Eins og ég nefndi þarf að drífa í að stofna hlutafélagið um eignirnar og ég er satt að segja afar hissa á að það hafi ekki verið gert samhliða því að gengið var frá samningi um eignirnar við Bandaríkjamenn. Við þurfum að gefa almenningi og fyrirtækjum kost á því að koma með hugmyndir um atvinnustarfssemi eða aðra notkun svæðisins og til greina kemur að efna til opinnar hugmyndasamkeppni í því sambandi.
Laða að og efla flugtengda starfssemi
Ég hef séð fyrir mér að hægt verði að nýta eignirnar á vellinum bæði til að laða að og efla flugtengda starfssemi og einnig hef ég verið skotinn í hugmyndum um mennta og þjálfunarsetur. Ég kastaði því fram eftir að ljóst var að Bandaríkjamenn vildu fara, hvort ekki væri rétt að nota þá samningsstöðu sem enn var fyrir hendi til að semja um að bandarískur háskóli setti upp útibú á Keflavíkurflugvelli í því tilbúna háskólaþorpi sem þar er fyrir hendi og byði upp á menntun í auðlinda- orku og umhverfisfræðum sem höfðað gæti til nemenda vítt og breytt um heiminn.
Þetta mál er einstakt og afar mikilvægt að vel takist til um úrlausn þess. Hagsmunir Suðurnesja eru miklir í þessu máli og það er skylda stjórnvalda að taka fullt tillit til sjónarmiða heimamanna“.
Búum að mikilli þekkingu á jarðhitaverkefnum
Hvað á að gera í orkumálum á Reykjanesskaga?
„Við eigum að halda áfram að nýta þau svæði sem þegar eru komin í nýtingu og standa myndarlega við bakið á djúpborunarverkefni sem hefði það að markmiði að auka verulega orkuna sem kæmi frá hverri holu. Við eigum að hlífa ákveðnum svæðum sem ekki hefur verið hreyft við og horfi ég þá helst til Brennisteinsfjalla og kappkosta að saman fari útivera, náttúruvernd og skynsamleg nýting.
Við búum að feikimikilli þekkingu á jarðhitanum á skaganum og þurfum að auka við hana þannig að sú mikla auðlind sem við eigum nýtist okkur sem best til framtíðar. Falleg náttúra með óteljandi möguleikum á útiveru, gönguleiðum og söguskoðun bíður einnig upp á mikil tækifæri til framtíðar og þeim fjölgar alltaf sem gera sér grein fyrir því hvað Reykjanesskaginn hefur upp á mikið að bjóða.
Gerð krafa um ráðherrasæti
Náir þú efsta sæti í kjördæminu í prófkjörinu og Samfylkingin fer í ríkisstjórnarsamstarf í vor. Gerir þú þá kröfu um ráðuneyti?
„Eins og ég áður sagði þá munu oddvitar kjördæmanna helst koma til greina þegar þingflokkurinn velur fólk til trúnaðarstarfa. Ef ég næ því sæti sem ég stefni á þá eru raunverulegir möguleikar fyrir hendi varðandi ráðherradóm og auðvitað yrði gerð krafa um slíkt. Mín störf á þinginu og innan Samfylkingarinnar hafa mikið verið á sviði atvinnu- og efnahagsmála og við höfum sagt að við vildum sameina öll atvinnuvegaráðuneytin í eitt og ég get ekki neitað því að það yrði afar áhugavert að fá að glíma við það verkefni að verða atvinnumálaráðherra. Það sem skiptir þó fyrst og fremst máli til skemmri tíma litið er að ná saman sigurstranglegum lista og hefja öfluga kosningabaráttu þannig að við vinnum góðan kosningasigur næsta vor í öllum kjördæmum. Það tryggir Samfylkingunni það afl og þau áhrif sem þarf til að mynda ríkisstjórn og gerir okkur kleift að hrinda stefnumálum okkar í framkvæmd.
Það er kominn tími til að skipta um ríkisstjórn og gefa ríkisstjórnarflokkunum frí. Að því þurfum við öll að vinna og það væri verðugt og skemmtilegt verkefni að leiða Samfylkingarfólk í kjördæminu til þess nauðsynlega verks“, segir Jón Gunnarsson, frambjóðandi til fyrsta sætis á lista Samfylk-ingarinnar í prófkjöri hennar í Suðurkjördæmi í viðtali við Víkurfréttir.