Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Íslensk börn í skólum erlendis
Föstudagur 29. desember 2006 kl. 14:57

Íslensk börn í skólum erlendis

Foreldrar íslenskra barna á skólaskyldualdri sem stunda nám í skólum erlendis velta stundum fyrir sér hvar börn þeirra standi námslega  miðað við íslenska jafnaldra þeirra. Einnig hvort og hvar hægt sé að fá námsefni til að hafa með sér út og þá hvernig foreldrar geti aðstoðað börn sín við námið. Margir foreldrar hafa sérstakar áhyggjur af íslenskunni og hvernig börnin geti best haldið henni við og fylgt jafnöldrum sínum. Í þessu sambandi er hægt að fá upplýsingar og kennsluleiðbeiningar á ýmsum stöðum og til að auðvelda og koma í veg fyrir t.d. bókaflutninga milli landa er internetið frábært samskipta-  og hjálpartæki. Eins er mikilvægt fyrir foreldra að kynna sér hefðir og væntingar varðandi foreldrasamstarf á hverjum stað fyrir sig og taka virkan þátt í skólastarfinu því eins og rannsóknir sýna þá hefur þátttaka foreldra gríðarlega mikil áhrif á líðan nemenda og námsframmistöðu.  Þegar svo kemur að því að flytja heim til Íslands aftur eftir langa fjarveru er mikilvægt að foreldrar gefi sér svigrúm til að geta stutt mjög markvisst við nám barna sinna fyrst um sinn og aðstoðað þau við að aðlagast nýjum siðum og venjum í skólastarfinu. Hafi fólk hug á að flytjast heim og setja barn sitt í skóla að hausti hér á landi er vert að láta vita af því í tíma svo skólinn hér geti undirbúið komu þessara nemenda. Sveitarfélög utan Reykjavíkur geta sótt um jöfnunar-framlag vegna heimfluttra Íslendinga og bæði foreldrar og kennarar þurfa að sýna fyrirhyggju svo flutningurinn verði farsæll fyrir nemendur bæði námslega og félagslega.  Sumir foreldrar velta fyrir sér hvenær sé réttast að flytja aftur heim til Íslands með börn sem hafa stundað nám í erlendum skólum. Hvort betra sé að klára skólann úti eða koma heim, hvernig íslenska skólakerfið taki á móti slíkum nemendum og hvort þessir nemendur eigi rétt á stuðningskennslu t.d. í íslenskunni. Einnig velta foreldrar fyrir sér hvort  mikill munur sé á námsefni og námsmati milli landa? Aðrir spyrja hvort munur sé á viðurværi og aðbúnaði þessara nemenda milli skóla hér á landi, hvernig foreldrasamstarfi sé háttað og svo frv. Hafa t.d. einhverjir skólar sérhæft sig í að taka á móti börnum sem hafa verið í skólum erlendis? Með auknum flutningum fjölskyldna milli landa er mikilvægt að foreldrar kynni sér vel viðmið og reglur, uppeldisleg gildi, uppbyggingu skólakerfisins og námsmat. Einnig hvers ætlast er til af foreldrum og hver aðkoma þeirra að skólanum er bæði hér heima og í því landi sem þeir hyggjast flytja til eða eru að koma frá.  Heimili og skóli - sem eru einu landssamtök foreldra hér á landi, eiga samstarf við systursamtök sín á Norðurlöndunum og eru einnig þátttakendur í EPA - Europian Parent Association.  Heimili og skóli, landssamtök foreldra hafa á heimasíðu sinni www.heimiliogskoli.is ýmsar upplýsingar um námsvefi og gagnlegar vefslóðir. Þar er fyrst að nefna www.islenskuskolinn.is sem er eitt af  þeim verkefnum sem komið er í undanúrslit í samkeppni Evrópska skólanetsins  Nám á Neti 2006. Á heimasíðu landssamtakanna eru einnig upplýsingar um gildi samstarfs heimila og skóla. Námsgagnastofnun, gefur út margs konar námsgögn fyrir grunnskólann, kennslubækur, vinnubækur, kennsluleiðbeiningar, hljóðbækur, vefefni, fræðslumyndir og handbækur. Á annað hundrað höfundar texta og mynda vinna árlega að námsgagnagerð fyrir Námsgagnastofnun.  Á vef Námsgagnastofnunar www.nams.is er mikið af kennsluefni og gangvirkum vefjum. Bækur námsgagnastofnunar eru seldar í Skólavörubúðinni.  Hjá Menntagátt www.menntagatt.is hefur verið unnið að því að skrá efni og tengja það við áfanga, námsgreinar og markmið námskráa og á þeim vef eru einnig daglegar fréttir og upplýsingar um skólamál. Menntagátt veitir alhliða upplýsingar um skólastarf, erlent samstarf, um fagfélög kennara og fleira sem gæti reynst gagnlegt í þessu sambandi en vefurinn er  samstarfsverkefni menntamálaráðuneytis og fyrirtækisins HugarAx.  Þar er líka hægt að skoða aðalnámskrár skóla en skólanámskrár einstakra skóla eru yfirleitt aðgengilegar á heimasíðu viðkomandi skóla. Þar geta foreldrar fylgst með námsmarkmiðum hvers árgangs og hvað  jafnaldrar og vinir barnanna hér heima eru að vinna með. 

 

 Helga Margrét Guðmundsdóttir verkefnastjóri hjá Heimili og skóla, landssamtökum foreldra

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024