Im memoriam
Það er mikill sjónarsviptir að Sparisjóði Keflavíkur. Hann var flaggskipið okkar, ein styrkasta stoðin undir samfélagi Suðurnesjamanna. Hann var heimaprýði, stolt íbúa svæðisins, kjölfestan í tilverunni. Hugmyndafræðin að baki sparisjóðanna hverfðist um almannahag. Almannahagsmunir skyldu ætíð hafðir í fyrirrúmi. Sparisjóðurinn var stofnaður fyrir fólkið á Suðurnesjum, til að skjóta stoðum undir og styrkja þróun atvinnulífs, styðja við bakið á menningunni, gæta fjár og ávaxta sparifé almennings, leggja sitt af mörkum til blómlegs og mannbætandi lífs. Því miður hefur verið farið gersamlega á svig við anda hugmyndafræðinnar og henni gefið langt nef. Sparisjóðurinn hefur smá saman sogast inn í hringiðu þeirrar taumlausu brjálsemi, græðgi og siðblindu sem þjóðin öll er að súpa seiðið af í dag.
Um leið og ég minnist Sparisjóðsins með trega og söknuði minnist ég líka föður míns, Tómasar Tómassonar með enn meiri trega og söknuði. Þegar góður maður kveður skilur hann eftir sig stórt tómarúm. Faðir minn, sem lét af störfum sem sparisjóðsstjóri árið 1994, stýrði Sparisjóðnum í rúma tvo áratugi ásamt Páli Jónssyni. Eftir að faðir minn lét af störfum fyrir aldurs sakir, fylgdist hann ávallt grannt með gangi mála og var hreint ekki sáttur við þróunina. Hans bjargfasta skoðun var að stjórnendur Sparisjóðsins væru á rangri braut. Hann lá ekki á skoðunum sínum og ræddi oft um, við hvern sem heyra vildi, að svo virtist sem stjórnendur væru búnir að gleyma upprunalegu hlutverki Sparisjóðsins, þeir þyrftu að rifja upp hugmyndafræðina sem hann grundaðist á. Allt til dauðadags, í mars hrunárið mikla 2008, stóð hann upp á aðalfundum Sparisjóðsins og lét einarðlega í ljós skoðanir sínar og varnaðarorð. Eðli málsins samkvæmt hlutu orð hans misgóðar undirtektir. Alltof margir skelltu við skollaeyrum og afgreiddu föður minn sem gamaldags nöldursegg, algeran gleðispilli í villtum dansinum kringum gullkálfinn. Nokkrir komu þó og þökkuðu honum fyrir. Hann þorði meðan aðrir þögðu. Hann bar hag Sparisjóðsins fyrir brjósti, vildi veg hans sem mestan og bestan í þágu samfélagsins, ekki í þágu sérhagsmuna. Honum þótti sárgrætilegt að horfa á eftir honum í spillingarsúginn. Nokkru áður en hann lést kom ég við hjá honum á sjúkrabeði. Hann sat uppi við dogg, virtist nokkuð annars hugar en mjög einbeittur. Hann sagðist vera að undirbúa ræðu í huganum sem hann myndi halda á næsta aðalfundi Sparisjóðsins ef hann kæmist á fætur.
Því miður var ræðan aldrei flutt. Hún hefði sjálfsagt heldur engu breytt. Sparisjóðnum hefði eftir sem áður blætt til ólífis. Silkihúfurnar hefðu haldið áfram að maka krókinn, þrátt fyrir gífurlegt tap, þrátt fyrir hrun, þrátt fyrir óvissa framtíð starfsfólks og viðskiptavina. Silkihúfurnar hefðu séð til þess að geta gengið þurrum fótum frá sökkvandi skipi meðan sumir svömluðu í sjónum og enn aðrir sykkju. Siðblindan, taumleysið og græðgin hefðu verið söm við sig. Silkihúfurnar geta horft fram á áhyggjulaust ævikvöld meðan öðrum blæðir. Nema samviskan ræni menn áhyggjuleysinu.
Það hlýtur að vera nokkuð augljóst að misfarið hefur verið með fé almennings. Sérhagmunir hljóta að hafa verið teknir fram yfir almannahagsmuni. Það er nokkuð augljóst að stjórnendur Sparisjóðsins hafa verið uppteknari við að blása kúlur og hræra froðu en virða upprunalega hugmyndafræði Sparisjóðsins og starfa samkvæmt henni. Þegar gróðaglýjan blindaði virðist Sparisjóðurinn sjálfur og bankastarfsemi hans hafa verið látin sitja á hakanum meðan fjárfestingarleikurinn með ýmsum svokölluðum fjármálasnillingunum fékk byr undir báða vængi. Eins og allir aðrir glýjublindaðir og gráðugir bankamenn virtust stjórnendur Sparisjóðsins vera á harðahlaupum að búa vel í eigin hag og virtu Sparisjóðinn sjálfan og almenna viðskiptavini hans að vettugi. Þeim var falin mikil ábyrgð sem þeir kunnu ekki með að fara. Þeir brutu fjöreggið.
Ég fagna því að fara eigi fram sérstök rannsókn á innra starfi og hruni Sparisjóðanna. Við, íbúar Suðurnesja og velunnarar Sparisjóðsins, eigum heimtingu á að vita hvernig þetta gat eiginlega gerst. Hvernig getur það verið að Sparisjóðurinn okkar, sem árlega gumaði af svo feiknagóðri afkomu og blómlegu búi, sé hruninn með margra milljarða skuld á bakinu? Vonandi verður stungið á kúlum og froðan skafin af. Aðeins sannleikurinn mun gera okkur sátt.
Það er líka einlæg von mín að við eigum enn nóg af frómu fólki með sterka siðgæðisvitund þannig að hugsanlega verði unnt að vekja Sparisjóðshugmyndafræðina aftur til lífsins. Nú sem aldrei fyrr þarf almenningur á því að halda að upp rísi banki sem starfi eingöngu með almannahag að leiðarljósi. Banki sem hægt verði að treysta.
Jórunn Tómasdóttir