Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Í vor er kosið um velferðina
Miðvikudagur 2. maí 2007 kl. 23:34

Í vor er kosið um velferðina

Kosningarnar í vor snúast um framtíð íslenska velferðarkerfisins. Um það hvort við þróumst áfram í átt að hráslaga hins amerkíska módels eða færumst aftur í flokk með norrænum velerðarríkjum.
Ísland hefur á liðnum áratug færst frá þéttriðnu neti skandinavísku velferðarinnar. Stærsta verkefni okkar jafnaðar- og félagshyggjufólks í nýrri ríkisstjórn undir okkar forystu er að snúa þessari þróun við. Ná efnahagslegum stöðugleika og byggja á ný upp sanngjarnt velferðarsamfélag. Þjóðfélag þar sem manngildið skiptir öllu og bræðralag og jafnrétti eru leiðarljósin.

Allt snýst þetta um forgangsröðun og pólitískar áherslur. Fordæmalaus ójöfnuður og gap á milli þeirra efnameiri og efnaminni eru afleiðingar af markvissri stjórnarstefnu frjálshyggjunnar. Gegn því teflum við manngildishugsjón jafnaðarstefnunnar sem byggir á fjölbreyttu og öflugu atvinnulífi og velferðarþjóðfélagi sem skilur engan eftir. Gætir sinna minnstu bræðra og skapar öllum jöfn tækifæri í raun óháð búsetu, kyni eða efnalegum bakgrunni.

Um þetta snúast kosningarnar í vor eftir tólf ára hægri stjórn sem hefur breytt samfélaginu með afgerandi hætti.

Við ætlum að binda enda á nauðungarvist eitt þúsund íslenskra eldri borgara sem nú deila herbergi á sambýlum öldrunarstofnana með vandalausu fólki. Við ætlum að binda enda á hreppaflutninga gamals fólks á öldrunarstofnanir langt frá heimili og afkomendum og við ætlum á átján mánuðum að eyða biðlistum 400 aldraðra Íslendinga eftir dvöl á hjúkrunarheimili.

Það er ekki okkar Ísland sem lætur börn með geðraskanir bíða í þrjú ár eftir greiningu og meðferð. Það er ekki okkar Ísland sem bíður börnum efnalítils fólks upp á það hlutskipti að vera án tannviðgerða og eftirlits.

Og það er ekki Ísland okkar jafnaðarmanna og félagshyggjufólks sem vanrækir menntakerfið og sker niður nauðsynleg útgjöld til nýframkvæmda í samgöngum.

Um allt þetta snúast þær mikilvægu kosningar sem fram fara þann 12. maí og Samfylkingin bíður upp á valkost um nýtt Ísland jöfnuðar, jafnréttis og efnalegs stöðugleika.

Björgvin G. Sigurðsson,

þingmaður og oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024