Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Já ráðherra!
Mánudagur 9. janúar 2012 kl. 10:57

Já ráðherra!

Það er óhætt að segja að árið hafið byrjað með stórfrétt fyrir okkur Suðurnesjamenn. Oddný G. Harðardóttir var skipuð fjármálaráðherra í byrjun vikunnar, öllum á óvart og ekki síst henni. Pólitíkin er skrýtin og þessari ákvörðun fögnum við Suðurnesjamenn því það hefur lengi verið draumur okkar allra að fá ráðherra, hvað þá fjármálaráðherra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við skulum vona að Oddný verði já ráðherra. Suðurnesja-menn hafa aldrei átt neinn slíkan og hafa í gegnum tíðina ekki verið mjög ánægðir með þingmennina sína. Ekki fundist þeir nógu miklir hagsmunapólitíkusar eins og Árni Johnsen er fyrir Eyjamenn, Jón Bjarnason fyrir sitt fólk og fleiri dæmi mætti nefna um þingmenn og ráðherra sem hafa hugsað um sín kjördæmi og nærumhverfi. Þegar við spurðum Oddnýju í viðtali eftir tveggja daga starf í vikunni hvort hún myndi ekki hugsa um sitt fólk svaraði því hún auðvitað játandi. Hún verður því vonandi Já Suðurnesja-ráðherra. Það er virkileg þörf á slíkum ráðherra núna. Hér er mesta atvinnuleysi landsins, flest gjaldþrot, hér eru flestir öryrkjar, minnsta menntunin og versta veðrið auk fleiri þátta sem mætti nefna. Oddný ráðherra getur tekið til í flestum þessum þáttum. Atvinnuþátturinn er þó stærstur og kemur að hluta til undir fjármálaráðherra. Veðrinu getum við sleppt. Það vita allir að hér er vindasamt en að sama skapi er lítil loftmengun. Oddný þarf að fara í fremstu víglínu í að ýta álverinu af stað. Breytast í Gumma Steinars í sókninni og skora mörk. Nú þurfum við að hugsa um sóknina eftir langvarandi varnarleik. Kannski örlítið í stíl við gengi Keflavíkurliðsins á síðasta ári og við getum bætt gengi Grindvíkinga við. Bæði lið sem sagt í botnbaráttu á síðasta ári og ætla bæði að horfa fram á við, sækja titla með öllum tiltækum ráðum. Hvort sem fyrrverandi Júgóslavi eða örvinglaður Guðjón Þórðarson eru við stjórnvölinn. Nú segjum við sama við Oddnýju. Í sóknina með þig! Steingrímur og Jóhanna geta verið í marki og í vörn og varist en þú þarft að sækja og skora mörk. Mörg mörk. Hafðu þetta í huga kæra Oddný ráðherra.

Suðurnesjamenn óska þér til hamingju með að vera fyrsta konan í embætti fjármálaráðherra og einnig fyrsti þingmaður á Suðurnesjum sem verður ráðherra. Við vonum að við getum óskað þér til hamingju með frammistöðuna þegar starfi þínu í fjármálaráðuneytinu lýkur. Nú liggur mikið við og nú treystum við á þig.

Við á Víkurfréttum óskum Suðurnesjamönnum öllum gleðilegs nýs árs með þakkir fyrir góð samskipti á liðnu ári.


Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta.