Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 27. desember 2002 kl. 15:04

Jólakveðja forstjóra

Þann 13. des. sl. sendi nýráðinn forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) frá sér tilkynningu um ástandið á HSS. Í henni er m.a. að finna eftirfarandi klásúlu ” Stjórnendur Heilbrigðisstofnunarinnar vilja þakka fórnfúst starf allra þeirra sem leggja sig fram um að greiða götu sjúklinga sem leita til HSS og mæta þannig tímabundinni röskun í þjónustu heilsugæslunnar. Sömuleiðis vilja stjórnendur HSS þakka þann skilning og biðlund sem sjúklingar hafa sýnt við erfiðar aðstæður.”
Þó það nú væri að þakka þeim sem hafa unnið sig upp að hnjám til þess að koma í veg fyrir neyðarástand í heilbrigðismálum hér á Suðurnesjum. Ég vænti þess að þeir verði jafnframt varir við það í launaumslaginu sínu. Ég vil gera athugasemdir við seinni hluta þessarar klásúlu, þar sem okkur Suðurnesjamönnum er þakkað fyrir skilning og biðlund. Mér þykir þetta æði hráslagaleg kveðja til okkar, þessu ástandi var einfaldlega troðið ofan í kokið á okkur, frú forstjóri, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Við erum hins vegar nokkuð siðmenntuð hér á Suðurnesjum og reynum að leysa málin á þeim nótum. En við vorum aldrei spurð. Okkur var einfaldlega stillt upp við vegg.
Hverjir eru svo að deila í þessu máli? Jú, læknar sem búa í Reykjavík, forstjóri sem býr í Reykjavík og ráðherra sem býr í Reykjavík. Við sem búum hérna komum hvergi nærri, nema sem þolendur. Væri þetta ástand látið viðgangast í Reykjavík? Ég bara spyr. Vissulega er það þægilegt fyrir stjórnendur HS að við skulum ekki vera með neitt uppsteyt. Einn öryrki hefur verið að liggja á göngum og hefur ekki skapað neitt sérstakt ónæði. En við sýnum ekki endalausa biðlund og við verðum ekki skilningsrík ef að eitthvað gerist hér sem rekja má til þessarar deilu aðila sem hafa engra sérstakra hagsmuna að gæta í okkar samfélagi.

Guðbrandur Einarsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024