Jens, gerðu ekki eins og mamma þín segir þér
Jens gerði ekki eins og mamma hans sagði honum. Hann burstaði ekki tennurnar og þess vegna fengu þeir félagarnir Karíus og Baktus næg tækifæri til þess að eyðileggja að vild. Þeir boruðu holur og lömdu í taugar þar þar til að varð óbærilegt fyrir aumingja Jens, sem að lokum var dreginn til tannlæknis og meinsemdarmönnunum var skolað út í sjó.
„Gerðu ekki eins og mamma þin segir þér,“ hrópuðu þeir fyrst sitt í hvoru lagi en síðan sameinaðir í von um að vitleysan næði eyrum Jens . Og nú kem ég loks að því sem ég vildi sagt hafa. Við íbúar í Reykjanesbæ höfum nú í nokkur ár hlustað á útskýringar og hróp meirihluta sjálfstæðismanna í bænum um að hér væri allt í himnalagi, þrátt fyrir að verið væri að höggva og bora í innviði samfélagsins sem nú er komið að hruni.
Þar hafa félagarnir Árni Sigfússon og Böðvar Jónsson gengið hart fram og oftast sitt í hvoru lagi. En telja nú um helgina tíma til kominn að að kalla saman í von um það sem vitlaust er verði sá sannleikur sem eftir situr. Þeir segja í yfirlýsingu að öllum nefndarmönnum hafi átt að vera ljós niðurskuðaráform meirihlutans frá fyrsta degi, sem skv yfirlýsingu þeirra félaga mun vera 9.sept síðastliðinn. Því miður verð ég að staðfesta fyrir mitt leyti sem nefndarmanni í Fjölskyldu -og félagsmálaráði að ekkert er fjær sannleikanum. Það er verið að ljúga.
Síðastliðið fimmtudgaskvöld fékk ég sendan tölvupóst frá félagsmálastjóra þar sem ég er boðaður til óformlegs fundar nú í kvöld. Umræðuefnið er niðurskurður og málefnið svo viðkvæmt að tillögur félagsmálastjórans eru ekki sendar með. En mér boðið að koma við seinni part föstudags til þess að berja þær augum. Því miður hafði ég lofað mér í annað og hef því enn ekki séð þær tillögur. Ég hef því vitað að niðurskurður stæði fyrir dyrum í þrjá daga, og engan möguleika haft á að hafa áhrif á hvernig þær eru mótaðar.
Öllum er okkur nú ljóst að innviðir bæjarins eru orðnir veikir og óljóst hvort auðnist að koma í veg fyrir hrun bæjarins. Við vitum nú að við áttum ekki að hlusta á orð meirihlutans sem sagði okkur að allt væri í lagi. Og við vitum líka að þeir sem bæði hafa verið uppvísir að ósannindum og borað allar holurnar sjálfir, eru ekki líklegir til að fylla í holurnar svo treystandi sé. Við eigum að leita okkur hjálpar sérfræðinga þó sárt sé . Við eigum að leita til Eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga um hjálp til úrlausnar okkar mála. Það er skynsamlegt að kalla á hjálp, sé manni ljóst að maður sé að drukkna. Það er mín persónulega skoðun.
Með bestu kveðju,
Hannes Friðriksson.