Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Iðnaðaráform í Helguvík -nú er að ná samningum
Sunnudagur 26. ágúst 2012 kl. 12:05

Iðnaðaráform í Helguvík -nú er að ná samningum

Liðlega fjögur ár eru liðin síðan við Oddný fjármálaráðherra, Árni bæjarstjóri, nafni hans Mathiesen þáverandi fjármálaráðherra, Kristján verkalýðsleiðtogi ásamt fulltrúum Norðuráls tókum stóflustunguna að álveri í Helguvík. Margt hefur gerst síðan sem tafið hefur framkvæmdir líkt og við öllum blasir. Verkefnið hefur hins vegar aldrei stoppað og trúin á það er enn til staðar, ekki síst heima í héraði. Nú er að ná samningi um orkuverð við þau þrjú fyrirtæki sem hyggjast selja rafmagn til stóriðju Norðuráls í Helguvík.

Á þessum árum hef ég fylgst grannt með gangi mála og alltaf verið sannfærður um að saman náist og þetta stærsta og mikilvægasta verkefni á svæðinu verði að veruleika. Ég hef enn þá trú og skora ég á orkufyrirtækin öll að ná saman við Norðurál til að við getum notað haustið og veturinn framundan til að ná verkinu á fulla ferð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Margt hefur gengið eftir af áformum um atvinnumál á Suðurnesjum. Líkt og nýtt gagnaver, undirbúningur öflugrar kísiliðju sem skapar fjölda fjölbreyttra starfa, uppbygging menntastofnunarinnar góðu Keilis, nýr Suðurstrandarvegur opnar nýjar víddir í ferðaþjónustu og mikil og vaxandi umferð erlendra ferðamanna eykur enn umsvifin í Flugstöðinni sem er einn stærsti vinnustaður landsins. Og nú er áformað að stækka stöðina verulega. Þá er ónefnt eitt mikilvægasta verkefnið sem er nýtt hjúkrunarheimili sem heilbrigðisyfirvöld eru að byggja í Reykjanesbæ.

Allt er þetta til marks um metnaðarfull áform um uppbyggingu og eflingu atvinnulífs á Suðurnesjum. Ekki hefur allt gengið eftir eða eins hratt og stefnt var að og því skiptir miklu að gefast ekki upp heldur halda órauð áfram og klára málin.

Til að auka enn á umsvif og vöxt á svæðinu er álver með öllum þeim störfum sem því fylgir mikilvægur áfangi. Þá má segja að samfélagið hafi náð sér á ný eftir það áfall sem brotthvarf hersins fyrir sex árum var með öllum þeim hundruðum starfa sem honum fylgdu.

Stöndum áfram saman þingmenn, sveitarstjórnarmenn og heimamenn allir og náum áformum um álver í Helguvík á fullt framkvæmdastig. Til þess þurfa allir að ganga fram af sanngirni sem að málum koma.

Björgvin G. Sigurðsson,
1. þingmaður Suðurkjördæmis.