Jólasagan: Boðberi kærleikans
Myrkrið grúfði yfir. Úti var kyrrt og kalt. Ljósanæturlýsingin á Berginu merlaði á haffletinum í kringum smábátabryggjuna og siglingaljósin, rautt og grænt, skinu á víxl.
Bergið var sveitin í miðju bæjarfélaginu, hús af öllum gerðum, gömul sem ný og eitthvað svo hlýlegt við það umhverfi. Við Hafnargötuna voru síðustu nátthrafnarnir að skreiðast heim. Helgin á enda. Eyðslan umfram mörk og vikan framundan uppfull af núðlugraut og tekexi.
Það var ekki fjárhagsvandi, ábyrgðarleysi eða óregla sem plagaði Theódór og fékk til að ganga fram og til baka, frá stofunni og inn í eldhús. Öðru nær. Hvar sem litið var sýndu opinberir pappírar dyggðum prýddan, áhyggjulausan mann um flesta hluti. Einhver speki hafði gert sig heimakomin og læðst að honum, trúlega orðið til í hans eigin hugskoti og ýtt síðan óþyrmilega við honum.
,,Hver sem gengur að allsnægtarborði kærleikans mun ekkert skorta!” sagði hann við sjálfan sig. Hvaðan kom þetta. Hvaða hugmynd var þetta? Hafði hann ekki reynt að gefa af sér, öllum stundum? En hvernig var hægt að gefa það sem enginn vildi? Það var stóra málið.
Stundum gleymi Theódór að hafa af því áhyggjur hversu mikið hann var farinn að tala við sjálfan sig. Æ oftar kom það fyrir að rökræður af þessum toga gerðu hann að lokum svo sárreiðan sjálfum sér að hann vildi helst leggjast fyrir og gráta úr sér leiðindin. Auðveldast var að setja sig í dómarasæti, stilla upp hlutum til sektar eða sýknu, umfram allt að halda áfram að vera svekktur út í allt og alla, samtímann, út í þig og mig. En svo voru líka til mál sem hæfðu ekki þessum málatilbúnaði, voru af öðrum toga, á einhvern hátt allt öðruvísi. Jólin nálguðust og þögnin var hægt og rólega að ganga af honum dauðum.
Það hafði alltaf verið þannig að jólin höfðu mikla þýðingu fyrir Theódór, fjölskylduna, foreldra hans. Öllum var boðið. Þannig hafði hann þekkt þetta frá blautu barnsbeini. Þegar árin liðu og hann flutti í litlu íbúðina sína í nýja hverfinu þar sem víkingurinn hafði týnt sverðinu um árið, hafði þetta í engu breyst.
Og hvað honum þótti gaman að koma dagana fyrir jól og upplifa erilinn, hitta systkinin og öll börnin, fylgjast með þegar byrjað var að skreyta og setja upp litlu músastigana í öllum regnbogans litum. Allt samkvæmt venju og virðingu fyrir jólunum. Það sem hann þó saknaði mest var þegar móðir hans kom til hans, eins og öll önnur jól, strauk blítt um vanga og spurði af sinni alþekktu alúð og nærgætni:
,,Er ekki allt gott af þér að frétta Dóri minn?”
,,Jú, allt ljómandi.”
,,Ég vildi bara láta þig vita hvað þú ert mér einstakur og hvað mér þykir vænt um þig.”
En allt er í heiminum hverfult og öllu afmarkaður tími. Árin liðu og fyrst dó faðir hans og nokkrum mánuðum síðar móðir hans. Missirinn og söknuðurinn varð mikill. Þessi traustu samskipti meðal fjölskyldumeðlimanna gliðnuðu og brotnuðu síðan í litlar eindir.
Enginn tók að sér að fylla skarðið.
Á meðan allt lék í lyndi hafði Theódór aldrei þurft að hafa teljandi áhyggjur af líðandi stund. Lífið var aðeins leikur og gaman.
Og ef eitthvað bjátaði á, struku fallegu orð móður hans í burtu hvert það óveðurský sem birtist á hans himni. En nú stóð hann í íbúð sinni einn, svo átakanlega einn og nöturleikinn birtist í hverju horni. Jólin þegar búin að missa ljóma sinn og í stað þess að gleðjast með öðrum á fögrum stundum, dró hann þögull og fjarrænn tjöldin fyrir gluggann.
Svo var það draumurinn.
Það var að kveldi fimmtudags fyrir viku. Í norðan garra og veðraham sem gekk á með 7 stiga gaddi, hafði hann beðið Guð þess heitt að koma inn í aðstæðurnar. Þessi pattstaða á sálinni væri að verða honum um megn.
Þegar ,,verðlausi maðurinn,” að eigin mati, en samt 200 milljón króna virði fyrir samfélagið, náði loks svefni, dreymdi hann gömlu jólin og móður sína þar sem hún kom til hans, strauk vanga og hvatti til dáða.
Næst stóð hann við dyr á löngum gangi og opnaði ofur hægt. Birtan var slík sem skall á honum að hann þurfti að stoppa og jafna sig til að láta augun venjast því sem inni var.
Við borð stóð vera ein og var að vinna verk af mikilli natni. Hún var klædd hvítum kirtli og ljósa hárið myndaði fallegan boga niður á axlirnar. Hann færði sig nær. Þegar veran varð hans var leit hún upp. Djúp, alvarleg augun
horfðu á hann og ávarpaði með yndislegu brosi: ,,Komdu sæll Theódór minn.” Til þess að fela hversu mikil áhrif fegurð hennar hafði á hann, og hversu hissa hann var á því að hún þekkti til hans kom ósjálfrátt fram á varirnar: ,,Ef allar konur verða að englum í eilífðinni, hvað verður þá um alla karlana. Ég meina…” Áður en nokkurt svar barst, hvarf sýnin og önnur tók við.
Á leikskólum landsins kepptust börnin við að teikna mann í jólasveinabúningi og stafurinn ,,D” í Dóri snéri ýmist fram eða aftur.
Þar sá hann sjálfan sig segja einfaldaðar sögur úr Biblíunni umvafðar ævintýrablæ og standa frammi fyrir erfiðum spurningum eins og:
,,Hvernig urðu vitringarnir vinir? Þegar jólasveinarnir komu til Betlehem, til Jesúbarnsins með fullt af gjöfum, á sleðanum sínum, hvað sagði Jesús við þá?
Það er eitthvað svo sérstakt við blessuð börnin, þessa gimsteina sem sáldrað er um heiminn, hreinlyndið, sakleysið og fá að vera hetjan, pabbi og mamma, er án efa eitt það göfugasta verkefni sem lífsbrautina skreytir.
Að lokum sat hann til borðs með jafnt háum sem lágum.
,,Hver er þetta?” ómaði um allt.
,,Þetta er Dóri jólasveinn,” svöruðu börnin í kór.
Aðrir kölluðu hann Tómstundamanninn en feitlagni maðurinn með gylltu hnappana var ekkert að skafa utan af því og sagði með djúpum valdsmannstón: ,,Þetta er hann Theódór, skal ég segja ykkur, andans stórmenni, gáfnabrekka og sagnaskáld!”
Svo lauk draumnum og hugmynd fæddist.
Hugmyndin var í sjálfu sér falleg, bar með sér góða meiningu og þannig séð fátt við hana að athuga en hann var samt á báðum áttum. Hvað ef hann yrði aðhlátursefni fyrir uppátækið? Stundin var að renna upp. Hann hafði þegar pantað tíma. Hvað átti hann að gera?
Tveimur tímum síðar þegar ferðalaginu var lokið, athugaði hann með pósthólfið sem var á jarðhæðinni. Þar beið hans bréf og utan á því var mynd af rós, í hægra neðra horninu, og í efra horninu hafði verið skrifað ,,Jól 2006” ofan á litla mynd með 4 glitrandi, grænum, kúlum sem dönsuðu á gulum bandspotta. Þegar Theódór opnaði bréfið sá hann að það var frá félagasamtökum sem börðust gegn einsemd í íslensku samfélagi.
Í bréfinu stóð:
Okkur langar að bjóða þér á jólaskemmtun sem haldin verður hér í húsakynnum okkar og biðja þig um að sitja til borðs með okkur um jólin.
Þar fyrir neðan hafði verið skrifað með bláum penna:
Dóri minn! Endilega komdu og segðu okkur eitthvað af skemmtilegu sögunum þínum. Við söknum þín elsku vinur. Stjórnin.
Samkenndin og hlýjan í orðunum minnti einna helst á móður hans. Þetta boð ætlaði hann að þiggja. Á leiðinni upp stigann að íbúð sinni, fann hann örla fyrir gleði jólanna en var þó uppteknari af því að hafa lagt þessar þungu byrðar á almættið. Ef Himnafaðirinn leysti þessa þraut, þyrfti enginn að efast um eitt né neitt! Kaffisopi og smá hvíld. Mikið gat tekið á að stíga þessi fyrstu skref.
Það sem Theódór vissi ekki á þessari stundu að með kvöldinu myndi líf hans taka algjörum stakkaskiptum. Í fréttum ríkissjónvarpsins sagði þulurinn með hljómþýðu röddina frá boðbera kærleikans sem hefði komið og fært þjóðinni höfðinglega gjöf, fyrr um daginn. Á meðan myndavélarnar mynduðu styttuna, sem var lítil brjóstmynd af gefandanum sjálfum, talaði forseti Íslands um hversu mikilvægur kærleikurinn væri hverri sál og samverustundirnar ómetanlegar okkur öllum í lífinu. Við mættum aldrei gleyma því einmana og afskipta fólki sem ætti allar sínar erfiðustu stundir í kringum jólin. Þegar myndavélarnar tóku svo nærmynd af látúnsskildinum sem festur var við fótstall styttunnar mátti lesa út úr undurfögru skrautstöfunum:
Kærleiksgjöf í minningu foreldra minna. Allslausi Dóri.
Um það er ekki efast að fátt er eins skemmtilegt að upplifa og nálægðina og gleðina sem umlykja jólin. Og láta á slíkum hátíðisdegi hugann reika til þeirra mildu, útréttu, handa sem eru yfir og allt um kring, tilbúnar til að styðja og leiðbeina. Ekkert smá, flott. Gleðileg jól!!
Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ
Bergið var sveitin í miðju bæjarfélaginu, hús af öllum gerðum, gömul sem ný og eitthvað svo hlýlegt við það umhverfi. Við Hafnargötuna voru síðustu nátthrafnarnir að skreiðast heim. Helgin á enda. Eyðslan umfram mörk og vikan framundan uppfull af núðlugraut og tekexi.
Það var ekki fjárhagsvandi, ábyrgðarleysi eða óregla sem plagaði Theódór og fékk til að ganga fram og til baka, frá stofunni og inn í eldhús. Öðru nær. Hvar sem litið var sýndu opinberir pappírar dyggðum prýddan, áhyggjulausan mann um flesta hluti. Einhver speki hafði gert sig heimakomin og læðst að honum, trúlega orðið til í hans eigin hugskoti og ýtt síðan óþyrmilega við honum.
,,Hver sem gengur að allsnægtarborði kærleikans mun ekkert skorta!” sagði hann við sjálfan sig. Hvaðan kom þetta. Hvaða hugmynd var þetta? Hafði hann ekki reynt að gefa af sér, öllum stundum? En hvernig var hægt að gefa það sem enginn vildi? Það var stóra málið.
Stundum gleymi Theódór að hafa af því áhyggjur hversu mikið hann var farinn að tala við sjálfan sig. Æ oftar kom það fyrir að rökræður af þessum toga gerðu hann að lokum svo sárreiðan sjálfum sér að hann vildi helst leggjast fyrir og gráta úr sér leiðindin. Auðveldast var að setja sig í dómarasæti, stilla upp hlutum til sektar eða sýknu, umfram allt að halda áfram að vera svekktur út í allt og alla, samtímann, út í þig og mig. En svo voru líka til mál sem hæfðu ekki þessum málatilbúnaði, voru af öðrum toga, á einhvern hátt allt öðruvísi. Jólin nálguðust og þögnin var hægt og rólega að ganga af honum dauðum.
Það hafði alltaf verið þannig að jólin höfðu mikla þýðingu fyrir Theódór, fjölskylduna, foreldra hans. Öllum var boðið. Þannig hafði hann þekkt þetta frá blautu barnsbeini. Þegar árin liðu og hann flutti í litlu íbúðina sína í nýja hverfinu þar sem víkingurinn hafði týnt sverðinu um árið, hafði þetta í engu breyst.
Og hvað honum þótti gaman að koma dagana fyrir jól og upplifa erilinn, hitta systkinin og öll börnin, fylgjast með þegar byrjað var að skreyta og setja upp litlu músastigana í öllum regnbogans litum. Allt samkvæmt venju og virðingu fyrir jólunum. Það sem hann þó saknaði mest var þegar móðir hans kom til hans, eins og öll önnur jól, strauk blítt um vanga og spurði af sinni alþekktu alúð og nærgætni:
,,Er ekki allt gott af þér að frétta Dóri minn?”
,,Jú, allt ljómandi.”
,,Ég vildi bara láta þig vita hvað þú ert mér einstakur og hvað mér þykir vænt um þig.”
En allt er í heiminum hverfult og öllu afmarkaður tími. Árin liðu og fyrst dó faðir hans og nokkrum mánuðum síðar móðir hans. Missirinn og söknuðurinn varð mikill. Þessi traustu samskipti meðal fjölskyldumeðlimanna gliðnuðu og brotnuðu síðan í litlar eindir.
Enginn tók að sér að fylla skarðið.
Á meðan allt lék í lyndi hafði Theódór aldrei þurft að hafa teljandi áhyggjur af líðandi stund. Lífið var aðeins leikur og gaman.
Og ef eitthvað bjátaði á, struku fallegu orð móður hans í burtu hvert það óveðurský sem birtist á hans himni. En nú stóð hann í íbúð sinni einn, svo átakanlega einn og nöturleikinn birtist í hverju horni. Jólin þegar búin að missa ljóma sinn og í stað þess að gleðjast með öðrum á fögrum stundum, dró hann þögull og fjarrænn tjöldin fyrir gluggann.
Svo var það draumurinn.
Það var að kveldi fimmtudags fyrir viku. Í norðan garra og veðraham sem gekk á með 7 stiga gaddi, hafði hann beðið Guð þess heitt að koma inn í aðstæðurnar. Þessi pattstaða á sálinni væri að verða honum um megn.
Þegar ,,verðlausi maðurinn,” að eigin mati, en samt 200 milljón króna virði fyrir samfélagið, náði loks svefni, dreymdi hann gömlu jólin og móður sína þar sem hún kom til hans, strauk vanga og hvatti til dáða.
Næst stóð hann við dyr á löngum gangi og opnaði ofur hægt. Birtan var slík sem skall á honum að hann þurfti að stoppa og jafna sig til að láta augun venjast því sem inni var.
Við borð stóð vera ein og var að vinna verk af mikilli natni. Hún var klædd hvítum kirtli og ljósa hárið myndaði fallegan boga niður á axlirnar. Hann færði sig nær. Þegar veran varð hans var leit hún upp. Djúp, alvarleg augun
horfðu á hann og ávarpaði með yndislegu brosi: ,,Komdu sæll Theódór minn.” Til þess að fela hversu mikil áhrif fegurð hennar hafði á hann, og hversu hissa hann var á því að hún þekkti til hans kom ósjálfrátt fram á varirnar: ,,Ef allar konur verða að englum í eilífðinni, hvað verður þá um alla karlana. Ég meina…” Áður en nokkurt svar barst, hvarf sýnin og önnur tók við.
Á leikskólum landsins kepptust börnin við að teikna mann í jólasveinabúningi og stafurinn ,,D” í Dóri snéri ýmist fram eða aftur.
Þar sá hann sjálfan sig segja einfaldaðar sögur úr Biblíunni umvafðar ævintýrablæ og standa frammi fyrir erfiðum spurningum eins og:
,,Hvernig urðu vitringarnir vinir? Þegar jólasveinarnir komu til Betlehem, til Jesúbarnsins með fullt af gjöfum, á sleðanum sínum, hvað sagði Jesús við þá?
Það er eitthvað svo sérstakt við blessuð börnin, þessa gimsteina sem sáldrað er um heiminn, hreinlyndið, sakleysið og fá að vera hetjan, pabbi og mamma, er án efa eitt það göfugasta verkefni sem lífsbrautina skreytir.
Að lokum sat hann til borðs með jafnt háum sem lágum.
,,Hver er þetta?” ómaði um allt.
,,Þetta er Dóri jólasveinn,” svöruðu börnin í kór.
Aðrir kölluðu hann Tómstundamanninn en feitlagni maðurinn með gylltu hnappana var ekkert að skafa utan af því og sagði með djúpum valdsmannstón: ,,Þetta er hann Theódór, skal ég segja ykkur, andans stórmenni, gáfnabrekka og sagnaskáld!”
Svo lauk draumnum og hugmynd fæddist.
Hugmyndin var í sjálfu sér falleg, bar með sér góða meiningu og þannig séð fátt við hana að athuga en hann var samt á báðum áttum. Hvað ef hann yrði aðhlátursefni fyrir uppátækið? Stundin var að renna upp. Hann hafði þegar pantað tíma. Hvað átti hann að gera?
Tveimur tímum síðar þegar ferðalaginu var lokið, athugaði hann með pósthólfið sem var á jarðhæðinni. Þar beið hans bréf og utan á því var mynd af rós, í hægra neðra horninu, og í efra horninu hafði verið skrifað ,,Jól 2006” ofan á litla mynd með 4 glitrandi, grænum, kúlum sem dönsuðu á gulum bandspotta. Þegar Theódór opnaði bréfið sá hann að það var frá félagasamtökum sem börðust gegn einsemd í íslensku samfélagi.
Í bréfinu stóð:
Okkur langar að bjóða þér á jólaskemmtun sem haldin verður hér í húsakynnum okkar og biðja þig um að sitja til borðs með okkur um jólin.
Þar fyrir neðan hafði verið skrifað með bláum penna:
Dóri minn! Endilega komdu og segðu okkur eitthvað af skemmtilegu sögunum þínum. Við söknum þín elsku vinur. Stjórnin.
Samkenndin og hlýjan í orðunum minnti einna helst á móður hans. Þetta boð ætlaði hann að þiggja. Á leiðinni upp stigann að íbúð sinni, fann hann örla fyrir gleði jólanna en var þó uppteknari af því að hafa lagt þessar þungu byrðar á almættið. Ef Himnafaðirinn leysti þessa þraut, þyrfti enginn að efast um eitt né neitt! Kaffisopi og smá hvíld. Mikið gat tekið á að stíga þessi fyrstu skref.
Það sem Theódór vissi ekki á þessari stundu að með kvöldinu myndi líf hans taka algjörum stakkaskiptum. Í fréttum ríkissjónvarpsins sagði þulurinn með hljómþýðu röddina frá boðbera kærleikans sem hefði komið og fært þjóðinni höfðinglega gjöf, fyrr um daginn. Á meðan myndavélarnar mynduðu styttuna, sem var lítil brjóstmynd af gefandanum sjálfum, talaði forseti Íslands um hversu mikilvægur kærleikurinn væri hverri sál og samverustundirnar ómetanlegar okkur öllum í lífinu. Við mættum aldrei gleyma því einmana og afskipta fólki sem ætti allar sínar erfiðustu stundir í kringum jólin. Þegar myndavélarnar tóku svo nærmynd af látúnsskildinum sem festur var við fótstall styttunnar mátti lesa út úr undurfögru skrautstöfunum:
Kærleiksgjöf í minningu foreldra minna. Allslausi Dóri.
Um það er ekki efast að fátt er eins skemmtilegt að upplifa og nálægðina og gleðina sem umlykja jólin. Og láta á slíkum hátíðisdegi hugann reika til þeirra mildu, útréttu, handa sem eru yfir og allt um kring, tilbúnar til að styðja og leiðbeina. Ekkert smá, flott. Gleðileg jól!!
Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ