Jólapúslið hjá stórfölskyldunni
Samningaviðræður eru nú hafnar í mörgum fjölskyldum um hvar börnin eigi að vera um jól og áramót. Hverjir ætli að vera hvar á aðfangadag, með hverjum og hvernig umgengnin verði. Í flestum tilfellum tekst fráskildum foreldrum að sýna myndugleik og hafa hagsmuni barna að leiðarljósi, þar sem allt fer fram í sátt og samlyndi. Margir hafa hefðbundið fyrirkomulag ár eftir ár og börnin skiptast á að vera hjá pabba og mömmu. Í sumum fjölskyldum er hins vegar ósamkomulag og nánast stríð fyrir hver jól og börnin bitbein deilna. Í kjölfarið hækkar spennustuðullinn hjá foreldrum og jafnvel allri stórfjölskyldunni. Afar og ömmur blandast inn í málið og sumir missa svefn vegna óöryggis um jólasamveru fjölskyldunnar. Aðrir finna fyrir depurð yfir því að fá ekki að hitta barnabörnin og finna kannski um leið fyrir kvíða að taka í fyrsta sinn á móti stjúpbarnabörnum sínum við jólaborðið.
Góð samskipti milli fráskilinna foreldra skipta börn miklu máli og geta haft áhrif á líðan þeirra og velferð. Mikilvægt er að tryggja börnum samveru við báða foreldra og fjölskyldur þeirra og ræða við börnum um það sem í vændum er. Í rannsókn Sigrúnar Júlíusdóttir prófessors í félagsráðgjöf í HÍ á upplifun ungmenna af skilnaði foreldra kemur m.a. fram að áhrif skilnaðar á börn fari að miklu leiti eftir því hvernig hinir fullorðnu haga sér. Það er því mikilvægt að foreldrar hugi að líðan barna og hafi hagsmuni þeirra að leiðarljósi.
Fyrir jólin verður sumt eldra fólk órólegt því það kvíðir þeim samskiptum sem það á í vændum yfir hátíðarnar. Mér dettur í hug fréttapistill Sigríðar Hagalín fréttakonu á Ruv sem hún sendi fyrir nokkru frá Kaupmannahöfn fyrir jólin. Þar sagði frá því að nú hefði hin hefðbundna stórfjölskylda vikið fyrir nýrri gerð af stórfjölskyldu þar sem jólin gætu snúist upp í andhverfu sína og orðið að tilfinningalegum vígvelli þar sem rifist væri um fjölskyldumál yfir jólasteikinni og helgihald jóla af eldri gerðinni væri tálsýn ein. Í pistlinum sagði einnig frá því að stofnuð hefðu verið grasrótarsamtök í Danmörku sem heita Nýir afar og ömmur. Félagið leitast m.a. við að hafa áhrif á fjölskyldustefnu og samfélagsumræður, vill hafa áhrif á uppvaxtarskilyrði barna og taka afstöðu í dönsku samfélagi með greinaskrifum og átlitsgerðum. Einnig vill félagið styrkja samband milli barnabarna og ömmu og afa. Þá berjast samtökin fyrir umgegnisrétti fyrir afa og ömmur og barnabörn óháð innbyrðis sambandi foreldra. Á dagskrá hjá félaginu eru mörg áhugaverð mál tengd málefnum fjölskyldunnar. Sjá nánar: www.denyebedsteforaeldre.dk/
Hin nýja stórfjölskylda þarf að rúma síbreytilegan og oft ósamrýmdan hóp fólks af mismunandi fjölskyldugerðum sem í dag er ekki einungis skipuð afa og ömmu, börnum þeirra, tengdabörnum og barnabörnum. Nei hin nýja stórfjölskylda þarf líka að rúma fyrrverandi tengdabörn, nýja maka þeirra, sem eru orðnir stjúpforeldrar barnabarnanna og börn þeirra af fyrra hjónabandi og svo hafa börnin fundið sér nýjan maka og eignast með þeim börn auk barnanna sem báðir eiga úr fyrri hjónaböndum. Hlutverk afa og ömmu eða stjúpafa og stjúpömmu er því mörgum óljóst.
Félag stjúpfjölskyldna í samstarfi við Félagsráðgjafafélag Íslands mun 11.desember nk. standa fyrir samverustund fyrir afa og ömmur í stjúpfjölskyldum í Borgartúni 6 í Reykjavík 3. hæð
kl.17 – 18. www.stjuptengsl.is
Helga Margrét Guðmundsdóttir
Stjórnarmaður í Félagi stúpfjölskyldna