Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Jafnrétti fyrir alla
Miðvikudagur 26. febrúar 2014 kl. 10:59

Jafnrétti fyrir alla

- Birgitta Jónsdóttir Klasen skrifar um jafnréttismál

 "Í okkar litla þjóðfélagi þurfum við að taka ofbeldismálin föstum tökum og herða viðurlög gegn slíkum brotum."

KONUR eru mikilvægar á vettvangi stjórnmálanna, eins og alls staðar annars staðar í þjóðlífinu. Í sívaxandi mæli eru konur sem betur fer farnar að láta til sín taka sem er afar jákvætt í þeim miklu áskorunum og hnattvæðingu sem framundan er. Breytt hlutverkaskipan og samskiptamynstur kynjanna kallar á meiri samvinnu bæði innan heimila og utan þeirra, úti á vinnumarkaðnum og á öllum stjórnstigum ef okkur á að auðnast að vinna vel og farsællega úr réttum tækifærum fyrir börnin okkar og komandi kynslóðir. Þó margt hafi áunnist í jafnréttismálum, eigum við enn langt í land. Við þurfum að gera okkur fulla grein fyrir því að jafnrétti á öllum sviðum er ekki síður hagur karla en kvenna. Kynin þurfa því að vinna saman og ná sem fyrst landi í jafnréttismálum til að gera heiminn lífvænlegri fyrir alla þjóðfélagshópa, konur, karla og börn. Við viljum ekki stéttskipt þjóðfélag. Við þurfum að snúa bökum saman og megum ekki sofna á verðinum einn einasta dag.
Þjóðfélagið okkar er ekki nógu fjölskylduvænt. Fullorðið fólk vill fá að njóta samvista við börnin sín eftir að venjulegum vinnudegi lýkur öðruvísi en að vera dauðuppgefið og útslitið og eiga svo auk allra annarra verka, sem bíða, eftir að hjálpa til við heimanám. Þarna þurfa skólarnir að koma inn með meiri þjónustu svo fjölskyldur geti notið samvista í frítímum sínum á uppbyggjandi og skemmtilegan hátt.

Í okkar litla þjóðfélagi þurfum við að taka ofbeldismálin föstum tökum og herða viðurlög gegn slíkum brotum. Mig langar ekki að hlusta á það í kvöldfréttatímum að barnakennari hafi barnaklám í tölvunni sinni og ég vil heldur ekki lesa um nauðganir í dagblöðunum.

Ég vil líka að komið sé fram við eldri borgara af meiri virðingu en nú er gert. Sú kynslóð hefur skilað sínu dagsverki og á rétt á þjónustu heilbrigðisgeirans þegar nauðsyn kallar. Þetta fólk, sem hefur rutt lífsgæðabrautina fyrir okkur hin, á ekki að þurfa að bíða á biðlistum svo mánuðum skiptir eftir þjónustu samfélagsins og það á ekki að koma til greina að hjón fái ekki að búa saman á elliheimilum.
Stjórnmálamenn geta alltaf gert betur. Þeir kandidatar þurfa fyrst og fremst að komast að sem ekki bara friða lýðinn með innantómu tali heldur þeir, sem láta verkin tala. Afar mikilvægt er að við Íslendingar sitjum ekki bara hjá og sættum okkur við þau efnahagslegu og félagslegu vandamál, sem hér eru uppi, heldur bætum stöðu okkar í þessum mikilvægu málaflokkum.

Birgitta Jónsdóttir Klasen
Stefnir í 7.sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ 1. mars nk.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024