Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 6. maí 2002 kl. 22:42

Innri Njarðvík – framtíðarperla Reykjanesbæjar

Staðarins er fyrst getið í rituðum heimildum 1269 og kallast þá Kirkju-Njarðvík. Í dag búa um 400 manns í Innri-Njarðvík. Hverfið er hluti af Reykjanesbæ og sæta framkvæmdir og viðhald sömu áætlunum og önnur hverfi bæjarins en samkvæmt framtíðarskipulagi og stefnu sjálfstæðismanna er hér um framtíðarhverfi bæjarins að ræða.Núverandi hverfi
Á fjölmennum hverfisfundi tjáðu íbúar sig um það sem betur mætti fara í þeirra umhverfi. Sjálfstæðismenn ætla m.a. að taka ákvörðun um framtíð gæsluvallar við Kirkjubraut, setja hraðahindrun á Njarðvíkurbraut, ljúka göngu- og hjólreiðastíg að Seyluhverfi og ganga frá gangstéttum og öðrum svæðum á vegum bæjarins. Þá voru fundarmenn sammála um að viðhalda góðu almenningskerfi og styrkja fremur en veikja. Í þessu hverfi eins og annars staðar þarf að virkja einstaklinga og fyrirtækjaeigendur á jákvæðan hátt til að hugsa vel um útlit eignar sinnar. Við Reykjanesbraut hafa risið mörg fyrirtæki og stofnanir sem eru til fyrirmyndar bæði hvað varðar útlit og starfsemi. Svæðið milli Reykjanesbrautar og fyrirtækjanna, sem er í umsjá vegagerðar, þarf að tyrfa og ganga frá. Á frystihúsatorfunni er Laugafiskur en starfsemin er umdeild vegna ólyktar sem lagt hefur um hverfið, flugnagers og útlitsmengunar sem íbúar hafa mótmælt m.a. til heilbrigðiseftilitsins sem gaf lokafrest til úrbóta til 1. september n.k. Hráefni er keyrt í gegnum íbúðarhverfið og því mætti líta á svæðið sem víkjandi iðnaðarsvæði Reykjanesbæjar. Sjálfstæðismenn munu fylgjast með þessu máli og ná þeirri niðurstöðu sem íbúar hverfisins geta sætt sig við fái þeir til þess umboð.

Leikskólinn Holt
Leikskólinn Holt tók til starfa 1985 og ber nafn af landi jarðarinnar Holts. Í dag eru 64 börn í leikskólanum í tveimur deildum. Fyrirhuguð er stækkun leikskólans árið 2003 auk lagfæringa á lóð og umhverfi. Eftir breytingu er Holt fjögurra deilda og með um 100 börnum. Viðbót leikskólans er áfangi í því lokatakmarki sjálfstæðismanna að útrýma biðlistum barna tveggja ára og eldri á þessu kjörtímabili.

Thorkelliskóli
Höfuðprýði Innri-Njarðvíkur er rösklega aldargömul steinkirkja. Utan við hana er stytta af Jóni skólameistara Thorchilliusi 1697-1759 sem reist var 29. maí 1965 eða um 206 árum eftir andlát fræðimannsins eins og oft er gert þegar merkir menn eru gengnir. Sjálfstæðismenn munu hefja undirbúning Thorkelliskóla á árinu 2003 og stefna að framkvæmdir hefjist á kjörtímabilinu. Mun byggingarhraði síðan ákvarðast af eftirspurn og uppbyggingu svæðisins og mun hann þjóna Innri-Njarðvíkurhverfi ásamt nýbyggingarsvæðum.

Framtíðarbyggingarland
Skipulögð hefur verið gata við Lágseylu fyrir 35 hús og hún gerð tilbúin til byggingar og verið er að útbúa rammadeiliskipulag fyrir heilstætt hverfi, tengt skóla og leikskólum. Í lengri framtíð er svæði að Stapa okkar tækifæri bæði þegar horft er til íbúabyggðar og atvinnusvæðis en það getur tekið við allt að 20.000 manna byggð og verða þjónustusvæði skipulögð í samræmi við það. Nýtt fráveitukerfi sem nýlega var tekið í notkun er hannað til að taka við þessum nýju hverfum. Sjálfstæðismenn sjá fyrir sér umhverfisvænan orkugarð í landi Reykjanesbæjar eða frá Svartsengi í átt að Innri-Njarðvík enda svæðið tilvalið til skipulags þessa spennandi framtíðarverkefnins. Með orkugarði verður stofnað til hundruða vel launaðra starfa sem krefjast fjölþættrar menntunar.

Fitjar
Eitt af stóru málunum eru Fitjar og umhverfi þeirra með tengingu við nýja komuleið í bæinn sem gera mun alla umferð og aðgengi til fyrirmyndar. Falleg aðkoma af bæjarfélagi skiptir miklu máli og hafa Fitjar allt til að bera til að svo verði með fallegar tjarnir og fuglalífi. Lónið sunnan brautarinnar hefur mikla möguleika sem ylströnd og aðstaða fyrir sjósport með Stekkjarkot og jafnvel víkingaþorps í næsta nágrenni. Uppbygging svæðisins við Fitjar hefst í sumar.

Vissulega er Innri-Njarðvík framtíðarperla Reykjanesbæjar sama í hvaða samhengi horft er til. Margt verður framkvæmt í ár, annað á kjörtímabilinu og enn annað í bjartri framtíð Reykjanesbæjar. Í hverfinu býr kraftur íbúanna sem svo oft hefur komið í ljós.

Við setjum orð í efndir.
Steinþór Jónsson skipar 4. sæti á D-lista sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024