Íslendingar, fátæk þjóð í hafti?
Það var frekar dapurlegt að horfa á sjónvarpumræðurnar úr Suðurkjördæmi í gær eins og aðra borgarfundi kosningabaráttunnar. Engin skýr svör fást hjá Vinstri grænum hvaða peningamálastefnu eigi að fylgja. Stefna Sjálfstæðisflokksins er bull að mati ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Varaformaður VG vill lækka laun opinberra starfsmanna og Sjálfstæðisflokkurinn vill fjölga störfum án þess að innistæða sé fyrir þeim möguleika án efnahagskilyrða að örðu leiti. Engin skýr framtíðarsýn er á boðstólnum né hver sé leiðin út úr vandanum nema að hverfa aftur til fortíðar og treysta á landbúnað og sjávarútveg. Það dugar skammt eða ekki. Það er ekki nóg að halda þjóðinni á floti með nefið upp úr svaðinu, hjakka í sama farinu, hengja okkur í vinstri-grænt hálmstrá sem gæti hugsanlega haldið okkur á floti en virkjar okkur ekki til framtíðar. Við virðumst eiga að ganga inn í sama millibilsástand og við erum í núna eftir kosningar. Það eru engin skýr svör nema hjá Samfylkingunni um ESB.
Spurning Benedikts Jóhannessonar í samnefndri grein sem birtist í Morgunblaðinu 16. apríl s.l. ,,Stefna stjórnmálaflokkarnir að nýju hruni?“ verður ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Hann veltir því fyrir hvað gerist ef þjóðin sækir ekki um aðild að Evrópusambandinu. Hvorki Atli Gíslason eða Ragnheiður Elín virtust hafa pælt í því í gær. Það muni þýða að stórfyrirtæki flytja höfuðstöðvar sínar úr landi, útlendingar muni ekki þora að fjárfesta á Íslandi nema gegn okurvöxtum. Atvinnuleysi, vaxtaokur og gjaldþrot verða viðvarandi og Íslendingar verða áfram fátæk þjóð í hafti. Þetta var ekki rætt á borgarfundinum í gær. Miðað við þá eindregnu afstöðu Atla Gíslasonar gegn aðildarumsókn að ESB, veltir maður fyrir því hvort einangrunarsinnarnir í íslenskri póltík, VG og Sjálfstæðisflokkur ættu ekki bara að fara saman í ríkistjórn eftir kosningar, að haltur leiði blindan til að ganga endanlega frá íslensku þjóðinni.
Sveiflur á gengi krónunnar og hið mikla fall hennar hafa komið mjög illa við bæði almenning og fyrirtæki á Íslandi og nú eru hér gjaldeyris- og viðskiptahöft. Það er eins og stjórnmálamennirnir hafi ekki fattað þetta ennþá. Innganga í Evrópusambandið, þar sem stefnt yrði að þátttöku Íslands í evrópska myntsamstarfinu svo fljótt sem auðið er, myndi draga úr óvissu í efnahagsmálum. Það mál þolir ekki bið. Við verjum að krefjast þess að stjórnmálamenn, þ.m.t. VG, setji málið á dagskrá. Það getum við gert með því að undirrita áskorun til stjórnvalda á vefsvæðinu www.sammala.is Þar taka þeir saman þverpólitískum höndum sem eru sammála um að ríkisstjórnin, sem tekur við völdum eftir kosningarnar á laugardag, eigi að hafa það eitt af sínum forgangsverkefnum að skilgreina samningsmarkmið og sækja um aðild að Evrópusambandinu. Undir þetta tekur verkalýðshreyfingin og flest aðildarsamtök Samtaka atvinnulífsins. Það ættir þú, lesandi góður, líka að gera.
Skúli Thoroddsen
Reykjanesbæ