Já endilega geymið greinina
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar biður lesendur um að geyma grein sem ég sendi VF sl. sunnudag og birtist á vefnum www.vf.is sl. mánudag. Hún mun væntanlega birtast í Víkurfréttum nk. fimmtudag og þá fyrst ættu lesendur að geta klippt hana út og varðveita, ekki fyrr.
Eignasafn Reykjanesbæjar samanstendur af fasteignum, þ.e.a.s. þeim sem eftir eru, hlutabréfum í fyrirtækjum, t.d. Hitaveitunni, og öðrum eignum. Raunverulegt virði hlutabréfa í Hitaveitunni er erfitt að segja til um hvert er, nema ef menn ætluðu að selja hlutinn. Þá fyrst kæmi í ljós hvert raunverulegt virði þeirrar eignar er. Það stendur hins vegar ekki til, svo ég viti. Það sem ég á við í minni grein er að ef meirihlutinn heldur áfram að selja fasteignir bæjarins, og nota stóran hluta andvirðisins í rekstur eins og gert var á síðasta ári, er líklegt að staðan verði slæm þegar kjörtímabilinu lýkur, nema ef menn blása upp aðrar eignir t.d. hlutabréf og ná þannig að sýna betri stöðu. Staðreyndin er nefnilega sú að bæjaryfirvöld hafa þegar selt fasteignir fyrir þrjá og hálfan milljarð og notað amk. 1/5 af því, 600-700 milljónir, til þess að fjármagna rekstrarhalla síðasta árs. Um það er ekki deilt. Ef þannig verður áfram haldið á spilum mun taka ca. 5 ár að ráðstafa andvirði þessara fasteigna sem þegar hafa verið seldar.
Það sjá allir að slík fjármálastjórn getur ekki gengið til lengdar og vonandi nær meirihlutinn tökum á fjármálum bæjarins því annars fer illa og þá gæti sú staða komið upp að afsökunarbeiðni, jafnvel frá bæjarstjóranum, dygði ekki til.
Kveðja,
Kjartan Már Kjartansson