Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Íþróttir sameina samfélög
Miðvikudagur 4. maí 2022 kl. 12:29

Íþróttir sameina samfélög

Birgir Már Bragason, skipar 3. sæti á lista Beinnar leiðar í komandi bæjarstjórnarkosningum.

Margt gott hefur verið gert á síðasta kjörtímabili er varðar íþrótta- og tómstundamál í Reykjanesbæ. Búið er að gera vel heppnaðar endurbætur á útisvæði sundlaugarinnar, nýr gervigrasvöllur orðinn að veruleika og íþróttahús í byggingu við Stapaskóla. Þá var Bardagahöll Reykjanesbæjar tekin í notkun, ný aðstaða fyrir Borðtennisfélag Reykjanesbæjar og Golfklúbb Suðurnesja og einnig búið að tryggja siglingafélaginu Knörr aðstöðu við smábátahöfnina. Síðast en ekki síst var komið á fót frístundarútu sem keyrir yngstu börnin á æfingar.

En betur má ef duga skal og nú er mikilvægt að vinna að langtímaáætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Reykjanesbæ í nánu samráði við íþróttafélög bæjarins. Hlúa þarf vel að þeim íþróttagreinum sem þegar eru til staðar og ljúka við þær framkvæmdir sem setið hafa á hakanum. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég sé fyrir mér að aukið samstarf milli íþróttafélaganna sem starfa hér í Reykjanesbæ geti bætt og aukið fjölbreytni þess gróskumikla starfs sem við erum svo heppin að búa við nú þegar. Við getum verið stolt af því íþróttastarfi sem er unnið af öflugu fólki sem íbúar njóta góðs af og bæjarfélagið er þekkt fyrir. 

Fjölnota íþróttahús hafa víða eflt og jafnvel gjörbylt starfi íþróttafélaga. Hugmyndir um tengingu íþróttasvæða Keflavíkur og Njarðvíkur með fjölnota íþróttahúsi sem gagnast myndi fimleikadeildinni sem beðið hefur lengi eftir betri aðstöðu hugnast okkur hjá Beinni leið vel. Byggja mætti sameiginleg aðstöðu sem hýsir boltaíþróttir, fimleikadeildina, skotíþróttir, bardagaíþróttir og stuðla að fjölgun íþróttagreina til að ná til fleiri iðkenda og gefa minni og óhefðbundnari greinum aukið vægi og svigrúm. 

Íþróttir eru nefnilega ekki aðeins heilsusamlegar heldur sameina þær fólk og ýta undir félagsleg tengsl allra aldurshópa. Með karla- og kvennalið bæjarins bæði í körfu- og fótbolta í toppbaráttu efstu deilda ár eftir ár hefur það sýnt sig og sannað. 

Markvissar aðgerðir þarf til að stuðla að aukinni vellíðan og bættri andlegri heilsu allra aldurshópa og eru íþróttir og tómstundir stór liður í því. Hvatagreiðslur hafa hækkað jafnt og þétt síðastliðin ár og mikilvægt að halda þeirri vegferð áfram. Einnig þarf að halda áfram hvatningu til eldri kynslóðarinnar um aukna virkni og hreyfingu og sér Bein leið fyrir sér að hvatagreiðslur eigi einnig að ná til þess aldurshóps. 

Til að styrkja okkar metnaðarfulla íþróttastarf enn frekar þarf að auka fjármagn til málaflokksins. Á meðan Reykjanesbær ver 1,2 m.kr. til íþrótta- og tómstundamála ver Akureyri sem dæmi 2,3 m.kr. til sama málaflokks. Þá er nauðsynlegt að styrkja innviði íþróttahreyfingarinnar með auknum stöðugildum til að tækifæri séu til vaxtar líkt og á Akureyri þar sem 74 starfsmenn vinna að málefninu á meðan 47 sinna því hér.  

Við hjá Beinni leið viljum sameinast um að styðja enn frekar við íþróttafélögin í bænum og á sama tíma efla heilsu og vellíðan íbúa. Áfram Reykjanesbær!