Illa drukkin, inn í skógi, hvar er tjaldið?
Verslunarmannahelgin er framundan, mesta ferða (sukk) helgi ársins og verða haldnar hátíðir víða um land samkvæmt venju. Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum er líklega þeirra þekktust og langlífust enda viðburður sem allir verða að prófa a.m.k. einu sinni um ævina. Fegurðin við þá hátíð er fyrst og fremst sú að þar geta allir aldurshópar skemmt (djammað) sér saman í einstöku og tiltölulega öruggu umhverfi eyjarinnar fögru. Þynnka þekkist ekki í Eyjum og kemur ekki fyrr en maður nær til lands en er svo sannarlega þess virði. Sjálfur verð ég að vinna um helgina en verð með í anda enda á tímum tækninnar, þá er hægt að fylgjast með t.d. brekkusöngnum í sjónvarpinu. Reyndar ekki nálægt þeirri upplifun og að vera á staðnum en ágæt sárabót fyrir þá sem komast ekki. Útihátíðir yfir þessa frægu helgi urðu mislanglífar og margt hefur breyst á síðustu árum, sem betur fer segja margir. Flestar þessara útihátíða voru haldnar út í náttúrunni en núna er þetta orðið mest megnis að bæjarhátíðum. Einhverjir sakna útihátíðanna en mig grunar þó að flestir séu sáttir við þá þróun sem hefur orðið á síðustu árum. Árið 1989 þá kláruðust t.d. 5000 smokkar á útihátíðinni í Húnaveri en blaðamaður Tímans lýsti hátíðinni með þessum orðum: „Stanslaus tónlist í þrjá og hálfan sólarhring. Drukknir unglingar, sofandi, dansandi, hlæjandi, í famlögum; skríðandi, vafrandi, grátandi, leitandi. Rusl, endalaust rusl, fjúkandi pappír, bjórdósir, gosdósir, gosflöskur, vínflöskur.“ Atlavík 1984 er sennilega þekktasta staka útihátíðin sem fór fram þessa helgi en svo hafa aðrar hátíðir orðið frægar eins og Uxi 1995 en því miður mest megnis vegna neikvæðra frétta. Mín eftirminnilegasta útihátíð var „bindindismótið“ í Galtalæk. Sú hátíð var algjörlega einstök, fólk beitti öllum brögðum til þess að smygla áfengi inn á þessa „bindindishátíð“ og mikið fjör í kringum smyglið. Hvergi var meira fyllerí en í Galtalæk. Móðir mín og pabbi heitinn treystu mér einum í Galtalæk 15 ára gömlum (ásamt góðum hópi ungmenna) og ég man ennþá sigurvímuna sem ég var í þegar 750ml vodka flaskan komst í gegnum gæslu hliðið. Þessi flaska dugði manni svo alla helgina (blandað í kók) og 15 ára unglingurinn upplifði margt og mikið þessa helgi. Sumt prenthæft en annað ekki. Ég á þrjá unga drengi og það er ekki séns að ég sleppi þeim á útihátíð fyrr en í fyrsta lagi eftir tvítugt, nú eða þá að pabbi gamli fái að fljóta með! Frekar sáttur með þá þróun sem hefur orðið á þessari helgi þrátt fyrir góðar minningar úr Galtalæk. Annars þá er spáin frábær fyrir helgina og óska ég öllum góðrar ferðar hvert sem ferð ykkar er heitið. Gangið hægt í gegnum gleðinnar dyr og njótið.