Íslandsmeistaramótið í jólum 2011
Nútíma neyslujólin eru keppni. Keppni sem snýst um að fá gjafirnar sem við óskuðum heitast og gefa þær gjafir sem hitta beint í mark.
Markmið jólanna að sýna vináttu og hlýhug hverfur í þessari keppni um athygli. Eftirvæntingin að fá „réttu“ gjöfina gagntekur flesta sem svamla í hafi neyslu og verslunar og gleðin skín úr augum fólksins sem sigri hrósandi hrópar „yes!! Ég fékk akkúrat það sem mig langaði í!!“. Og hún er síst minni eftirvæntingin hjá þeim sem eru að gefa „réttu“ gjöfina. Það getur jafnast á við spennu í úrslitaleikjum íþrótta að vita hvort gjöfin hitti í mark eða ekki. Þótt léttirinn að heyra þessi siguróp geti verið góður getur hann verið dýru verði keyptur því öfgarnar á milli réttu og röngu gjafarinnar eru sigurvíma eða vanþakklæti.
Ef takmarkið er aðeins að fóðra þessa sigurvímu þegar draumagjöfin kemur úr pakkanum eru nútíma neyslujólin frábær afþreying og tekur tiltölulega fljótt af. Að þeim loknum er síðan hægt að skríða í öryggi og tómleika hversdagsins á ný. En sé þessi sigurvíma skammvinn og tómleiki hversdagsins verður ekki uppfylltur með spennunni að rífa upp draumagjöfina bregða margir á það ráð að reyna að fylla annað fólk sigurvímu og samgleðjast með þeim þegar þau rífa upp sínar draumagjafirnar. Vegna þess að þessi upplifun dugar skammt er hætta á að það byggist upp tilætlunarsemi og krafan um stærra og öflugara “kikk” eykst.
Þegar við ánetjumst þessari sigurvímu neyslujólanna getur verið erfitt að sætta sig við nytsamar og hagnýtar gjafir. Okkur er sagt að fylgja boðskap jólanna og að gjafir til okkar séu vinátta og hlýhugur annarra og við eigum að fagna þeim meira en öðrum. En hagnýtar gjafir eru í huga þeirra sem keppa um draumagjöfina hallærislegustu gjafir sem hægt er að fá og þeim er jafnvel stungið undan og afneitað. Sem dæmi þá fékk ég 15 ára gamall vínrauða ruslafötu frá ömmu minni. Þótt notagildið sé ótvírætt var ekki hægt að segja nokkrum manni frá þessari gjöf og síst af öllu jafnöldrum mínum. Það er því ekkert undarlegt að ég hafi stundað þann leik að „lesa“ í stærð og útlit pakkanna, hrista þá og vikta og fela síðan þessa óþægilegu pakka. Trúið mér, mörgum finnst ekkert verra en að opna hagnýta og hallærislega jólagjöf fyrir framan alla fjölskylduna.
Neyslujólin eru í sinni einföldustu mynd bara þægileg leið til að kalla fram góðar tilfinningar með ytri aðferðum. Ef þú gefur rétta gjöf og færð rétta gjöf þá hefur tekist að uppfylla þá þörf. Og ef við erum feimin við að segja hvernig okkur líður þá eru neyslujólin aftur góð leið til að bjarga sér. Þú gefur gjafir sem þú veist að fólk langar í og jafnvel ef þú veist það ekki má nýta sér tískustraumana. Jólagjöfin í ár að mati Rannsóknarseturs Verslunarinnar, spjaldtölva, er talin örugg gjöf því hún er líklegri en aðrar til að slá í gegn. Hjá óöruggu fólki verða svona „öruggar“ gjafir fyrir valinu til að segja „mér þykir vænt um þig“. Að hlusta eftir því hvað fólk vill í jólagjöf og kaupa síðan draumagjöfina er leið til að valda ekki vonbrigðum og særa ekki aðra. Fólk nýtir sér þetta og fer jafnvel að panta gjafir. Spjaldtölva sem jólagjöf ársins er óbeint leiðin fyrir kaupmennina að panta hvað keypt verður í jólagjafir handa fólki. Og þegar jólin eru orðin keppni um athygli og að uppfylla óskir annarra um „réttu gjöfina“ hverfur upphafleg ástæða gjafarinnar: Með gjöf (hvaða gjöf sem er) er ég að SEGJA að mér þykir vænt um þig.
Ef þú átt pening er mjög auðvelt að taka þátt í keppninni. Aðrir kjósa að kosta jólin með kreditkortum og lánum. En flestir eru sammála um að það er ómögulegt að keppa til sigurs ef þú ert auralaus og útundan sökum atvinnuleysis, óvinnufærni eða sjúkdóma.
En eru þá neyslujólin ekki fyrir alla? Er eitthvað til fyrir þá sem hafa ekki efni á að keppa?
Eina leiðin sem ég þekki er með beinum og hreinum samskiptum. Ég hef verið spurður hvernig einhver sem er hræddur um að gefa “rangar“ gjafir fari að því að komast út úr þessu neyslu- og keppnishugarfari. Besta ráð sem ég á handa fólki í þessari stöðu er að spyrja beint út. Ef viðmælandinn getur ekki svarað (eða þorir því ekki) má biðja um óskalista. Við skrifum bara niður fimm til sex hluti sem vekja hjá okkur gleði og þakklæti og síðan verður spennan fólgin í hver gjöfin verður. Ef þú ert spennufíkill er nóg að segja til dæmis bók, og þá verður spennan óbærileg yfir því hvaða bók skildi vera í pakkanum.
Bein samskipti eru öruggasta leiðin til að valda ekki vonbrigðum. Að gefa í skyn eða segja eitt og meina annað veldur bara óþægindum. Strokum út feimni og segjum upphátt hvað við óskum eftir. Við hlustum á aðra og aðrir hlusta á okkur. Og forðumst frekju og tilætlunarsemi. Þeir sem eiga erfitt fjárhagslega segja það berum orðum og fólk virðir það og gerir ekki ráð fyrir dýrum gjöfum. Bein samskipti eru ein besta leiðin til að allt fái á sig jafnari og rólegri mynd. Gjöf er gjöf, matur er matur, skraut er skraut og föt eru föt. Og þá opnast fyrir svo margar leiðir fyrir samfélagið til að lifa og dafna á jólunum.
Það er óeðlilegt að fólk taki lán til að gleðja aðra eða hafi áhyggjur vegna þess að það er ekki hægt að kaupa „draumagjöfina“ og uppfylla sigurvímuna. Fólk er að leggja á sig ótrúlegar byrðar vegna þess að það óttast að vinir þeirra og ættingjar verði sárir um jólin.
Gefðu hvað sem er í gjöf, gefðu jafnvel knús en umfram allt SEGÐU upphátt að þér þyki vænt um viðkomandi.
Með jólakveðjum,
Haukur Hilmarsson
Ráðgjafi