Jákvæðni og stuðningur
- Jóhann Snorri Sigurbergsson skrifar
Fyrir stuttu síðan tók til starfa á Ásbrú líftæknifyrirtækið Algalíf. Fyrirtækið framleiðir örþörunga og úr þeim er unnið andoxunarefni sem sett er í fæðubótarefni og vítamínblöndur. Þarna er erlent fyrirtæki að hefja sókn á markað erlendis með vöru sem skortur er á í heiminum og eftirspurnin er meiri en framboðið. Líftæknifyrirtæki eins og Algalíf gera miklar kröfur til hráefna, hreinleika og umhverfis því er það ánægjulegt að þeir hafi valið Ísland til að setja upp þessa framleiðslu. Það gera þeir m.a. vegna þess að hér er gott aðgengi að hreinu vatni og grænu rafmagni.
Yfirvöld á Íslandi tóku vel á móti þeim og skrifað var undir fjárfestingasamninga í takt við það sem sambærilegum fyrirtækjum býðst erlendis. En það er sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur íbúa Reykjanesbæjar að þeir hafi valið að byggja upp framleiðslu sína hér.
Ein helsta ástæðan sem framkvæmdarstjóri fyrirtækisins á Íslandi nefndi í viðtali við Víkurfréttir var jákvæðnin og stuðningurinn sem þeir fundu í garð verkefnisins á svæðinu. Það gerði útslagið og Reykjanesbær varð fyrsta val þeirra á Íslandi. Þar skiptir miklu að allir aðilar sem koma að málinu taka svona tækifærum opnum örmum og leita lausna í stað þess að einblína á vandamál. Þetta er kjarninn í hlutverki sveitarfélaga í atvinnuuppbyggingu. Að styðja við einkaframtakið og greiða götu þess eins og kostur.
Við þurfum að halda áfram að taka framtakssömum einstaklingum og fyrirtækjum opnum örmum og sá fræjum atvinnusköpunar til að laða að ný fyrirtæki, með að leysa þau verkefni sem koma upp og þora að takast á við þau. Þannig vinnum við gegn atvinnuleysi, aukum menntunarstig og hækkum launin. Til þess þarf frjóa hugsun, þekkingu og reynslu sem ég tel mig búa yfir.
Jóhann Snorri Sigurbergsson
Höfundur starfar sem forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku og býður sig fram í 5.-6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 1. mars næstkomandi.