Íþróttabærinn r-okkar
– Rúnar V. Arnarson skrifar
Það þarf ekki að fjölyrða um hve mikilvægt það er að hlúa að því öfluga íþrótta-og tómstundastarfi sem fram fer í í Reykjanesbæ. Á því kjörtímabili sem nú er að ljúka hafa margir áfangar náðst í uppbyggingu aðstöðu til íþrótta-og tómstundaiðkunar. Má þar nefna nýja og glæsilega félagsaðstöðu fyrir Keflavík- Íþrótta og ungmennafélag við Sunnubraut, nýtt parketgólf á B-sal íþróttahússins við Sunnubraut, æfingaraðstaða fyrir júdó og taekwondo á Iðavöllum, æfingasvæði Keflavíkur fyrir aftan Reykjaneshöllina sem er á lokastigi. Þá hafa þjálfarastyrkir til félaganna verið hækkaðir úr 12 milljónum í 20 milljónir og í ár var auk þess úthlutað 15 milljónum til innra starfs íþróttafélaganna.
Verkefnin sem við Sjálfstæðismenn viljum vinna á komandi kjörtímabili eru nokkur og má þar nefna varanlegt húsnæði fyrir bardagaíþróttir (júdó,taekwondo og hnefaleika o. fl), ljúka frágangi á æfingarsvæði Keflavíkur fyrir aftan Reykjaneshöllina með byggingu á búningsklefum og salernisaðstöðu, setja nýja körfuknattleiksvelli við Heiðaskóla og Myllubakkaskóla, kanna leiðir á betri aðstöðu fyrir ört stækkandi fimleikadeild og kanna möguleika á stækkun íþróttahússins í Njarðvík. Margt fleira er á döfinni og eflaust telja einhverjir aldrei nóg gert. Mikilvægt er að eiga gott samstarf við þau félög og deildir sem nú þegar hafa markað sér framtíðarsýn t.d. varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja.
Reykjanesbær hefur á síðustu árum gert rekstrar-og þjónustusamninga við íþrótta-, menningar- og tómstundarfélög í bænum og tryggt þannig starfsemi og fjölbreytni þeirrar starfsemi sem í boði er fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Þar sem því verður við komið viljum við halda áfram gerð slíkra samninga m.a. um rekstur íþróttasvæða við ákveðnar deildir og félagasamtök undir eftirliti bæjarfélagsins og fagaðila. Hvatagreiðslur hafa verið teknar upp að nýju og eru þær nú kr. 10.000.- á hvert barn. Stefnt er að því að hækka þær á næstu árum og stuðla þannig að því að lækka kostnað foreldra við íþrótta-og tómstundir barna.
Stefnan er að fjölga tækifærum fyrir börn og unglinga í íþrótta-og tómstundastarfi bæjarins og auka þar með vellíðan barna og unglinga. Einn liður í því var opnun og vígsla á ungmennagarði við 88-húsið en þar fá börn og unglingar aukin tækifæri til að sinna áhugamálum sínum. Efla þarf starfsemi 88-hússins enn frekar t.d. með aðkomu nemenda úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Gleymum því ekki að heilbrigt íþrótta- og tómstundastarf er besta forvörnin gegn áfengi og vímuefnum.
Rúnar V. Arnarson
Varaformaður íþrótta-og tómstundaráðs og frambjóðandi D-lista Sjálfstæðisflokksins