Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Íslensk þjóð á tímamótum
Laugardagur 18. apríl 2009 kl. 17:30

Íslensk þjóð á tímamótum

Þessi vetur hefur verið sögulegur fyrir margra hluta sakir.
Svo virðist sem stjórnmálamenn hafi stundað sukk og saurlífi meðan Róm brann og að sönnu hefur sá bruni staðið óslitið lengi.
Ótrúlegum fjármunum hefur verið sóað, ekki bara í útrásinni sjálfri heldur er að koma betur og betur á daginn hvað menn lögðust lágt til að kaupa sér stundarvinsældir. Í þessum ljóta leik voru allir hagsmunir þessarar þjóðar lagðir undir.
Fjármunir voru rifnir út hvar sem til þeirra náðist. Sjávarútveginum hefur blætt illa og vaxtagreiðslur af skuldum eru að sliga bæði heimili og atvinnulíf.
Nú er svo illa komið fyrir okkar undirstöðuatvinnuvegum að þrot blasir við.
Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs  og fleiri þar á meðal erlendir sérfræðingar, bentu á síðasta kjörtímabili og reyndar allt þetta kjörtímabil alveg þangað til hrunið varð, ítrekað á hvert stefndi í efnahagslífi þjóðarinnar en stjórnvöld skelltu skollaeyrum við öllum varnaðarorðum sama hvaðan þau komu.

Sjávarútvegur.
Sjávarútvegurinn er svo illa skuldsettur að hriktir í.
Hvað á til bragðs að taka?
Við viljum reyna af fremsta megni að halda kvótanum áfram þar sem hann er til að tryggja sem best atvinnuöryggi í þeim byggðum.
Þess vegna viljum við afnema framsalsheimild á kvóta í núverandi mynd. Þann kaleik viljum við taka af útgerðinni.
Við viljum halda orðspori íslensks sjávarútvegs eins óflekkuðum og nokkur kostur er.
Það er ekki frækilegt til afspurnar að fyrirtæki í þessari grein leggist afvelta eins og gamalær í haganum vegna þess hvernig til skulda þeirra var stofnað. Það er nokkuð ljóst að menn í þessari atvinnugrein hafa farið langt út fyrir öll velsæmismörk í skuldsetningu. Tölur tala sínu máli.

Landbúnaður.
Rekstrarkostnaður í hefðbundnum landbúnaðargreinum er orðinn ókleifur. Áburður og kjarnfóður er verðlagt skýjum ofar.
Við hljótum að staldra við og leita lausna.
Innlend framleiðsla á þessum vörum eins og við í VG. höfum ályktað er hluti af lausn. Þar mundi sparast mikill gjaldeyrir.
Verkefnið “beint frá býli” er eitt af möguleikum bænda til að rétta sinn hag. Það er að mínum dómi einn mest spennandi kostur í atvinnusköpun í landbúnaði í dag.  

Kvótasala.
Sala á heimildum til framleiðslu eða veiða hlýtur að vekja mann til umhugsunar.
Er þetta eitthvað sem við viljum búa við til framtíðar?
Að sama skapi hlýtur að vera umhugsunaratriði hvort við viljum búa við þess háttar skipulag að nýliðun í heilum atvinnugreinum reynist ófær vegna tilkostnaðar.
Okkur hlýtur að bera skylda til að búa svo um hnúta að ungt fólk með áhuga á að taka þátt í grunnatvinnu þessarar þjóðar, bjóðist að koma að þeim án þess að þurfa að skuldsetja bæði sig og atvinnugreinina út yfir gröf og dauða.

Ferðaþjónusta.
Ferðaþjónustan úti um landsbyggðina er að langmestu leyti byggð upp í kringum okkar hefðbundnu atvinnugreinar þ.e. sjávarútveg og landbúnað. Þar eigum við mörg öflug sóknarfæri  sem við ætlum að byggja á ef okkur veitist styrkur til eftir kosningar.
Í Suðurkjördæmi hljótum við að horfa til svæðisins innan Vatnajökulsþjóðgarðs.
Þar er af mörgu að taka enda svæðið stórt og möguleikarnir óteljandi. Það jákvæðasta við uppbygginguna þar er hvað hvert starf mun reynast ódýrt. Meðan við kostum 150 milljónum til fyrir hvert starf í álveri, munum við geta byggt upp fjölmörg störf innan þjóðgarðs fyrir hvert eitt í álveri.

Hvað er mikilvægast?
Við þurfum að standa vörð um landsbyggðina.
Þetta er gamall frasi frá Framsóknarflokknum en við Vinstri græn tókum við keflinu þegar hann hvarf frá og hóf að stunda annarskonar vinnubrögð. Munurinn verður helst sá að við munum standa við stóru orðin.
Við munum halda áfram að byggja upp þar sem sitjandi ríkisstjórn hefur hafist handa. Við þurfum að tryggja að landbúnaðurinn fái þrifist svo byggð haldist í sveitunum og ferðaþjónustan nái að dafna enn frekar.
Við verðum að tryggja viðgang sjávarbyggðanna og halda áfram að stunda sjálfbærar veiðar, bæði á fiski sem og öðru sjávarfangi.

Þórbergur Torfason skipar 6. sæti á lista VG. í Suðurkjördæmi.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024