Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ísland fyrir alla
Þriðjudagur 5. desember 2006 kl. 11:30

Ísland fyrir alla

Adam Smith skrifaði um frjálst flæði fjármagns og vinnuafls, að hið frjálsa flæði væri undirstaða frekari þróunar í viðskiptum. Síðast en ekki síst væri hið frjálsa flæði hliðhollt hugmyndum manna um jafnan rétt allra til lífsgæða líðandi stundar. Þegar upp rísa miklar hæðir í efnahagsmálum á einum stað getur hið frjálsa flæði styrkt bágt ástand annars staðar. Af hinu frjálsa flæði fjármagns og vinnuafls er því útkoman aukin jöfnuður & aukin lífsgæði fyrir fleiri frekar en færri. Hér á landi hefur risið upp stjórnmálaflokkur sem aðhyllist ekki hið frjálsa flæði. Starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði, sem eru af erlendu bergi brotnir, virðast skv. umræðu liðinna daga vera þessum stjórnmálaflokki þyrnir í augum og ógn við hinn íslenska vinnumarkað. Þessi flokkur er Frjálslyndi flokkurinn.

Viljum við íslensk eða erlend fyrirtæki ?

Íslenskur vinnumarkaður býr við betri kjör en þekkist víðast hvar annars staðar í hinum vestræna heimi. Íslensk stjórnvöld gera sér fulla grein fyrir mikilvægi þess í störfum sínum að umhverfi fyrirtækja Íslandi sé aðlaðandi í hinni miklu samkeppni sem ríkir á milli þjóðríkja í þessum efnum. Án efa mun skortur á sérhæfðu starfsfólki verða íslenskum fyrirtækjum áhyggjuefni og hugsanlega koma í veg fyrir að þau geti eflst og stækkað og þar með tryggt viðvarandi hagvöxt öllum Íslendingum til hagsbóta. Hún er að því að mínu mati steinrunninn og án skynsamlegrar framtíðarsýnar sú stefna sem Frjálslyndi flokkurinn hefur boðað í störfum sínum undanfarin misseri. Stefna flokksins hefur borið alvarlegan keim af kynþáttafordómum og er að mínu óvönduð í alla staði. Varaformaður flokksins hefur dregið vagninn fyrir hönd flokksins sem hugsanlega skýrir þá miklu stefnubreytingu sem forysta flokksins stendur nú fyrir.

Óánægjufylgi

Í stjórnmálasögunni hafa komið upp stjórnmálaöfl sem gera út á óánægjufylgi. Í dag er Frjálslyndi flokkurinn gott dæmi um slíkan flokk enda hefur málflutningur þeirra verið sem lífróður fyrir hverju atkvæði. Málflutningur frjálslyndra hefur verið illa ígrundaður eins og komið hefur fram með hártogi innanbúðarmanna á opinberum vettvangi. Ávallt og því miður er sá möguleiki fyrir hendi að flokkar einhenti sér að ná til þeirra sem eru síður þenkjandi og hugsanlega opnir og meyrir fyrir pólitík sem einkennist af sleggjudómum og upphrópunum. Óvandaðir fjölmiðlar geta einnig fallið í sömu gryfju en vitað er að líftími þeirra er jafnan stuttur.

Trúverðugur málflutningur ?

Á hátíðar- og tyllidögum hafa frjálslyndir talað fyrir landsbyggðinni. Staða landsbyggðarinnar væri alvarleg ef ekki hefði notið krafta erlendra starfsmanna. Um það síðastnefnda er varla ágreiningur um. Tvíræðni og óheilindi fylgja málflutningi manna sem þykjast tala fyrir landsbyggðinni á sama tíma og þeir tala fyrir heftu flæði erlendra borgara sem eru tilbúnir að leggja hönd á plóg við starfsemi fyrirtækjanna. Að sama skapi eru í því mikil óheilindi fundin þegar talað er fyrir jöfnuði og hinir sömu eru ekki reiðubúnir að taka á móti fátæku og atvinnulausu fólki á sama tíma og brennandi eftirspurn er eftir fólki til starfa. Jafnaðarhyggjan virðist vera sér íslenskt fyrirbrigði í augum Frjálslynda flokksins. Erlendir borgarar virðast ekki eiga gildi í hinnu nýju pólitísku jöfnu sem Frjálslyndir henda nú fram á sjónarsviðið. Ódýrari getur pólitíkin varla orðið.

Fordómaleysi og skynsemi

Sjálfur er ég fylgjandi því að skilyrða erlenda borgara sem koma til landsins að læra íslenskt mál, sögu þjóðarinnar og menningu. Að því er unnið meðal íslenskra stjórnvalda. Ég er því einnig fylgjandi að herða beri viðurlög á íslenska atvinnurekendur sem með einum eða öðrum hætti brjóta á lögbundnum rétti starfsmanna sinna, íslenskra sem og erlendra.
Umfram allt er þýðingarmikið að allir einstaklingar leggi sig fram við að losa á ólum fordóma sinna og láti þess í stað skynsemi og umburðarlyndi ráða ferðinni.
Stefna Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum er þvert á stefnu flokksins sem ég var kynntur fyrir í aðdraganda kosninga til Alþingis vorið 2003. Frjálslyndið og umburðarlyndið á ekki lengur við í störfum og stefnumiðum flokksins. Frelsi, jafnrétti og bræðralag geta varla talist vera einkunnarorð Frjálslynda flokksins.

Ég þakka þeim sem lásu.

Gunnar Örn Örlygsson
Alþingismaður 






 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024