Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Japanskir garðar og grjóthleðslur
  • Japanskir garðar og grjóthleðslur
Fimmtudagur 8. maí 2014 kl. 14:25

Japanskir garðar og grjóthleðslur

– fundur í kvöld kl. 20:00

Þegar rætt er um garða og garðyrkju á Íslandi  leitar hugurinn oft til baka og upp koma myndir af birki og grenitrjám sem plantað var til skjóls fyrir þeim hörðu vindum er svo títt blása hér á norðuhjara veraldar. Eiginleg garðrækt á Íslandi á sér í raun mjög stutta sögu og enn þann dag í dag erum við stöðugt að læra eitthvað nýtt þar að lútandi. Ræktun rósa, ávaxta og ýmissa framandi plantna er orðið að áhugamáli fjölmargra garðeigenda, um leið og stöðugt meiri áhersla er lögð á þá umgjörð og skipulag sem í kringum ræktunina er. 
 
Garðrækt víða um heim hefur í gegnum áranna rás jafnframt tengst þeirri heimspeki sem að baki liggur á hverjum stað.  Í Persíu studdust menn við sagnir um hvernig umhorfs væri að líta í Paradís og formuðu garðana í þeim anda á meðan hugmyndir Decartes um strangt útreiknaðar staðsetningar og skipulag átti sinn hápunkt í útfærslu Versala og garðanna þar í kring.  En sennilega hefur engin heimspeki  náð jafn hátt og heimspeki Zen í hönnun hinna japönsku garða. Um leið og þar er lögð áhersla á ræktun plantna og notkun vatns og steina, er jafnframt  lögð áhersla á ræktun hugans í eilífri leit okkar mannanna að andlegri ró.
 
Japanskir  garðar  hafa löngum verið ímynd friðar og fegurðar.  Leit hugans að jiinu og janginu í okkur sjálfum þar sem við tökumst á við andstæða póla í okkur sjálfum.  Ró og friður í kringum hvaðeina er gert er, hlýtur að teljast  eftirsóknarvert markmið.  Í  lífinu er tekist  á við margar áskoranir á degi  hverjum, sem krefjast mismunandi úrlausna. Hraðinn er mikill og oft á tíðum gefst ekki tækifæri til að skapa þann innri frið sem hverjum manni er nauðsynlegur til að lifa innihaldsríku lífi og í fullri sátt við sjálfan sig. Fátt er betra en að eiga  góðan tíma með sjálfum sér í garðinum á sólríkum morgni eða seint að kveldi, þar sem maður íhugar tilgang tilverunnar. 
 
Sammerkt er með flestum þeirra hugmynda er hér hafa verið raktar,  að í meginatriðum hefur verið notast við staðbundin efni við formun garðanna, um leið og gerðar hafa verið tilraunir með ræktun ýmissa framandi platna.  Svipað er þessu farið hér á landi þar sem landslag og jafnvel menning  hvers svæðis  og hvers garðs hefur oft á tíðum verið hinn ráðandi þáttur í útliti þeirra.  Má þar nefna hraunhellur, fjörusteina og svo framvegis.
 
Nú í vor eins og undanfarin ár  hefur Garðyrkjufélag Suðunesja staðið fyrir fyrirlestraröð um ýmislegt það er tengist görðum og garðrækt. Fimmtudaginn þann 8. maí  nk. er komið að fyrirlestri  Þorkels Gunnarssonar skrúðgarðyrkjufræðings er fjalla mun um japanska garða og notkun á staðbundnum efnum við útfærslu garða.  Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta. Fundurinn er haldinn í Húsinu okkar  (gamla K- húsið) við Hringbraut fimmtudaginn 8. maí kl. 20.00. 
 
Aðgangseyrir er 500 kr. fyrir félagsmenn, 1000 kr. fyrir aðra. 
 
Léttar veitingar í boði.
 
Með sumarkveðju
Hannes Friðriksson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024