Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Íbúafundur í Garði
Mánudagur 8. október 2012 kl. 09:15

Íbúafundur í Garði

Íbúafundur var haldinn í Sveitarfélaginu Garði þriðjudaginn 2. október, eftir fjögurra mánaða undirbúning meirihlutans. Íbúalýðræði er eitt af helstu baráttumálum N- og L- lista og því biðu margir spenntir eftir því að heyra hvernig bæjarfulltrúar meirihlutans túlka íbúalýðræðið í Garðinum. En eins og flestir muna þá hefur komið fram í skoðanakönnun að meirihlutinn nýtur um 30% fylgi íbúa Garðs. Það var því eftirvænting að heyra hvernig lýðræðisbandalag N- og L-lista færu í gegnum þá umræðu. Hvorki sú umræða eða nokkur önnur fór fram á fundinum enda féllst meirihluti N- og L- lista ekki á að liðurinn önnur mál væru á dagskrá fundarins. Það er auðvitað allt annað að tala um lýðræði en að það ríki lýðræði. Viljandi framsetning fundarins kom í veg fyrir allt samtal íbúa og bæjarfulltrúa og fundurinn sem slíkur olli vonbrigðum. Ágætir fyrirlestrar og áhugaverðir voru fluttir um íþróttahúsið og menntun á Suðurnesjum og eins flutti skólastjóri Gerðaskóla erindi um árangur í skólastarfinu.

Í samræmi við tillögu N- og L-lista um að leggja byggingu þreksalar við íþróttahúsið undir íbúafund var kosið um málið á fundinum. Á bæjarstjórnarfundi 3. október kom fram að tæpleg 95% fundarmanna hafi kosið með byggingu íþróttahússins. Það var ánægjuleg niðurstaða fyrir okkur D-listafólk sem löngu var búið að klára þetta mál. Við sem skiljum og virðum lýðræðið teljum að slík niðurstaða sé afdráttarlaus. Og fyrst farið var út í það að gefa bæjarbúum kost á að kjósa um málið, þá væri þeim sýnd sú virðing að niðurstaðan verði virt. Forseti bæjarstjórna, Jónína Hólm sagði í umræðum um málið á bæjarstjórnarfundi kvöldið eftir íbúafundinn að niðurstaða kosninganna þar sem 95% íbúa studdu tillöguna skipti engu máli og N-og L-listar væru ekki bundnir af niðurstöðunni. Blekið á atkvæðaseðlunum var því ekki þornað þegar lýðræðisástin hafi rjátlast af meirihluta Það er einkennileg niðurstaða lýðræðisins að meirihluti sem hefur um 30% íbúa á bak við sig hafni niðurstöðu íbúafundarins þar sem 95% fundarmanna greiddu atkvæði í ósamræmi við vilja meirihlutans. Þetta er íbúalýðræði N- og L-lista í Garðinum í hnotskurn.

Það var dapurlegt að enginn bæjarfulltrúi meirihlutans hafði neitt fram að færa á fundinum og enginn þeirra tók til máls um stefnu sína eða hugsjónir fyrir íbúa bæjarins. Ástæða þess er að meirihlutinn liggur undir hótunum eins bæjarfulltrúa. Nýleg grein Kolfinnu S. Magnúsdóttur um 14 mánaða gamla ráðningu forstöðumanns í Heiðarholti og meint málaferli hennar gegn félagsþjónustunni í því sambandi er í meira lagi einkennilegt af bæjarfulltrúa í Garði. En sú umræða snýst í raun um allt annað en þetta gamla mál, það vita flestir. Þá baráttu á Kolfinna að sækja sem einstaklingur en ekki sem bæjarfulltrúi sem nýtir pólitíska stöðu sér til hagsmuna. Hér er e.t.v. komin ástæðan fyrir því að Kolfinna hefur sagt sig úr siðanefnd bæjarins. Meirihlutinn hefur því engan tíma fyrir umræður við íbúa bæjarins eins og þögn þeirra á íbúafundinn bar með sér. Ég skora á N- og L-lista að fara ekki gegn samþykkt 95% þeirra fundarmanna sem greiddu atkvæði á íbúafundinum um byggingu þreksalar við Íþróttahúsið. Það væri enn ein aðför N- og L-lista að íbúalýðræðinu í Garði.

Ásmundur Friðriksson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024